fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fókus

„Það er ótrúlegur subbuskapur sem viðgengst á íslenskum vinnumarkaði“

Ari Brynjólfsson
Miðvikudaginn 10. október 2018 22:00

Drífa Snædal, forseti ASÍ Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, gefur kost á sér til forseta ASÍ í kosningum sem fara fram í lok mánaðarins. Að loknu stúdentsprófi í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti fór hún í Iðnskólann sem leiddi hana út í að verða formaður Iðnnemasambandsins þar sem hún steig sín fyrstu skref í verkalýðsbaráttu. Blaðamaður DV settist niður með Drífu á skrifstofu hennar í Borgartúni og ræddi við hana á persónulegum nótum um verkalýðsbaráttuna og verkefnin framundan.

„Ég var lengi að finna mig, það má segja að ég sé afsprengi góðs og sveigjanlegs skólakerfis á Íslandi. Ég vann sem tækniteiknari á verkfræðistofu í nokkur ár. Síðar skráði ég mig í háskólann og ætlaði að verða endurskoðandi. Ég veit ekki hvernig mér datt það í hug en fór í viðskiptafræði og heillaðist að vinnumarkaðsfræði,“ segir Drífa. Á þeim tímapunkti má segja að það hafi verið augljóst hvert hún stefndi en lokaritgerðin var um gerð kjarasamninga og launamun kynjanna.

Drífa er alin upp að hluta til í Svíþjóð, hún bjó í Lundi frá 6 til 11 ára aldurs. „Ég sneri aftur til Svíþjóðar til að ná mér í meistarapróf, frá 2010 til 2012. Ég bjó í stúdentakommúnunni  sem barn og fullorðin.“

Ekki til í leikinn

Drífa hefur alltaf brunnið fyrir stjórnmálum og ólst upp á Kvennalistaheimili. Amma hennar var á meðal stofnenda Kvennalistans og voru móðir hennar og móðursystur virkar í flokknum. „Þetta er í genunum. Þetta gerist bara þegar maður er alinn upp á heimili þar sem rætt er um pólitík og þá fer manni að finnast það þegnskylda að taka þátt. Ég var alltaf mjög virk í pólitískri baráttu, ég var í Kvennalistanum og tók þátt í stofnun Vinstri grænna 1999.“

Áhrif innan ríkisstjórnar ofmetin Drífa tók þátt í að stofna Vinstrihreyfinguna – grænt framboð á sínum tíma, en hún yfirgaf flokkinn þegar hann fór í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn. Segir hún að áhrif flokka innan ríkisstjórnar séu ofmetin. Ljósmynd: DV/Hanna

Hún var framkvæmdastýra Vinstri grænna í fjögur ár og stóð oft frammi fyrir ákvörðun um hvort hún ætti að taka þátt í forvali. Hún hætti í flokknum í nóvember 2017 þegar flokkurinn fór í viðræður um myndun ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokknum. „Þegar flokkurinn fór í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn þá var trúverðugleikinn farinn. Mér fannst þetta ekki geta orðið til hagsbóta fyrir þá hópa sem flokkurinn var að berjast fyrir,“ segir Drífa. Hún tekur það fram að það hafi ekki orðið nein persónuleg vinslit við þá sem eru enn í Vinstri grænum.

Hún sér ekki eftir því að hafa yfirgefið flokkinn nú þegar ríkisstjórnin hefur setið í nærri því ár. „Áhrif innan ríkisstjórnar eru ofmetin. Mér finnst það mjög mikilvægt að vera með fólk sem gætir hagsmuna venjulegs fólks í stjórnarandstöðu. Þegar maður er kominn í ríkisstjórn þá er maður farinn að miðla málum og verja óverjandi ákvarðanir samstarfsflokks. Þannig virkar leikurinn, við vitum það. Þannig að allt í einu eru VG-liðar farnir að verja lögbrot Sigríðar Andersen. Þetta var ekki leikur sem ég var til í.“

Margt líkt með Kvennaathvarfinu og verkalýðshreyfingunni

Að loknu námi starfaði hún hjá Kvennaathvarfinu, fyrst við fræðslu en síðar sem framkvæmdastýra. „Það var mjög skemmtilegur tími. Það var rosaleg virkni í kvennabaráttunni þá, við vorum í samstarfi við pólitíska flokka, kvenfélagasambandið og vorum við að berjast fyrir lagabreytingum sem eru nú flestar orðnar að veruleika. Það er fátt sem nær meiri árangri en þegar kvennakraftur er virkjaður.“

Tók það ekki á andlega að starfa með konum sem voru að flýja heimilisofbeldi?

