fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fókus

Tíu hlutir sem hægt er að kaupa í staðinn fyrir braggann

Fókus
Laugardaginn 13. október 2018 15:00

Bragginn Dýr og umdeildur.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Braggablúsinn í Nauthólsvík hélt áfram að vinda upp á sig í vikunni. Um er að ræða verkefni sem hefur kostað borgina rúmar 415 milljónir króna sem er talsvert meira en upphaflega var gert ráð fyrir og ekki liggur fyrir hver endanlegur kostnaður verður. Margir setja stórt spurningarmerki við upphæðina sem verður að teljast ansi há. DV tók saman tíu misgáfulega hluti sem borgaryfirvöld gætu gert fyrir 415 milljónir.

Leikskólar Hægt er að reka tvo leikskóla í heilt ár fyrir 415 milljónir.

Reka tvo 90 barna leikskóla í heilt ár

Samkvæmt tölum Sambands íslenskra sveitarfélaga kostar rekstur tveggja 90 barna leikskóla í Reykjavík rúmlega 400 milljónir. Er það leikskólapláss fyrir 180 börn. Hafa skal í huga að inni í þessum tölum er ekki byggingarkostnaður heldur aðeins rekstrarkostnaður; húsnæðiskostnaður, launakostnaður starfsmanna og kostnaður við matseld.

 

Lof mér að falla Góð bíómynd með mikilvægan boðskap.

Bjóða öllum á Lof mér að falla í bíó

Bíómiði á kvikmyndina margrómuðu Lof mér að falla kostar í dag 1.800 krónur. Rúmlega 218 þúsund manns búa á stór-höfuðborgarsvæðinu. Þetta þýðir að borgin gæti boðið íbúum höfuðborgarinnar á myndina í bíó. Ef við tökum frá þá 44 þúsund sem eru búnir að sjá myndina og alla undir 14 ára sem hafa ekki aldur til að sjá myndina þá gæti borgin boðið öllum landsmönnum á myndina í bíó.

 

Smáhýsi Mikill húsnæðisskortur er á höfuðborgarsvæðinu.

Helmingi fleiri smáhýsi fyrir heimilislausa

Í september síðastliðnum samþykkti borgarráð að verja 450 milljónum til kaupa á allt að 25 smáhýsum sem lið í aðgerðaráætlun í málefnum utangarðsfólks. Er þetta hluti af skaðaminnkunarverkefninu Húsnæði fyrst. Fyrir peningana sem fóru í braggann væri hægt að kaupa næstum því helmingi fleiri smáhýsi fyrir heimilislausa borgarbúa sem glíma við mikinn félagslegan vanda.

 

1944 Ljúffengir og næringarríkir réttir fyrir próflestur.

1944 handa nemendum HR

Bragginn stendur við hlið Háskólans í Reykjavík í Nauthólsvík, þar er nú matsölustaður. Fyrir 415 milljónir krónur er hægt að kaupa rúmlega 519 þúsund 1944 rétti. Í HR eru rúmlega 3.500 nemendur og þá erum við að tala um rúmlega 150 rétti frá 1944 á hvern einasta nemanda.  Einnig væri hægt að kaupa rúmlega 415 þúsund núðlupakka.

 

Dýrasta íbúð bæjarins Yrði tilvalin félagsleg íbúð.

Dýrasta íbúðin í Reykjavík

Á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur er nú verið að smíða dýrustu íbúð landsins. Um er að ræða 440 fermetra þakíbúð sem snýr að Hörpu. Er hún sérstaklega hönnuð af innanhúsarkitektum. Verðmiðinn hljóðar upp á um 400 milljónir króna eða nærri því tvær milljónir á fermetra. Í stað þess að byggja braggann hefði Reykjavíkurborg getað keypt íbúðina og gert hana að glæsilegustu félagslegu íbúð í heiminum. Það væri ekki amalegt heimsmet.

 

Hátæknifjós Afkastar mikilli mjólkurframleiðslu.

Risastórt hátæknifjós

Eitt stærsta og fullkomnasta fjós landsins rís nú á bænum Gunnbjarnarholti á Suðurlandi. Fjósið, sem verður tekið í notkun nú í október, er heilir 4.200 fermetrar. Þar er pláss fyrir 500 gripi, þar af yfir 200 mjólkandi kýr. Um er að ræða hátæknifjós með alsjálfvirku fóðrunarkerfi sem bóndinn á bænum líkir við mötuneyti fyrir kýr. Fjósið kostar rúmlega það sama og bragginn í Nauthólsvík.

 

Sverrir Ingi Ingason Jafn dýr og einn braggi.

Sverrir Ingi Ingason

Varnarmaðurinn Sverrir Ingi spilar með íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu og rússneska félaginu FC Rostov. Hann er mjög efnilegur leikmaður, alinn upp í Breiðabliki og hefur spilað með liðum í Noregi og Belgíu. Sverrir Ingi var í íslenska liðinu sem lék á EM í Frakklandi 2016 og HM í Rússlandi í sumar. Verðmiðinn á Sverri Inga hljóðar upp á tæplega sömu upphæð og kostnaður við braggann er orðinn.

 

Útfarir Dauðinn er mjög kostnaðarsamur fyrir aðstandendur.

Útfarir í 11 ár

Rúmlega 40 manns svipta sig lífi á hverju ári, sú tala er byggð á meðaltali af tölum frá árunum 1996 til 2016 frá Embætti landlæknis. Á árunum 2015 til 2017 létust 42 af völdum ofneyslu lyfseðilsskyldra ópíóðalyfja, eða 14 á ári. Samkvæmt upplýsingum frá útfararstjóra kostar útför að meðaltali í kringum 650 þúsund krónur. Þetta þýðir að fyrir 415 milljónir gæti Reykjavíkurborg greitt fyrir útfarir allra þeirra sem fremja sjálfsvíg eða deyja af völdum ópíóðalyfja næstu 11 árin.

Myndin er úr safni
Grunnskólar Ekki til peningar fyrir fríum máltíðum.

Milljón grunnskólamáltíðir

Frír matur í grunnskólum hefur verið deiluefni í borginni í áraraðir. Í ágúst síðastliðnum var felld tillaga þess efnis og sagt að það yrði of dýrt. Um 16 þúsund einstaklingar á grunnskólaaldri búa í Reykjavík. Máltíðin kostar í kringum 400 krónur. Fyrir einn bragga væri því hægt að kaupa um eina milljón skólamáltíðir.

Sund Ein vinsælasta dægradvöl Íslendinga.

Bjóða öllum í Reykjavík í sund – tvisvar

Fyrir 415 milljónir gæti Reykjavíkurborg keypt tvo staka miða í sund fyrir alla 126 þúsund íbúa borgarinnar en stakur miði kostar samkvæmt vef borgarinnar 980 krónur fyrir 18 ára og eldri, 160 krónur fyrir börn 6 til 17 ára. Það væri jafnvel hægt að hafa bjóð upp á valkost; að fara tvisvar eða fara einu sinni og fá að láni handklæði og sundfatnað.

Dýrt brúðkaup
En skilaði miklu inn í breska hagkerfið.

Halda konunglegt brúðkaup

Fyrir 415 milljónir er hægt að halda konunglegt brúðkaup eins og hjá Harry prins og Meghan Markle á þessu ári sýnir. Um 600 gestum var boðið í veisluna og 2.640 gestum boðið að fagna með brúðhjónunum við Windsor-kastala. Samkvæmt Reuters komu hins vegar 71 milljarður króna inn í breska hagkerfið vegna ferðamannastraums í tengslum við brúðkaupið. Ólíklegt er að bragginn trekki svo að.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu