Háfjallamúsík á jólum er forskrift að tónleikum Egils Ólafssonar á öðrum degi jóla, 26. desember kl. 17 í Eldborgarsal Hörpu.
Auk Egils koma fram þrír gestasöngvarar, kór og hljómsveit. Lögin sem flutt verða eiga það sameiginlegt að hafa fylgt söngvaranum gegnum árin en, með ólíkum hætti þó – því Egill ætlar með sínu föruneyti að flytja meðal annars músík sem breytti lífi söngvarans strax á æskuárunum og hafði ef til vill enn meiri áhrif á lagasmíðar hans.
Yfirskrift tónleikanna er sótt til síðustu plötu Egils FJALL. Lag af plötunni hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin – þá fellur forskeytið „há“ vel að bæði því sem er hátt, hátimbrað og ekki síður hátíðlegt. Öll tónlistin er að auki í hátíðarbúningi fyrir nú utan að vera í háum gæðum í flutningi valinkunnra músíkmanna og ekki síður kvenna, sem eru líka menn. Aðeins verður um eina tónleika að ræða.