„Jú, það gerði það. En maður fær líka að sjá konur blómstra eftir að hafa rofið einhvern vítahring. Þannig að þetta er mjög skemmtilegt starf. Þetta eru viðtöl, þar sem konur koma og ræða um aðstæður sínar, svo settum við á laggirnar stuðningshópa, svo voru konur að koma til okkar til dvalar. Það gat auðvitað verið svakalegt.“

Drífa sér talsverð líkindi á milli þess að starfa hjá Kvennaathvarfinu og innan verkalýðshreyfingarinnar. „Það getur líka verið svakalegt að taka á móti einhverjum sem hefur lent í ofbeldi á vinnumarkaði. Það geta verið ömurleg mál, það geta verið mál þar sem verið er að stela af þeim laununum eða verið að henda þeim út úr húsnæði í eigu atvinnurekenda.“

Þörf á Karlaathvarfi

Málin sem rata inn á borð verkalýðshreyfingarinnar eru margvísleg. Það heyrist á Drífu að hún hefur reynt að aðstoða marga sem hafa lent í mjög slæmum aðstæðum, aðstæðum sem margir Íslendingar eiga erfitt með að ímynda sér að eigi sér stað í okkar samfélagi. „Þessi heimur getur verið ógeðslegur og mannfyrirlitningin algjör. Þetta er eitt af mínum hjartans málum, að uppræta brotastarfsemi á vinnumarkaði því hún hefur ógeðslegar birtingarmyndir,“ segir Drífa og hikar. „Við verðum að átta okkur á því að fólki virðist vera svo sama um náungann. Fólk er kannski að vinna hlið við hlið; Íslendingur sem veit allt um sín réttindi og skyldur, eins og Íslendingar eru góðir í, og útlendingur sem er nánast þræll. Þræll sem fær ekki útborgað og þarf að vinna við óboðlegar aðstæður. Það þarf að virkja alla til vitundar um hver það er sem þrífur eftir þig skítinn. Það er ótrúlegur subbuskapur sem viðgengst á íslenskum vinnumarkaði.“

Á þetta mest við um útlendinga?

„Útlendinga og ungt fólk, en sérstaklega útlendinga, þar sem þeir þekkja ekki réttindi sín og skyldur. Stundum eru þeir hræddir við stéttarfélagið og lögregluna, koma kannski frá landi þar sem þetta er hvort tveggja spillt. Við höfum mörg dæmi þess að fólki hefnist fyrir að fara í stéttarfélagið, rekið í kjölfarið eða eitthvað. Það er mjög auðvelt að misnota fólk. Þetta er okkar daglega barátta að koma upplýsingum áleiðis til fólks.“

Leiðirnar til þess að misnota aðstöðu og þekkingarleysi fólks eru margar. Ný leið sem Drífa segir að sé að ryðja sér til rúms hér á landi virkar heiðarleg á yfirborðinu og til þess að hún virki þarf marga aðila og mikið fjármagn. „Þetta er svakalegt. Það eru gerðir ráðningarsamningar, gefnir út launaseðlar og allt það, en það er verið að hirða mestan hluta launanna í húsnæði, ferðir, líkamsræktarstyrki og alls konar. Það er bara verið að tína til alls konar kostnað til þess að ná peningunum aftur inn í fyrirtækið. Hugmyndaflugið er alveg endalaust þegar kemur að því að stela peningum og vinnuframlagi fólks.“

