Á föstudag gaf Logi Pedro út myndband við lagið Fuðri upp (GOGO) af stuttskífunni Fagri Blakkur sem kom út 21. September. Leikstjórn myndbandins var í höndum Vignis Daða en það var framleitt af Bergþóri Mássyni, Alexis Garcia og Loga Pedro.
Myndbandið var unnið í samvinnu við: Good Good, Icepharma, Jónsson & Le’macks og KUKL.
Logi Pedro gaf frá sér stuttskífuna Fagri Blakkur föstudaginn 21. september á streymisveitum Spotify. Platan inniheldur lögin Fuðri upp (GOGO) og Reykjavík, sem eru poppsmellir með angurværum textum. Platan var tekin upp í 101derland hljóðverinu í sumar og fylgir eftir hans fyrstu plötu í fullri lengd.
Í laginu Reykjavík syngur Logi Pedro til sonar síns um tilfinningar og ást: „Stundum slær lífið tón svo að í eyrun sker, stundum falla fræ sem vildu ekkert verða tré…“
Í Fuðri upp (GOGO) syngur Logi Pedro með glettni til fyrrum ástar: „Við brennum öll undir sömu sól, við grétum öll þegar Jackson dó…“
Fyrr í sumar gaf Logi Pedro út sína fyrstu sólóplötu Litlir svartir strákar. Platan hlaut einróma lof gagnrýnenda og er ein allra vinsælasta platan sem komið hefur út á þessu ári og er komin yfir tvær miljónir spilana. Smáskífan Dúfan mín hefur verið á topplistum Spotify síðan í janúar og náði einni milljón spilana núna í september á Spotify.
Les Frères Stefson er í eigu Loga Pedro og bróður hans Unnsteins Manuel.