Laugardaginn 27. október verður Sing-a-long- og búningasýning á Rocky Horror á Stóra sviði Borgarleikhússins. Þá gefst gestum sýningarinnar taka þátt með því að syngja með þessari vinsælu tónlist og klæða sig upp í föt sem tengjast sýningunni.
Íslenskum textum laganna verður varpað á skjái sitthvoru megin við sviðið, en þessa texta samdi Bragi Valdimar Skúlason sérstaklega fyrir uppfærslu Borgarleikhússins.
Rocky Horror var frumsýnt á Stóra sviði Borgarleikhússins fyrr á þessu ári. Sýningin sló miðasölumet í febrúar þegar 4580 miðar seldust á sérstökum forsöludegi en þá voru þegar 13 sýningar uppseldar. Nú hafa rúmlega 32 þúsund manns séð sýninguna.
Páll Óskar Hjálmtýsson fer með aðalhlutverkið í sýningunni, hlutverk Frank N Furter, en hann lék þetta hlutverk síðast í uppfærslu MH á söngleiknum árið 1991. Aðrir leikarar í sýningunni eru Valdimar Guðmundsson (Eddie), Arnar Dan Kristjánsson (Rocky), Björn Stefánsson (Riff Raff), Brynhildur Guðjónsdóttir (Magenta), Halldór Gylfason (sögumaður), Haraldur Ari Stefánsson (Brad Majors), Katla Margrét Þorgeirsdóttir (Dr. Scott), Vala Kristín Eiríksdóttir (Columbia) og Þórunn Arna Kristjánsdóttir (Janet Weiss).
Miðasala á Sing-a-long- og búningasýninguna er hafin á borgarleikhus.is.