Silja Aðalsteinsdóttir, íslensku- og bókmenntafræðingur, þýðandi og ritstjóri skrifar á heimasíðu Tímarits Máls og Menningar leikdóm um eikdóm um leiksýningu GRAL leikhópsins, Svartlyng, sem frumsýnd var síðastliðinn föstudag í Tjarnarbíói.
Höfundur: Guðmundur Brynjólfsson
Leikstjóri: Bergur Þór Ingólfsson
Leikmynd og búningar: Eva Vala Guðjónsdóttir
Hljóð: Garðar Borgþórsson
Leikari: Sveinn Ólafur Gunnarsson, Sólveig Guðmundsdóttir, Benedikt Gröndal, Thor Tulinius, Emilía Bergsdóttir og Valgerður Rúnarsdóttir
Það fer ekkert á milli mála að efniviður háðsádeilu Guðmundar Brynjólfssonar, Svartlyngs, sem leikfélagið GRAL sýnir nú í Tjarnarbíó, er „Höfum hátt“-hreyfingin sem felldi ríkisstjórn í fyrra. Leikstjóri er líka Bergur Þór Ingólfsson sem stóð í miðju átakanna.
Þessi efniskjarni er þó dulinn framan af. Vandræði Svartlyngs ráðherra (Sveinn Ólafur Gunnarsson) og ráðstýru hans (Sólveig Guðmundsdóttir) snúast um bók sem kölluð er svartbók og fjölmiðlar (Valgerður Rúnarsdóttir) vilja fá að skoða. En í henni er ýmislegt sem kemur Svartlyngsættinni illa svo að valdsmenn þumbast við. Lausnin er að slá ryki í augu fjölmiðla með því að ráða sérstakan gluggaþvottamann (Þór Tulinius) í ráðuneytið, fatlaðan einstakling með vímuefnavanda til að sýna að gegnsæi ríki þar á öllum sviðum, allir gluggar hreinir. Þegar það dugar ekki er ráðuneytisstarfsmaðurinn Valgeir (Benedikt Karl Gröndal) látinn skrifa nýja bók – hvítbók – til að friða blaðamenn. Til að sýna að nú sé allt uppi á borðinu les ráðherrann upp úr nýju bókinni á blaðamannafundi en grípur óvart niður í hana þar sem er listi yfir stúlkubörn ásamt aldri og símanúmeri. Ekki getur ráðherrann útskýrt hvaða nöfn þetta séu en salurinn tengir við mál Róberts Downey. Það ítrekar svo innkoma stúlkubarns (Ragnheiður Eyja Ólafsdóttir) í þögulu en býsna afgerandi og máttugu hlutverki.
Texti verksins er vel og rækilega fléttaður saman úr klisjum eins og efnið kallar á. Aðalpersónurnar tala ævinlega um hug sér og framhjá því sem skiptir máli, svara ekki spurningum en segja það sem þær voru búnar að ákveða að segja og textinn verður fyndinn við það að áhorfendur „þýða“ hann undir eins yfir á andstæðu sína í huganum. Valgeir veslingurinn er ekki svona tvöfaldur í roðinu og það sem verra er: hann hefur ekki hugmynd um hvenær hann gerir rétt og hvenær rangt og hvers vegna hendur hans eru ekki bara bundnar heldur beinlínis sagaðar af. Einnig það verður grimmilega hlægilegt. Eini maðurinn með almennilegri rænu er hjárænulegi gluggaþvottamaðurinn.
En þótt leiktextinn sé fyrirsjáanlegur er uppsetningin þvert á móti, þrungin sprelli og gríni, með mikilli hreyfingu, jafnvel erótískum dansi. Dansarnir og aðrar sviðshreyfingar voru samdar af Valgerði Rúnarsdóttur dansara og nú líka leikara. Leikmynd Evu Völu Guðjónsdóttur er Bergi leikstjóra góð stoð þótt einföld sé. Á sviðinu eru tveir gegnsæir glerkassar sem nýtast á marga vegu en best þegar tvær persónur tróðu sér inn í þá eins og inn í lyftu eða álíka þröngt rými. Þá urðu til ansi skondin atvik.
Stjörnur GRAL-leikhópsins, þau Sólveig og Sveinn Ólafur, njóta sín vel í þessu gysi, bæði einstaklega gjörvileg á sviði og fara eiginlega óþægilega létt með þessar fölsku og ómerkilegu persónur sem þau leika, stutt í frekjuna hjá henni, hann yfirborðslega kurteis og prúðmannlegur. Benedikt Karl lék einlægan aðdáanda þeirra af barnslegum heilindum og Þór Tulinius lék sér að aulalega gluggaþvottamanninum af mikilli list. Valgerður var góð bæði sem ágengi blaðamaðurinn og undanlátssami blaðamaðurinn og Ragnheiður Eyja átti stórleik í lokin.
Það er ævinlega vandaverk að setja upp verk þar sem áhorfendur eru aldrei í vafa um með hverjum þeir standa. Hér tókst það með því sígilda bragði að tefla ærslafullum leik fram á móti átakanlegu efni.