Sólrún Diego, hreingerningarsnappari og metsölubókarhöfundur, og Frans Veigar Garðarsson, kærasti hennar, keyptu nýverið einbýlishús í Mosfellsbæ.
Parið á tvö ung börn og verður nýja heimilið að teljast kjörinn staður til að ala börnin upp á, með náttúruna handan við hornið. Í lýsingu á hinu glæsilega 320 fermetra húsi segir að þar innandyra sé gert ráð fyrir vetrargarði og tjörn.
Smartland greindi frá því í lok ágúst að parið þyrfti að flytja því íbúðin sem þau leigðu í Þorrasölum í Kópavogi var komin á sölu. Sú íbúð var 98 fm og sögð best þrifna íbúð landsins.
Nýja húsið er hins vegar 319 fm og því er ljóst að Sólrún hefur í mun fleiri horn að þrífa en áður. Húsið var til sölu á Fasteignasölu Mosfellsbæjar og var ásett kaupverð fyrst 104 milljónir, en lækkað í 98 milljónir. Er því líklegt að kaupverð hafi verið tæpar 100 milljónir.
Samkvæmt Tekjublaði DV var Sólrún með 320.478 kr. í tekjur fyrir árið 2017, en metsölubók hennar, Heima, kom út í lok nóvember það ár, og því líklegt að tekjur hennar þetta árið séu ívíð hærri.
Húsið þykir einstaklega vel hannað og er húsinu skipt upp í tvær einingar með tengibyggingu á milli. Í öðrum hlutanum er barnaherbergi, stórt hjónaherbergi, sjónvarpsherbergi, baðherbergi, þvottahús, stofa, borðstofa og eldhús. Ljóst er að Sólrún ætlar að fara í breytingar því nú þegar er búið að rífa parket af gólfum.
Í hinum hlutanum er forstofa, vinnustofa, baðherbergi, tvær geymslur, vinnuherbergi og bílskúr. Húsið stendur hærra en mörg önnur hús í götunni og því mjög fallegt útsýni frá stofu og millilofti til Esjunnar. Húsið er klætt að hluta með Cedrus harðvið, náttúruflísum og glerflísum. Í lýsingu á húsinu fyrr á árinu segir:
„Komið er inn í forstofu með flísum á gólfi, forstofan er í raun tengibygging í húsinu og þar er hugmynd að hafa „Vetrargarð“ með lítilli tjörn. Þá er áberandi glerveggur hannaður af Ingu Elínu glerlistakonu.
„Á vinstri hönd er íbúðarálman, þar er komið inn í forstofuhol með eikarparketi á gólfi og stórum forstofuskáp með speglahurðum. Á móti forstofu er áberandi glerveggur hannaður af Ingu Elínu glerlistakonu.“
Neðangreindar myndir sýna eignina eins og hún leit út áður, en á Snapchat og Instagram má sjá að parið er að taka húsið í gegn eftir eigin höfði.