Til þess að vinna bug á þessu er verkalýðshreyfingin búin að byggja upp gott samstarf við lögregluna ásamt því að setja á laggirnar teymi til að kalla saman við sérstakar aðstæður. Vandinn er sá að kerfið er ekki búið að gera sér grein fyrir hvernig á að takast á við aðstæður fólk sem er nánast, eða hreinlega, þrælar. „Hingað kemur maður sem er með skráð lögheimili í sveitarfélagi sem hann hefur aldrei komið til og þá er kominn upp einhver ágreiningur upp hvaða félagsþjónusta í hvaða sveitarfélagi eigi að aðstoða hann. Á meðan er hann bara hérna og hefur engan stað til að sofa á.“

Drífa hefur áhugaverða lausn á slíku vandamáli. „Við þurfum að setja á laggirnar Karlaathvarf. Eða við getum viðurkennt að við byggjum okkar velsæld á því að misnota annað fólk. Ef við gerum það ekki þá þurfum við að gera eitthvað í því.“

Heyrt ótrúlegustu nöfn

Ekki á vegum neinna. Hún hefur ekki sóst eftir stuðningi frá neinum til þess að verða forseti ASÍ, hún tók ákvörðunina eftir að hafa fengið hvatningu víða að. Ljósmynd: DV/Hanna

Markmið hennar í dag er að verða næsti forseti ASÍ. Verkefni næsta forseta ASÍ eru meðal annars að leiða verkalýðshreyfinguna í gegnum væntanleg átök á vinnumarkaði. Það myndi setja Drífu beint í skotlínu opinberrar umræðu á Íslandi, eitthvað sem hörðustu stjórnmálamenn hafa kveinkað sér undan undanfarin misseri. „Það er ekkert mál að verða heimsfrægur á Íslandi, hér er annar hver maður í opinberri umræðu,“ segir Drífa og hlær. „Nei, nei, þetta er ekkert sem ég óttast. Ég á ekki í neinum vandræðum með að tala máli umbjóðenda, tala máli þeirra sem hafa ekki aðgang að fjölmiðlum og enduróma það sem baklandið hefur samþykkt. Það sem mér finnst óþægilegt er að tefla sjálfri mér fram sem persónu, það er öðruvísi. Mín sýn á það að vera í félagasamtökum er að það á ekki að fjalla um persónu, þess vegna finnst mér það andstætt mínum hugmyndum að vera í persónukjöri,“ segir Drífa. „Þetta er bara eitthvað sem þarf að gera.“

Það hefur verið talað um að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, ásamt fleirum, ætli sér að taka yfir ASÍ. Ert þú þeirra frambjóðandi?

„Ég hef ekki sóst eftir stuðningi frá neinum. Mér finnst bagalegt þegar það er verið að merkja ákveðna frambjóðendur. Ég hef verið í ágætis samskiptum við mjög marga anga innan verkalýðshreyfingarinnar, þá sem hafa komið nýir inn og þá sem voru fyrir. Það er mín hugmynd að allir geti unnið saman. Ástæða þess að ég býð mig fram er að ég fékk hvatningu úr öllum áttum. Þá hugsa ég, „ókei, ég á séns á að geta sameinað alla“, þess vegna finnst mér leiðinlegt þegar verið er að eyrnamerkja frambjóðendur. Sérstaklega þegar það eru konur og það eiga að vera einhverjir karlar að spila þeim fram.“

Drífa hefur heyrt margs konar sögur og útfærslu á því hverjir eða hvaða öfl séu að baki hennar framboði. „Ég hef heyrt „Sólveig, Ragnar, Villi“, ég hef heyrt að það sé Gylfi Arnbjörns, ég hef heyrt að það sé Gunnar Smári eða Ögmundur Jónasson. Það eru alveg ótrúlegustu nöfn.“

Þó svo að þau standi ekki að baki þínu framboði, ert þú sammála Sólveigu Önnu, Ragnari Þór og Vilhjálmi Birgissyni um að það þurfi að gera róttækar breytingar?

