Menningarverðlaun DV fyrir árið 2017 verða afhent við hátíðlega athöfn föstudaginn 5. október klukkan 16:30 í nýjum og glæsilegum höfuðstöðvum DV að Suðurlandsbraut 14. Í ár verða veitt verðlaun í sjö flokkum; kvikmyndum, leiklist, tónlist, myndlist, bókmenntum, fræðum og stafrænni miðlun auk þess sem veitt eru sérstök heiðursverðlaun.
Þá verða lesendaverðlaun dv.is veitt en þar munu lesendur dv.is fá tækifæri til þess að kjósa það verk, listamann eða höfund sem þeim líst best á. Þriðjudaginn 2. október hefst netkosning á dv.is sem stendur til miðnættis 4. október. Sú tilnefning sem hlýtur flest atkvæði í netkosningunni hreppir lesendaverðlaun dv.is.
Hér má sjá tilnefningarnar og skipan dómnefndar í flokki leiklistar. Á næstu dögum verða birt á vef dv.is tilnefningar í öllum þeim flokkum sem veitt verða verðlaun fyrir.
Leikhóparnir Miðnætti og Lost Watch fyrir barnasýninguna Á eigin fótum í Tjarnarbíó; leikstjóri Agnes Wild.
Leikendur eru bæði fólk og brúður. Sagan gerist fyrir löngu og segir með látbragði, tónlist og frumlegri sviðsvinnu, en nánast orðalaust, frá því þegar Ninna fer sex ára í sveit til vandalausra. Hugarangri barnsins er komið vel til skila á hæfilega kímilegan hátt og afar vel sýnt hvernig hún aðlagast smám saman lífinu í sveitinni. Fyrst eru það dýrin á bænum sem ná til hennar. Þau urðu til úr alls konar tilfallandi dóti fyrir framan augu heillaðra leikhúsgesta og voru gríðarlega skemmtilega gerð. Þetta er spennandi og fróðleg saga sem gaman er að tala um við börn auk þess sem hún geymir sanna leikhústöfra.
Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Gísli Örn Garðarsson og Ólafur Egill Egilsson fyrir Ellý í uppfærslu Vesturports og Borgarleikhússins.
Lífshlaupi einnar dáðustu dægurlagasöngkonu landsins eru gerð framúrskarandi skil í hugvitsamlegu handriti Gísla Arnar og Ólafs Egils. Þar gegnir tónlistin lykilhlutverki, en höfundarnir hafa valið ríflega fjörutíu lög frá ferli Ellyjar sem flutt eru að hluta eða í heild til að skapa réttu stemninguna hverju sinni. Gísli Örn heldur sem leikstjóri utan um alla þræði uppfærslunnar af miklu öryggi og sterkri listrænni sýn þar sem hjartað og húmorinn ráða ríkjum í þeim leikhúsgaldri sem skapaður er. Katrín Halldóra geislar í hlutverki Ellyjar, enda býr hún yfir miklum sviðssjarma, góðum kómískum tímasetningum og stórkostlegri rödd sem snert hefur streng í hjarta þjóðarinnar.
Eggert Þorleifsson fyrir titilhlutverkið í Föðurnum eftir Florian Zeller undir stjórn Kristínar Jóhannesdóttur í Kassa Þjóðleikhússins.
Eggert leikur verkfræðinginn André, reffilegan fullorðinn mann sem þolir illa tilraunir dóttur sinnar til að ráða handa honum húshjálp. En fljótlega kemur í ljós að André stríðir við minnisglöp sem verða æ verri þegar líður á verkið. Áhorfendur upplifa sterkt líðan hans í viðsjárverðum heimi þar sem allt er ótryggt, ástvinir koma og hverfa, ókunnugt fólk leggur undir sig híbýli hans, er hann heima hjá sér eða annars staðar? Það er jafnvel talað við hann eins og hann sé fáviti. Eggert sýnir glöggt hæga leið manns inn í tómið, yfirborðshroka hans meðan hann heldur ákveðnu sjálfsöryggi, vaxandi óöryggi uns kemur að hjartaskerandi niðurbroti að lokum.
Brynhildur Guðjónsdóttir fyrir hlutverk sitt í Guð blessi Ísland eftir Mikael Torfason og Þorleif Örn Arnarsson í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar á Stóra sviði Borgarleikhússins.
Brynhildur fer með hlutverk Davíðs Oddssonar í verki sem byggt er á Rannsóknarskýrslu Alþingis. Hún birtist fyrst í verkinu standandi á þaki líkbíls sem ekur fram á sviðið og ryður um leið frá sér gríðarlegum fjölda af vandlega uppröðuðum hvítum garðstólum. Margt mátti lesa úr þessari innkomu sem sannarlega var ein sú magnaðasta á árinu. Brynhildur nýtti sér kraft innkomunnar og hélt áhorfendum í hendi sér til loka með sívaxandi dýpt og óvæntum vinklum, allt þar til hún afklæddist hlutverkinu í sýningarlok. Persónusköpun hennar í hlutverki Davíðs var svo tæknilega fáguð, margslungin og skemmtileg að ekki verður séð að nokkur hefði getað betur farið í hans gervi.
Tyrfingur Tyrfingsson, Sigrún Edda Björnsdóttir og Ólafur Egill Egilsson fyrir Kartöfluæturnar á Litla sviði Borgarleikhússins.
Tyrfingur hefur einstakt lag á að beina sjónum áhorfenda að flókinni dýnamík ofbeldissambanda. Í Kartöfluætunum matreiðir hann meðvirkni, stjórnsemi og leyndarhyggju með sótsvörtum húmor, laus við alla pólitíska rétthugsun. Uppfærsla Borgarleikhússins var kraftmikil og ögrandi undir úthugsaðri leikstjórn Ólafs Egils þar sem persónur fóru aldrei stystu leið að markmiði sínu. Sigrún Edda hafði meistaraleg tök á hinni margræðu ættmóður sem notaði óhikað sjarma sinn og kynþokka til að sveigja aðra að vilja sínum. Valdbeitingin var klædd sem umhyggja, en tilfinningalegur kuldi persónunnar og andleg vannæring leyndi sér ekki í meðförum Sigrúnar Eddu.
Í dómnefnd sátu Bryndís Loftsdóttir, Silja Björk Huldudóttir og Silja Aðalsteinsdóttir