Í dag kl. 20, í friðarviku Reykjavíkurborgar, stendur Eyrún Ósk Jónsdóttir, skáld og leikkona fyrir friðar-ljóðagjörning í Menningarsetri SGI búddistasamtakanna Laugavegi 178.
Um er að ræða eins konar ljóða-hugleiðslu þar sem flytjandinn leiðir áhorfendur í einskonar kyrrðar ferðalag með ljóðaupplestri en öll ljóðin fjalla um frið og kærleika og sannkölluð kyrrðar tónlist ómar undir upplestrinum. Áhugaverð og nýstárleg tilraun með ljóðlistina.
Leikstjóri er Hildur Kristín Thorstensen en tónlistina samdi Viktor Aron Bragason. Öll ljóðin eru eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur.
Verkið var áður flutt á alþjóða friðardaginn í Fríkirkju Hafnarfjarðar og á fjáröflunarkvöldverði hjá Múltíkúltí.
,,Það hljómar kannski eins og þversögn en mér sýnist sem fátt sé meira ögrandi og krassandi en umræða um frið, ást og kærleika. Við getum verið svo ótrúlega hrædd við allt sem gæti talist væmið og einlægt, tengjum það jafnvel við heimsku og barnalega heimsmynd. Í heimi þar sem normalisering á hatursorðræðu og óttaáróðri fer vaxandi skal ég halda áfram að ögra með minni persónulegu hjarta- og kærleiksbyltingu og tala skammlaust fyrir friði ást og kærleika,“ segir Eyrún Ósk.
Eyrún Ósk hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar
Eyrún Ósk Jónsdóttir skáld vann bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2016 og hlaut í ár starfsstyrk úr Höfundasjóði RSÍ. Eyrún á baki feril sem rithöfundur, leikari og leikstjóri. Hún hefur sent frá sér fjórar skáldsögur, eina myndskreytta barnabók og fjórar ljóðabækur. Hún hefur skrifað fjölda leikrita sem hafa verið sett upp í leikhúsum hérlendis og erlendis auk þess sem hún hefur skrifað kvikmyndahandrit, greinar, fyrirlestra og útvarpserindi.
Hildur Kristín Thorstensen leikstjóri útskrifaðist af listabraut frá Fjölbrautarskólanum í Garðbæ árið 2014 og fór því næst til Huittinen í Finnlandi í sviðslistarnám við Länsi-Suomen opisto og loks í leiklistarnám við Cours Florent í París. Nú er hún í námi við Söngskólann í Reykjavík og stefnir á að klára 8. stigið. Í fyrra gaf hún út fyrstu ljóðabók sína Hugljúfar minningar. Friðar-ljóðagjörningurinn er fyrsta leikstjórnar verkefnið hennar eftir leiklistarnámið.
Viktor Aron Bragason tónsmiður er tónlistarmaður sem hefur meðal annars samið tónlist fyrir leikhús, stuttmyndir, dansverk ofl. Hann hefur spilað í fjölda hljómsveita en spilar nú með hljómsveitinni Beware the Blue Sky.