„Já. Ég vil gera róttækar breytingar á samfélaginu. Það er hópur sem hefur setið eftir og það sem við höfum áorkað í kjarasamningum hefur verið hirt í húsaleigu og skertum bótum. Ég held að allir í verkalýðshreyfingunni séu sammála um þetta, þetta snýst bara um útfærslu. Lægsti tekjuhópurinn hefur tekið á sig miklu meiri skattbyrðar en hann gerði fyrir 30 árum þannig að þróunin hefur verið í átt að aukinni misskiptingu.“

Það hefur verið nokkuð rætt um misskiptingu og jöfnuð undanfarið, fram hafa stigið þeir sem segja misskiptingu ekki mikla og alls ekki að aukast. „Við erum ekki að tala um tekjumisskiptingu heldur eignamisskiptingu. Það er ekki hægt að undanskilja heila stétt fjármagnstekjueigenda sem eru ekki á launaskrá neins staðar.“

„Verkalýðshreyfingin er verkalýðspólitík“

Sérðu fram á blóðug átök á vinnumarkaði?

„Það fer allt eftir viðsemjendum okkar,“ segir Drífa og hlær. „Það er ekki í okkar höndum. Það er ekkert launungarmál að þetta misrétti sem fólk finnur á eigin skinni, daglega, það er eitthvað sem tilheyrir stjórnvöldum að bæta úr. Það þarf að draga úr misskiptingu í innheimtu skatta. Fólk á ekki að verða gjaldþrota bara því það veikist. Það þarf að afnema gjöld úr skólakerfinu og heilbrigðiskerfinu,“ segir Drífa. Skilaboðin sem hún vill senda til ríkisstjórnarinnar og þingsins eru skýr. „Stjórnvöld þurfa að koma með eitthvað í pakkann. Ekki síst við að leysa húsnæðisvandann. Það fer eftir stjórnvöldum og viðsemjendum okkar hversu harður vetur þetta verður.“

Verkfall kemur til greina. Drífa segir það matsatriði þegar að því kemur hvort það verði blásið til verkfalls. Ljósmynd: DV/Hanna

Er það í verkahring verkalýðshreyfingarinnar að skipta sér af stefnu stjórnvalda, er það ekki kjósenda og þeirra fulltrúa?

„Verkalýðshreyfingin á að skipta sér af öllu. Þetta eru hagsmunasamtök launafólks og allt sem snertir kaup og aðbúnað launafólks á Íslandi, kemur verkalýðshreyfingunni við.“

Er þá ekki verið að lauma inn vinstrisinnuðum áherslum bakdyramegin sem ekki tókst að koma á í þingkosningum?

„Verkalýðshreyfingin er verkalýðspólitík. Við vitum að fólk kýs yfir sig ákveðna flokka og er svo ekkert ánægt með útfærsluna þegar það er komið í stjórnarráðið,“ segir Drífa og brosir. „Það er okkar hlutverk að veita stjórnvöldum aðhald og þrýsta á um breytingar sem verða launafólki til góðs.“

Því skal haldið til haga að ASÍ fer ekki í verkfall og hefur ekki umboð til að gera kjarasamninga, ef það kemur til þess þá eru það aðildarfélögin. Hlutverk ASÍ er að finna samhljóm meðal félaganna.

Kemur verkfall til greina?

„Það kemur allt til greina. Verkfallsvopnið er mjög mikilvægt og launafólk verður að vera tilbúið að beita því. Það sem við eigum eftir að fá úr skorið eru kröfurnar, nú erum við að fá mynd af kröfum félagsmanna og hversu langt þeir eru tilbúnir að ganga. Þetta er bara matsatriði þegar tíminn kemur.“

Nú er talað um að of miklar launahækkanir séu ekki raunhæfar og geti beinlínis verið hættulegar stöðugleika efnahagslífsins.

„Þetta er bara alltaf sama gamla sagan. Ég spyr á móti, stöðugleiki fyrir hvern? Erum við að tala um fólk sem getur ekki unnið fyrir sér eða vinnur en hefur samt ekki efni á því að borga húsaleigu, mat og lifa sómasamlegu lífi? Er það stöðugleiki sem við viljum? Við höfum farið í gengum uppgang og dýfur og það að biðja launafólk um að viðhalda stöðugleika þegar það getur varla séð fyrir sér er forhert. Forhert.“

Þurfa að hætta að smyrja

Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsleiðtogi á Akranesi, hefur verið hávær í gagnrýni sinni á fyrirkomulag launahækkana. Hann hefur margsinnis sagt að prósentuhækkanir séu einungis til þess að breikka launabilið. Það sem þurfi að gera sé að semja um krónutöluhækkanir.

