Næsta mánudag verður leikritið Synecdoche, MH frumsýnt í Undirheimum Menntaskólans við Hamrahlíð (MH). En hvað þýðir eiginlega Synecdoche?
Synecdoche er hugtak sem notað er þegar hluti af einhverju lýsir heildinni, eða þannig skilur blaðamaður gúglið. ,,Gott dæmi er góðir hálsar,” segir Þorsteinn Sturla Gunnarsson sem skrifaði og leikstýrir verkinu, og meinar að hálsar vísa til eiganda hálsanna. Þið brjótið heilann yfir þessu,” segir í grein á Babl.is um leikritið.
Synecdoche, MH fjallar um Aldísi sem er að fara að útskrifast úr MH og er orðin þreytt á skólanum og lífinu. ,,Í byrjun haustannarinnar fær hún svo tækifæri til að skrifa handrit fyrir handritakeppnina. Hún fær aftur orku við það, byrjar að skrifa, en missir tengsl við vini og fjölskyldu. Þetta er grínleikrit en með nokkrum dramatískum atriðum,” en öllu gríni fylgir nokkur alvara. Sérstaklega í leikritum.
,,Mér fannst nafnið Synecdoche, MH passa og vera frekar fyndið. Ég fékk hugmyndina að nafninu eftir að hafa horft á kvikmyndina Synecdoche, New York sem er ein af mínum uppáhalds myndum. Sú mynd fjallar um leikstjóra í New York sem gerir leikrit um New York.
Þegar ég horfði á myndina í sumar hugsaði ég með mér að það væri ótrúlega gaman að sjá sömu grunnpælinguna í annari útfærslu.
Síðan sá ég handritakeppnina auglýsta fjórum dögum fyrir skilafrestinn núna í september og ákvað að slá til. Í rauninni er leikritið frekar kaldhæðnislegt þar sem Aldís er orðin svo þreytt á ófrumleika og endurtekningum að hún ákveður að skrifa eitthvað frumlegt, en svo er hugmyndin að leikritinu ekki einu sinni upprunaleg.
Synecdoche, MH er fyrsta verkið sem Þorsteinn Sturla leikstýrir. ,,Ég lít á þetta sem fyrstu æfinguna mína”, en Þorsteinn stefnir á að læra leikstjórn þegar hann hefur útskrifast úr MH. ,,Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt. Leikararnir eru frábærir og leikfélag MH er mjög öflugt þannig ég fékk alla þá hjálp sem ég þurfti. Þetta er búið að ganga ótrúlega vel,” þrátt fyrir að leikararnir hafi haft mjög takmarkaðan æfingartíma.
Ertu spenntur eða stressaður fyrir frumsýningunni?
,,Mjög spenntur að sjálfsögðu. Þetta er búið að vera mjög krefjandi ferli því við fengum bara tvær vikur til að æfa. Viðtökurnar frá leikfélaginu og stjórn nemendafélagsins, sem sáu generalprufuna á föstudaginn, voru mjög góðar. Þannig ég er miklu frekar spenntur heldur en stressaður.”
Synecdoche, MH verður frumsýnt annað kvöld, mánudaginn 8. október. Nánari upplýsingar má finna hér.