Hjörtur Hjartarson fyrrum fréttamaður á Sýn horfir nú björtum augum fram á veg, en hann flutti í morgun til Barcelona þar sem hann hyggst stunda mastersnám.
Í lok júní sagði Hjörtur upp störfum hjá Sýn í kjölfar þess að hann var sendur heim af HM í Rússlandi vegna óæskilegrar hegðunar. Þar áreitti Hjörtur Eddu Sif Pálsdóttur, íþróttafréttamann á RÚV, var þetta í þriðja sinn sem Hjörtur varð uppvís að óviðeigandi hegðun. Edda Sig kærði Hjört fyrir líkamsárás árið 2012 en þau náðu samkomulagi þar sem hann viðurkenndi fulla ábyrgð og fór málið því ekki fyrir dóm.
„And I´m off! Oft á tíðum geta aðstæður sem maður telur vera ákveðna endastöð leitt af sér algjörlega nýtt og betra upphaf,“ skrifar Hjörtur á Facebook-síðu sína, þar sem hann deilir mynd af sér fyrir utan Leifsstöð með eina ferðatösku.
„Spennandi ævintýri framundan sem ég hlakka óskaplega mikið til að takast á við.“
Í lok ágúst auglýsti hann íbúð sína að Rauðalæk til leigu og bílinn til sölu, þannig að ljóst er að Hjörtur hyggst vera um tíma á Spáni.
Í kjölfar atviksins á HM í Rússlandi sendu 102 konur í fjölmiðlum frá sér yfirlýsingu vegna hegðunar, þar sem þær kröfðust þess að yfirmenn fjölmiðla í landinu tryggðu öryggi þeirra og annarra starfsmanna á vinnustað. Mótmæltu þær því að í stéttinni starfaði maður sem hafi ítrekað áreitt og beitt samstarfsfólk sitt ofbeldi.
„Ég er þakklátur fyrir reynslu undanfarinna mánuða. Afar þroskandi ferli sem hefur kennt mér mikið, bæði hvað varðar sjálfan mig og ekki síður um hvað ég á mikið af góðu fólki i kringum mig,“ skrifar Hjörtur og bætir við að margra mun hann sakna, en annað sé gott að skilja eftir heima.