Það má segja að við séum vön að heyra talað um prósentur í kringum kjarasamninga, er hægt að semja upp á krónutöluhækkanir til að þær haldist og verði ekki breytt í prósentur fyrir þá sem eru hærra í launakeðjunni?

„Þá verða allir að sýna ábyrgð. Þeir sem þurfa að sýna mesta ábyrgð eru þeir sem bera mest úr býtum. Þeir verða þá að sýna þá ábyrgð að vera ekki alltaf að smyrja ofan á sín eigin laun.“

Nú hefur þú komið að samningaborðinu með Samtökum atvinnulífsins. Vilja þeir krónutöluhækkanir?

„Þeir hafa nú verið meira í prósentum, frekar lágum prósentum,“ segir Drífa og hlær. „Þeir mátu svigrúmið upp á 2,5 prósent árið 2015. Við sömdum upp á 20 til 30 prósent í krónutölum, það er ekki mjög mikið fyrir lægst launaða hópinn.“

Drífa bendir á að það séu ekki allir alltaf á einu máli innan ASÍ, það sé eðli samtaka sem telji meira en 130 þúsund manns. „Þeir sem hafa lægstu launin vilja semja upp á krónutölu en svo erum við auðvitað með millitekjuhópa innan ASÍ sem vilja semja um bæði krónutölu og prósentur, það hefur yfirleitt verið niðurstaðan yfir línuna.“

Ávinningur af því að hækka lægstu launin

Eigum að vita hvernig launin dreifast. Drífa segir það koma til greina að gera þá kröfu að fyrirtæki og stofnanir upplýsi um launadreifingu. Ljósmynd: DV/Hanna

Hagfræðingur Viðskiptaráðs sagði í viðtali nýverið að það væri stærðfræðileg staðreynd að láglaunafólk verði með hærri laun en forstjórar ef núverandi launaþróun héldi áfram. Drífa sér það ekki gerast. „Ég held að ég geti alveg staðfest það að launabil á milli verkamanna og forstjóra fyrirtækja hefur aukist mjög mikið ef við skoðum síðustu fimmtíu árin. Ég er með tölur frá Norðurlöndunum þar sem bilið hefur margfaldast, þetta er eitthvað sem ég sé fyrir mér að ASÍ geri, að útbúa skýrslur aftur í tímann um launabil innan fyrirtækja.“

Hún segir að þolið gagnvart launabili, það er hversu margföld laun þeir hæstlaunuðu eru með samanborið við þá sem hafa lægstu launin innan sama fyrirtækis eða stofnunar, hafi aukist verulega síðustu þrjá áratugi. „Við sjáum það bara með því að skoða gamlar umræður þar sem talað var um að enginn ætti að vera með meira en tvisvar eða þrisvar sinnum hærri laun en einhver annar. Núna er líka launabil innan ríkisins að aukast mjög mikið. Mér þætti mjög áhugavert að sjá úttektir á stórum vinnustöðum eins og Háskóla Íslands og Landspítalanum. Ég vil að umræðan þróist í þá átt að stórir vinnustaðir og launagreiðendur geri sér starfskjarastefnu um hvað sé ásættanlegt launabil.“

Hvernig sérðu slíkt verða að veruleika?

„Við getum gert þá kröfu að þessu verði gerð skil í ársreikningum fyrirtækja, hvernig launadreifingin sé. Mér finnst eðlilegt að þeir sem selji vinnuna sína viti hvernig launin dreifast á sínum vinnustað.“

Tekur hún sem dæmi einhvern með 400 þúsund krónur í mánaðarlaun í fullu starfi hjá fyrirtæki þar sem framkvæmdastjórinn er með rúmar tvær milljónir í mánaðarlaun. „Það er fimmfalt launabil. Er það eðlilegt? Segjum sem svo að það væri svo sett starfskjarastefna þar sem kveðið er á um ferfalt launabil, þá hefðu hæst launuðu starfsmennirnir ávinning af því að hækka lægstu launin.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni