fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Fókus

Elísabet búin með 270 km í Góbí-eyðimörkinni – „Maður áttar sig á að það eru engin takmörk“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 30. september 2018 12:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elísabet Margeirsdóttir, næringarfræðingur og ofurhlaupari, þreytir nú eitt erfiðasta hlaup sem Íslendingur hefur reynt við. En hún er þegar þetta er skrifað búin með 270 km af 400 km hlaupi í Góbí-eyðimörkinni í Kína. Hlaupinu þarf hún að ljúka á innan við 150 klukkustundum, rúmlega sex sólarhringum. Elísabet getur hins vegar klárað hlaupið á fjórum dögum, í stað sex, haldi hún sama hlaupahraða og því skrifað sig í sögubækurnar.

Aðfararnótt laugardags kom hún á hvíldarstöð 4 kl. 3.37 og hafði hún þá lokið 137,7 km á 27 klst og 37 mínútum. Skórnir hennar voru ísilagðir eftir að hafa farið yfir ísilagða á um nóttina, en hitastigið fór niður fyrir frostmark. Elísabet svaf í 2 klst. áður en hún hljóp af stað aftur, en hún er í 9. sæti yfir heildina og langfremst í kvennaflokknum eins og stendur.

Staðan fyrir 4 klst. samkvæmt Facebook-síðu Elísabetar: „Elísabetu miðar vel áfram. Hún er nú búin að vera að í 64 klukkustundir og komin með 260km. Elísabet nálgast næstu hvíldarstöð (R7/266km) sem er í 2655m hæð. Nú er klukkan 16:25 hjá henni og hún búin að vera að í eyðumerkursólinni í allan dag og lítið stoppað á drykkjarstöðvunum. Lítur út fyrir að vera ekki of heitt, sem er gott. Hrikalega flott!“

Elísabet hélt af stað 23. september.

Í viðtali við RÚV miðjan júní eftir að Elísabet hafði tekið ákvörðun um að fara í hlaupið í Góbí-eyðimörkinni var lengsta hlaupið hennar til þessa Tor des Geants í ítölsku ölpunum fyrir tveimur árum sem hún hefur lokið ein Íslendinga. Þar hljóp hún 330 kílómetra með 24 þúsund metra hækkun á 113 klukkustundum.

Eftir að hafa sigrað 200 km hlaup í Bútan í janúar  fékk Elísabet boð frá einum skipuleggjenda hlaupsins, sem einnig skipuleggur hlaupið í Góbí-eyðimörkinni.

„Hver dagur var erfið keppni. Maður var alveg búinn á því eftir hvern dag en gat samt haldið áfram,“ sagði Elísabet og bætir við með boðið í Góbí: „Þegar maður fær svona boð langar mann að prófa þetta.“

Hlaupið er  400 kílómetrar og hlauparar verða að ljúka keppni á 150 klukkustundum að hámarki, eða sex sólarhringum og sex klukkustundum betur. Hvíldarstöðvar eru á um það bil 30 kílómetra fresti. Hver og einn hlaupari verður að mæta með 25 þúsund kaloríur af mat til keppni sem eiga að duga meðan á keppni stendur. Hlauparar verða að bera næga næringu til að koma sér á milli hvíldarstöðva. Orðið hlaupaleið gæti þó verið villandi. Leiðin er ómerkt og ekki auðséð hvar fólk á að fara því ekki er hlaupið eftir stígum eða vegum nema að litlu leyti. Þess í stað verða hlauparar að vera með GPS-tæki með upplýsingum um hlaupaleiðina svo þeir viti hvert þeir eiga að fara. Á heimasíðu hlaupsins er fólk varað við því að það sé of seint að læra á staðsetningartækin þegar hlaupið er hafið og bent á að engin hæðar- og landslagskort til almennra nota sé að hafa af Kína. Að auki ráðleggja skipuleggjendur keppendum að flytja með sér allan mat frá heimalandi sínu svo það komi þeim ekkert á óvart í næringu.

Þessu til viðbótar verða keppendur að takast á við náttúru þar sem veður getur breyst á skammri stundu. Að auki eru miklar sveiflur í hitastigi, frá fimmtán stiga frosti á næturnar upp í þrjátíu stiga hita á daginn.

„Það getur hver sem er gert þetta ef hann hefur áhuga og vilja,“ segir Elísabet. Ástríðan er mikilvæg. En samhliða því að hlaupin verða lengri verða markmiðin háleitari. „Þá áttar maður sig á því að það eru engin takmörk. Ég veit ekki hvort það sé gott eða slæmt.“

Hér má fylgjast með Elísabetu í rauntíma, en hún er númer 113.

Viðtalið við Elísabetu má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 5 dögum

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife
Fókus
Fyrir 5 dögum

Stórstjarnan gerir upp árið í myndbandi og minnist ekki orði á Ben

Stórstjarnan gerir upp árið í myndbandi og minnist ekki orði á Ben