Um helgina fór fram European Festival of Sprint Under 16 í Rieti á Ítalíu. Ítalska frjálsíþróttasambandið bauð stúlku og dreng frá hverju Evrópulandi á mótið til að taka þátt í sprettviðburði U16 til þess að vekja athygli á því að EM U18 mun fara fram í Rieti árið 2020.
Sindri Freyr Seim Sigurðsson og Glódís Edda Þuríðardóttir kepptu fyrir hönd Íslands í 80 metra spretthlaupi. Í gær fóru fram undanrásir þar sem þau náðu bæði góðum árangri og komust áfram í úrslit. Sindri Freyr hljóp á 9,74 sekúndum í 0,9 m/s mótvind. Það er persónuleg bæting hjá Sindra Frey og þriðji besti tími 15 ára drengs frá upphafi. Glódís Edda hljóp á 10,51 sekúndum í 1,0 m/s mótvind sem er góður árangur og sjötti besti árangur 15 ára stúlku, en Glódís Edda á nú þegar annan besta árangur á afrekaskrá.
Í morgun fór úrslitahlaupið fram. Glódís Edda hljóp á tímanum 10,64 sekúndum í -0,6 m/s mótvind og Sindri Freyr hljóp á 9,72 sekúndum í 1,1 m/s mótvind. Það var persónuleg bæting hjá Sindra Frey og annar besti árangur 15 ára drengs frá upphafi. Bæði urðu þau í 16. sæti af 25 keppendum sem er mjög góður árangur.