Helgi gaf út sína fyrstu breiðskífu, Skýjabönd í lok ágúst.
„Ég er búinn að vera að vinna að plötunni síðastliðið ár,“ segir Helgi, sem hingað til er þekktastur fyrir að berja á trommurnar í hljómsveit vinar síns, Ásgeirs Trausta, sem var Helga til halds og trausts við upptökurnar sem fram fóru í Hljóðrita. Í viðtali við Fjarðarpóstinn segir Ásgeir Trausta vera stærsta áhrifavald sinn í tónlistinni. „ Að miklu leyti er það vegna þess hversu nánir vinir við erum og þar sem við höfum svipaðan smekk og stillumst inn á sama tíðnisvið í tónlistinni.“
En um hvað er platan? „Þetta er uppgjör sem snýr að mér sem manneskju og hver ég var og á hvaða stað þegar ég samdi tónlistina. Ég var þá í öðru sambandi og þau sambandsslit höfðu gríðarleg áhrif á mig og urðu mér sem mesti drifkrafturinn fyrir þetta verkefni. Ég tók mig líka í gegn andlega og tileinkaði mér nýtt hugarfar sem opnaði augun mín upp á gátt gagnvart því að vera trúr sjálfum mér.“
Í tilefni útgáfunnar ætlar Helgi ásamt öflugri hljómsveit sinni að flytja plötuna í heild sinni í fyrsta skipti í Bæjarbíói fimmtudagskvöldið 4. október.
Hljómsveitin sem spilar með Helga á tónleikunum er skipuð þeim Hjörvari Hans Bragasyni (bassi), Magnúsi Jóhanni Ragnarssyni (píanó og hljóðgervlar), Bergi Einari (trommur) og Kristni Þór Óskarssyni (gítar).