fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

Veðurstofa – Málþing í tengslum við sýninguna Allra veðra von

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 4. október 2018 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í kvöld kl. 20 verður haldið málþing í Hafnarborg í tengslum við sýninguna, Allra veðra von.

Sýningin fjallar um samband mannsins við veður. Eftir eitt versta sumar í manna minnum á suðversturhorni landsins og öfga í veðri um heim allan er þetta viðfangsefni ofarlega í hugum manna. Veðrið hefur áhrif á okkur; umhverfi okkar og andlega líðan og nú á tímum hnattrænnar hlýnunar og breytinga á veðurkerfum heimsins er það þungur biti að kyngja að við sjálf berum ábyrgð á því að miklu leyti. Listakonurnar nálgast viðfangsefnið hver með sínum hætti og sækja föng í þjóðfræðilegar og mannfræðilegar heimildir, fornar sagnir, loftslagsvísindi, upplifanir og atburði líðandi stundar þar sem kjarninn er alltaf manneskjan frammi fyrir veðri. Sýningarskrá með viðtölum við fræðifólk og aðstandendur sýningarinnar verður fáanleg í afgreiðslu safnsins.

Allra veðra von er sú áttunda í haustsýningaröð Hafnarborgar þar sem hugmynd sýningarstjóra er valin úr innsendum tillögum. Á sýningunni eru verk eftir Höllu Birgisdóttur, Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur, Ragnheiði Maísól Sturludóttur, Sigrúnu Hlín Sigurðardóttur og Steinunni Lilju Emilsdóttur. Sýningarstjóri sýningarinnar er Marta Sigríður Pétursdóttir.

Þátttakendur málþingsins eru Eiríkur Valdimarsson, þjóðfræðingur, Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur, Marta Sigríður Pétursdóttir, sýningarstjóri. Fundarstjóri er Marteinn Sindri Jónsson, heimspekingur og aðjúnkt við hönnunar og arkitektúr deild Listaháskóla Íslands.

Listakonurnar Halla Birgisdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Ragnheiður Maísól Sturludóttir, Sigrún Hlín Sigurðardóttir og Steinunn Lilja Emilsdóttir taka þátt í umræðum.

Dagskrá málþingsins er eftirfarandi:

1.       Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, býður gesti velkomna.

2.       Marta Sigríður Pétursdóttir segir frá sýningunni, aðdraganda hennar og samræðu við listamenn.

3.       Marteinn Sindri Jónsson, heimspekingur og aðjúnkt við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands kynnir þáttakendur.

4.       Myndir veðursins – Haraldur Ólafsson

5.       „…og það stóð auðvitað heima, spáin rættist“: Hæfileikinn að gá til veðurs – Eiríkur Valdimarsson

6.       Marteinn Sindri Jónsson segir frá hugleiðingum sínum um samband manneskju og veðurs út fra samtölum við listakonur sýningarinnar.

7.       Umræður.

8.       Léttar veitingar og spjall.

Þáttakendur:

Eiríkur Valdimarsson, þjóðfræðingur, er fæddur árið 1982 í Skagafirði og bjó þar fram á unglingsár uns hann söðlaði um, fór í Menntaskólann á Akureyri og síðar í þjóðfræðinám við HÍ í Reykjavík. Hann lauk þar BA-gráðu árið 2006 og MA-gráðu í þjóðfræði árið 2010. Viðfangsefni MA rannsóknar hans voru alþýðulegar veðurspár Íslendinga fyrr og nú. Í þeirri rannsókn tók hann fjöldan allan af viðtölum við veðurglöggt fólk, kafaði í fornar heimildir í leit sinni að hæfileikanum að spá fyrir um veðrið.

Eftir háskólanám vann Eiríkur sem stundakennari við HÍ í þjóðfræði í nokkur ár. En árið 2013 fluttist hann norður á Strandir, til Hólmavíkur með fjölskyldu sína, þar sem hann býr í dag og starfar við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, auk þess að sinni ýmsum fræðastörfum því samhliða.

Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur, er fæddur í Reykjavík 1965.   Lauk stúdentsprófi í MH 1984 og síðar sveins- og meistaraprófum í stærðfræði, eðlisfræði og veðurfræði við Háskólann í Osló og doktorsprófi við Háskólann í Toulouse í Frakklandi. Haraldur var um hríð við ýmis sérfræðistörf á Veðurstofu Íslands, var prófessor við Háskólann í Björgvin í Noregi og stjórnaði Björgvinjaskólanum í veðurfræði um skeið, en er nú prófessor í veðurfræði við Háskóla Íslands. Hann samdi og kynnti veðurspár fyrir sjónvarp í tvo áratugi. Haraldur hefur sent frá sér á alþjóðlegum vettvangi á annað hundrað rit um veðurfræði og skyld fög, s.s. mengun, fok, vatn og snjó og setið í ýmsum stjórnum á sérsviði sínu. Hann hefur átt hlut að stofnun tveggja fyrirtækja í veðurfræði.

Marta Sigríður Pétursdóttir, sýningarstjóri, útskrifaðist með BA gráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 2008, MA gráðu í menningarfræði frá Goldsmiths College í London 2011 og MA í kynjafræði frá School of Oriental and African Studies í London 2014. Hún hefur fengist við margvísleg skrif tengd myndlist, bókmenntum, kvikmyndum og menningu.

Marteinn Sindri Jónsson, heimspekingur og aðjúnkt við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands,

Listakonur sem eiga verk á sýningunni og taka þátt í umræðum:

Halla Birgisdóttir býr og starfar í Reykjavík. Hún er útskrifuð frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands og hefur síðan þá tekið þátt í fjölmörgum samsýningum sem og haldið einkasýningar vítt um landið. Halla notar teikningar og texta til þess að skapa brotakennd frásagnarrými sem birtast áhorfendum síðan sem innsetningar, bókverk, veggteikningar, textíl-teikningar og kvik-teikningar. Hún kallar sig myndskáld.

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir er sviðshöfundur. Hún lauk BA-námi frá Listaháskóla Íslands árið 2011 og MA-námi úr Háskóla Íslands í ritlist. Hún hefur starfað á ýmsum sviðum innan leikhúss og myndlistar, samið, sett upp, tekið þátt í fjölda gjörninga, sýninga og unnið innsetningar bæði á Íslandi og erlendis.

Ragnheiður Maísól Sturludóttir lauk BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands og hefur tekið þátt í mörgum samsýningum síðan. Hún er einnig meðlimur í Sirkus Íslands og Reykjavík Kabarett. Hún vinnur á mörkum myndlistar og sviðslistar og fjalla verkin hennar um töfrana í hversdeginum og mannlegri hegðun.

Sigrún Hlín Sigurðardóttir hefur hún unnið með textíl, texta og fleira í verkum sínum, meðal annars í innsetningum, leikhúsi og útvarpi. Hún lauk BA-prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands og í íslensku frá Háskóla Íslands og stundaði auk þess diplómanám í textíl við Myndlistaskólann í Reykjavík.

Steinunn Lilja Emilsdóttir er með BA-próf í guðfræði og MA-próf í ritlist frá Háskóla Íslands og BA-próf í myndlist frá Listaháskóla Íslands. Hún hefur tekið þátt í sýningum bæði sem listamaður og sýningarstjóri. Skrif eftir hana hafa birst í ýmsum tímaritum og safnritum. Hún leggur áherslu á texta í list sinni, bæði í verkunum sjálfum og sem innblástur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Í gær

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“