Hvað gerir kona þegar hún vill hætta að eyða peningum í óþarfa? Jú, hún fær sér auðvitað VISA-kort með mynd af hörkutólinu Terry Crews á.
Ekki alls fyrir löngu deildi Crews, sem er einna best þekktur fyrir leik sinn í þáttunum Brooklyn Nine-Nine, sparnaðarráði sínu til fylgjenda sinna. Hann sagðist hafa sett mynd af sér, þar sem hann er grimmur á svip, í veskið sitt. Myndin ætti að minna hann á að hætta að eyða peningum í óþarfa.
Darrell Kennedy ákvað að prófa þetta sparnaðarráð Crews og freistaði þess að nota þessa sömu mynd þegar hún sótti um nýtt kort hjá Wells Fargo. Henni var hins vegar synjað á þeim forsendum að hún þyrfti leyfi frá leikaranum fyrir notkun myndarinnar.
Darrel leitaði á náðir Twitter þar sem hún hvatti fylgjendur sína til að deila færslunni, í þeirri von að hún næði augum leikarans. Það gerði hún svo sannarlega og var Crews fljótur að kvitta upp á beiðnina.
Þessi skemmtilegu samskipti þeirra á milli má sjá hér að neðan. Nú ætti Darrell fljótlega að geta byrjað að spara svo um munar.