fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Leikdómur: „Verkið flytur mann ekki alla leið til tunglsins“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 3. október 2018 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karítas Hrundar Pálsdóttir meistaranemi í ritlist skrifar í Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, leikdóm um Fly Me To The Moon, sem frumsýnt var síðastliðinn föstudag í Þjóðleikhúsinu.

Tvíleikurinn Fly me to the moon eftir Marie Jones var frumsýndur í leikstjórn höfundar í Þjóðleikhúsinu 28. september. Það eru þær Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Anna Svava Knútsdóttir sem fara með hlutverk Francis og Lorettu. Stöllurnar vinna í heimaþjónustu. Einn rigningardaginn standa þær frammi fyrir þeim möguleika að eignast svolítinn pening með auðveldum hætti. Ein ákvörðun á fætur annarri framkallar snjóboltaáhrif og áður en þær vita af hefur atburðarásin undið upp á sig. Og í gegnum allt þetta togast réttlætiskennd þeirra á við þeirra eigin hagsmuni.

Leikmynd og búningar

Klæðnaður Francis og Lorettu varpar ljósi á persónuleika þeirra. Loretta er góður starfskraftur. Hún er klædd bleikri vinnumussu, svörtum buxum og hvítum strigaskóm. Hún er með tagl í hárinu. Francis er aftur á móti frökk skvísa, þó eldri sé. Hún er í bleikri peysu með blúndu yfir bleiku vinnumussuna og með klút um hálsinn. Svörtu buxurnar hennar eru með glimmer framan á lærunum og vinnuskórnir hennar, sem vissulega eru hvítir, eru sandalar með háum hæl. Hún er með klifs í slegnu hárinu, eyrnalokka í eyrunum og er sýnilega máluð. Ekki er hægt að rengja Francis á því að fara ekki eftir vinnuklæðnaðinum en hún virðist samt sem áður tilbúin að dansa á línunni og ögra reglunum. Francis knýr atburðarásina áfram. Loretta gerir nánast allt sem Francis segir henni að gera. Þannig nýtir Francis að vissu leyti sakleysi og samviskusemi samstarfskonu sinnar til að ná sínu fram.

Sýningin er sýnd í Kassanum og er leikhúsrýmið hefðbundið skápaleikhús. Leikmyndin er raunsæisleg og minnir á sjónvarpsset (-sviðsmynd). Atburðarásin á sér stað inni í íbúð á jarðhæð þar sem gamli maðurinn sem Francis og Loretta sinna býr. Í stofunni, sem um leið er svefnherbergið, eru húsgögn eins og sjúkrarúm, hjólastóll, skenkur og hægindastóll. Sjá má inn í eldhúskrók með fallega bláu veggfóðri, fram í anddyri þar sem frakki mannsins hangir og síðast en ekki síst eru í stofunni dyr sem leiða inn á baðherbergi. Mikið er um allskonar leikmuni sem ýta undir raunsæja túlkun. Útsýnið út um stofugluggann er aftur á móti ekki trúverðugt. Sjá má marga glugga og svalir á gráum blokkum. Slíkt útsýni sést ekki frá jarðhæð. Leikmynd og búningar voru í höndum Snorra Freys Hilmarssonar.

„Fly me to the moon“

Verkið ber nafnið Fly me to the moon líkt og samnefnt lag sem frægt er í flutningi Frank Sinatra. Sú tenging er notuð óspart. Þegar leikhúsgestir koma inn í salinn berst þeim til eyrna söngur Sinatra. Lögin hans eru spiluð á milli þátta. Brot úr Fly me to the moon, laginu sjálfu, er spilað rétt áður en sýningin hefst. Ofan á skenknum í stofu gamla mannsins er plötualbúm með Frank Sinatra. Aðaltengingin kemur ekki í ljós fyrr en Francis finnur miða sem á stendur „Fly me to the moon“ en gamli maðurinn veðjaði á veðhest að því nafni. Tengingin verður enn meiri þegar á líður því í fórum mannsins finna stöllurnar mynd af honum með Frank Sinatra sjálfum. Hann virðist mikill aðdáandi og sonur Francis reynir að nýta sér það með því að selja honum gamla sjóræningjaútgáfur af kvikmyndum með Sinatra. Hápunktur Fly me to the moon-tengingarinnar er þegar Francis og Loretta syngja lagið fyrir gamla manninn, að ósk hans. Mér þótti Frank Sinatra og lagið Fly me to the moon fá fullmikla athygli í verkinu. Tilgangurinn var óljós. Hugljúf tónlistin stangast á við hugmyndina um gamanleikinn. Hún hvetur ekki beint til hláturs.

Fly me to the moon stenst hugmyndir Aristótelesar um að leikrit skuli gerast á einum stað, á afmörkuðum tíma og um skuli vera að ræða eina atburðarás án hliðarsagna. Sem gamanleikur er framvindan óþarflega hæg. Síminn, sem hringir eða hringir ekki, og eftirtektarsama grannkonan eru stef sem eru endurtekin alloft. Framvindan kemur lítið á óvart. Samtöl kvennanna eru um margt skemmtileg en leika sér óþarflega mikið að þeirri staðalímynd að fátækir séu vitlausir. Þá er mikið af vísunum í aðrar persónur sem áhorfendur fá ekki að kynnast. Spyrja má hvort nauðsynlegt sé að hafa svona margar aukapersónur sem ekki fá rödd, samanber eiginmenn, börn, vini og samstarfsfólk. Velta má fyrir sér hvort hægt hefði verið að staðfæra verkið. Brandarar um muninn á kaþólikkum og mótmælendum eiga til dæmis ekki beint erindi við Íslendinga. Þó sýningin eigi sína hápunkta og Ólafía Hrönn og Anna Svava fái salinn til að hlæja, er að mínu mati of langt á milli slíkra atriða. Hraðinn er ekki nógu mikill. Marie Jones sló í gegn með verkið Með fulla vasa af grjóti en Fly me to the moon nær aftur á móti ekki fullu flugi. Verkið flytur mann ekki alla leið til tunglsins.

Greinin birtist fyrst í Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór í trekant með eiginkonunni og nágrannanum – Það rústaði hjónabandinu

Fór í trekant með eiginkonunni og nágrannanum – Það rústaði hjónabandinu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Eiríkur Bergmann með afar persónulega bók – Lýsir ferðalagi frá örvæntingu til sáttar

Eiríkur Bergmann með afar persónulega bók – Lýsir ferðalagi frá örvæntingu til sáttar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bjarni Ben farinn að gefa eftir í bekkpressu – Sjáðu myndbandið

Bjarni Ben farinn að gefa eftir í bekkpressu – Sjáðu myndbandið