Ragga Nagli er klínískur heilsusálfræðingur og einkaþjálfari. Á Facebook heldur hún úti vinsælli síðu þar sem hún birtir reglulega pistla um hreyfingu, mataræði og fleira. Í þessum fjallar hún um að láta ekki ein mistök í mataræðinu eyðileggja árangurinn.
Þú ert að krúsa Reykjanesbrautina.
Með Gullbylgjuna í botni.
Úr hátölurunum heyrist Bó Halldórs syngja um Mánabar og Brendu Lee.Bílferðin gengur eins og smurð flatkaka með hangikjöti.
Þú keyrir á löglegum hraða.
Fulla ferð áfram.
Með allt undir kontról
Báðar hendur á stýri.
Þú ert við stjórnvölinn.Þá byrjar að rigna á landinu bláa.
Bíllinn skrikar til í bleytunni og breytir um stefnu út í vegarkantinn.
Í staðinn fyrir að kippa í stýrið til baka og rétta bílinn af þá snýrðu enn meira upp á það.
Þú botnar bensíngjöfina og stímir áfram út í mosalagða hraunbreiðuna.
Þetta litla hliðarspor breytist í fullkomna katastrófu.
Þú hugsar:
„Það er hvort sem er allt ónýtt eftir að hjólkopparnir tóku aðra stefnu.
Get alveg eins grýtt mér í úfið grjótið og legið þar marineraður í norðangarra og rigningarnepju.Kem mér bara aftur upp á brautina á morgun… eða mánudaginn.“
Neii… þetta myndi enginn gera.
En þetta gerum við samt þegar kemur að mataræðinu.
Eitt óvænt næringarprump í óráðsíu breytist oft í matarorgíu í marga daga.
Sérstaklega um helgar.
Við eyðileggjum enn frekar fyrir okkur eftir ómerkileg mistök sem breyta engu í stóra samhenginu.
Ef þú sósar þig óvænt í sveittmeti um helgina mundu að þú þarft ekki annað en að kippa í stýrið til að byrja aftur að krúsa Heilsustrætið.„Þú ert alltaf bara einni máltíð frá góðum ákvörðunum sem eru þér í hag“
Með allt undir kontról
Báðar hendur á stýri.
Þú ert við stjórnvölinn.