fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

Elín Kára – „Taktu ábyrgð!“

Elín Kára
Þriðjudaginn 2. október 2018 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elín Káradóttir heldur úti blogsíðu undir eigin nafni þar sem hún skrifar um jákvætt hugarfar, fjármál og lífstíl. Í þessum pistli fjallar hún um taka ábyrgð á eigin lífi í stað þess að kenna ávallt öðrum um.

 

Já, þessi lesning verður mögulega eins og blaut tuska framan í einhverja. En það verður að hafa það.

Ég þurfti eitt sinn að kyngja raunveruleikanum og hafði tvo kosti; kyngja með óbragð í munni en gera allt sem ég gæti til þess að raunveruleika-molinn myndi renna niður. Hinn kosturinn var sá að láta hann standa í hálsinum á mér, væla, hamast og kenna öllum öðrum um að ég gæti ekki kyngt þessum bita. Þitt er valið – og já, þú hefur val um það hvernig þinn raunveruleika-moli er. Sem betur fer. 

(Þar sem ég er kona, þá mun ég skrifa þetta í kvenkyni. Lestu þetta í þínu kyni).

Ég á ekki pening – já okay, og hvenær heldur þú að hann verði til hjá þér? Ef þú lifir í þeirri von að þú eigir hann eitthvað frekar eftir nokkra mánuði, ár eða 10 ár, þá er það mjög ólíklegt með óbreyttri stefnu. Hins vegar gæti peningastaða þín lagast með því að skera niður kostnað og auka tekjur. Þá gætir þú átt meiri pening „seinna.“ (Auka tekjur – þá er ég ekki að tala um umsamda kjarasamninga eða keyra sig út á yfirvinnu, heldur auka tekjur með  vinnu sem krefst ekki mikils tíma en gefur þér tekjur). Hugsaðu út fyrir boxið.

Þú getur þetta vegna þess að þú færð svo mörg tækifæri – já okay, hversu oft hefur þú ekki svarað símanum? Ekki mætt þegar þér var boðið? Eða sagt „nei“ þegar einhver bauð þér að taka þátt í einhverju? Þegar ég segi einhverju, þá meina ég bara einhverju. Eitt leiðir að öðru – með því að taka þátt í öllu mögulegu þá kynnist þú fólki, færð fleiri hugmyndir og í kjölfarið þá koma fleiri tækifæri. Taktu þátt.

Ég er svo feit – já okay, og hvað ertu að gera í því? Ertu að vinna markvisst að því að breyta venjum? Bæði sem tengjast hreyfingu, matarræði og jákvæðu hugarfari. Já, jákvætt hugarfar gagnvart þér sjálfri  og markmiðum þínum kemur þér rúmlega hálfa leiðina. Ef þú lítur í spegil og segir við þig: „ég er svo feit,“ þá meðtekur heilinn þau skilaboð svo bókstaflega að hann gerir allt til þess að þú safnir fitu utan á þig (eða þetta er mín skoðun). Hættu að tala svona við þig! Þú værir ekki sátt ef einhver annar myndi kalla þig feita.

Ofan á þetta, þá veistu alveg hvað þú átt að gera. Í mjög einföldu máli þá þarftu örugglega að minnka örlítið skammtastærðir. Velja hollari kostinn oftar. Borða vel af grænmeti, ávöxtum, hreinu kjöti, fisk og eggjum. Taka vítamín og olíur. Hreyfa þig temmilega en aðallega vera á iði yfir daginn. Svo þarf að koma þessu upp í venju. Ef þú ert svona óánægð – gerðu þá allavega eitthvað í því. Þetta snýst allt um framkvæmd og aga.

Vandamálin eru svo mörg í minni fjölskyldu en ekki þinni – já okay, held nú ekki samt. Ég hef ekki ennþá kynnst vandamálalausri fjölskyldu. Þegar fleiri en einn koma saman þá byrjar vandamál. Spurningin er frekar hvernig ætlar þú að takast á við vandamálin/verkefnin? Auðvitað eru vandamálin misjafnlega stór hjá hverri fjölskyldu fyrir sig. Sum þeirra eru einföld og auðleysanleg, á meðan önnur eru á svo háu flækistigi að dómsstólar þurfa að koma við sögu.

Hins vegar hefur mér fundist flest þessara vandamála byggjast á þrennu; samskiptaleysi, græðgi á peninga og miklu virðingarleysi gagnvart hvort öðru. Ofan á þetta þrennt er dass af kónga-typpa-keppni milli manna eða svona „hey þú, ég á allt dótið“ framkoma gagnvart náunganum. Hver ætlar þú að vera í þinni fjölskyldu? Ef þú hefur enga stefnu í þeim málum, þá endar þú sennilega sem gellan sem þú ætlaðir ekki að verða – en varðst óvart. Þú hefur vald á því hvernig þú kemur fram.

Þetta er allt ríkisstjórninni að kenna – já okay…. En ekki þér? Segðu mér eitt, tekur þú þátt í málefnavinnu hjá einhverjum stjórnmálaflokki? Ef þú hefur aldrei gert það, mætir aldrei á fundi eða gefur þér tíma til að koma þínum skoðunum og lausnum til þeirra sem málið varðar – hvað ertu þá að væla? Getur verið að þú þurfir annað slagið að taka ábyrgð sjálf á þínum málum í stað þess að kenna alltaf öðrum um.

Auðvitað er margt sem betur má fara – mikil ósköp. Stjórnmálin verða aldrei komin með fullkomið kerfi sem krefst engrar endurskoðunnar. En mér finnst fólk ekki alltaf sanngjarnt. Fólk er oft að kalla eftir lausnum frá ríkisstjórninni; lausnum sem einkaaðilar geta leyst og jafnvel gæti fólk leyst málin sjálft með smá forsjárhyggju og hugsun fram í tímann. Án þess að verða mjög pólitísk hérna – þá finnst mér gott að hugsa mig tvisvar um áður en ég fer að kenna ríkisstjórninni um.

Þetta er komið gott – taktu ábyrgð!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Grátt, svart og hvítt áberandi í endurnýjaðri eign í Reykjavík

Grátt, svart og hvítt áberandi í endurnýjaðri eign í Reykjavík