fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fókus

10 bestu íþróttakvikmyndirnar

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 16. september 2018 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

      Íþróttir eru góður efniviður í kvikmyndir enda geta þær verið hádramatískar. Gildir þá einu hvort að um er að ræða sanna atburði eða skáldskap. Íþróttagreinarnar skipta minna máli en hin mannlega saga á bak við. DV tók saman tíu bestu íþróttakvikmyndirnar.

 

  1. Cool Runnings (1993)

Bobbsleðamyndin Cool Runnings er bæði væmin og uppskálduð að stórum hluta. Sagan af því hvernig Jamaíka, þessi litla Karíbahafseyja þar sem aldrei snjóar, komst á vetrarólympíuleikana í Calgary árið 1988 er svo ótrúleg að úr hlaut alltaf að koma gott bíó. Jamaísku keppendurnir eru ólíkir innbyrðis en allir eins og geimverur í snobbuðum heimi vetraríþrótta og keppendur annarra landa líta niður á þá. Þrátt fyrir að hafa klesst og þurft að hætta keppni unnu þeir hjörtu allrar heimsbyggðarinnar. Jamaíska bobbsleðaliðið hefur sex sinnum komist á vetrarólympíuleika síðan 1988.

  1. Escape to Victory (1981)

Árið 1942 var knattspyrnuleikur háður milli úkraínska verksmiðjuliðsins Start og Flakelf, liðs þýska hersins. Start sigraði 5-3 sem þótti mikil niðurlæging og enduðu margir leikmenn Start í útrýmingarbúðum í kjölfarið. Leikurinn var grunnur að myndinni Escape to Victory sem fjallar um lið stríðsfanga sem etur kappi við lið fangara þeirra og nota þeir fyrrnefndu leikinn sem flóttaleið. Þjóðverjana leiðir sænski stórleikarinn Max von Sydow en Michael Caine og Sylvester Stallone leiða Bandamenn. Í myndinni má sjá andlit margra frægra knattspyrnuhetja á borð við Bobby Moore, Ossie Ardiles, Zoltan Gera og Pele.

  1. The Karate Kid (1984)

Karate Kid hefur allt sem íþróttamynd frá níunda áratugnum þarf að hafa. Ungan og óslípaðan demant, gamlan og djúpvitran kennara með baksögu, svartklædd illmenni og ekki síst myndfléttur með synþapoppi. Leikstjórinn John G. Avildsen hafði áður gert Rocky með svipuðu sniði en Karate Kid var fyrir mun yngri hóp. Ófáir krakkar fóru út að sparka í vini sína eftir að hafa séð myndina sem varð algert æði og gerðar voru fjórar framhaldsmyndir í kjölfarið … misgóðar. Karate Kid gerði einnig hið kjánalega trönuspark heimsþekkt.

  1. Rush (2013)

Chris Hemsworth og Daniel Bruhl eru óaðfinnanlegir sem Formúlu-heimsmeistararnir James Hunt og Niki Lauda. Myndin segir frá harðri samkeppni ökuþóranna sem skildu ekkert eftir inni á brautinni og er frábær sem slík. En það áhrifamesta og mikilvægasta við Rush er hvernig hún sýnir daglegt líf ökuþóra Formúlu á þessum tíma. Dauðinn var daglegt brauð og mátti gera ráð fyrir því að tveir ökuþórar dæju á hverju ári. Eftir að heimsmeistarinn Ayrton Senna dó í San Marínó árið 1994 voru öryggismál stórbætt. Lauda sjálfur lenti í keppnisslysi árið 1976 og skaðbrenndist eins og sýnt er í Rush.

  1. White Men Can’t Jump (1992)

Tíundi áratugurinn var gullöld NBA og Íslendingar fóru ekki varhluta af því. Þá skiptust unglingar á körfuboltamyndum og vöktu fram á nætur til að horfa á Einar Bollason og Valtý Björn lýsa leikjum. Margar hörmulegar bíómyndir komu út á þessum tíma, svo sem The Air Up There og Space Jam. En White Men Can’t Jump var sérstök. Hún fjallaði um tvo svikahrappa í götubolta og ástamál tengd þeim. Það sem kom mest á óvart var hversu færir Wesley Snipes og Woody Harrelson voru inni á vellinum. Vinátta þeirra og innbyrðis samkeppni minnti um margt á Magic Johnson og Larry Bird sem voru sífellt að reyna að toppa hvor annan.

  1. Moneyball (2011)

Fæstir Íslendingar vita út á hvað hafnabolti gengur. Þetta er einhvers konar þróuð útgáfa af kýló. Áhorfandinn þarf hins vegar ekki að skilja hafnabolta til að hafa gaman af Moneyball því að myndin gerist að langmestu leyti á bak við tjöldin. Myndin er gerð eftir samnefndri bók viðskiptablaðamannsins Michael Lewis frá árinu 2003 sem vakti mikla athygli. Umfjöllunarefnið er Billy Beane, framkvæmdastjóri liðsins Oakland Athletics, og hvernig hann náði miklum árangri með því að nýta sér tölfræðiupplýsingar. Pitt leikur Beane og Jonah Hill tölfræðigúrú sem hjálpar honum að kaupa og selja leikmenn. Moneyball er úrvalsmynd fyrir nörda, sama hóp og spilar Championship Manager langt fram á nætur.

  1. Rocky IV (1985)

Rocky var fyrsta íþróttamyndin til að vinna Óskarsverðlaun sem besta mynd, árið 1976, og síðan þá hefur serían um hnefaleikakappann Rocky Balboa orðið hornsteinn í Hollywood. Flestir eru á því að fyrsta myndin sé best en margir halda sérstaklega upp á rimmu Balboa og Clubbers Lang í þriðju myndinni. Í fjórðu myndinni tók sturlunin hins vegar völdin og Rocky hætti að vera aðeins boxari. Nú var hann orðinn friðarpostuli sem leysti kalda stríðið með nokkrum hnefahöggum. Myndin er eins ýkt og hún getur orðið. Andstæðingurinn er sovéskt steravélmenni, þrisvar sinnum stærri en Rocky sjálfur, og lokabardaginn á ekkert skylt við hnefaleika. Hér er ekki barist upp á titla heldur upp á líf og dauða, og örlög stórveldanna eru að veði.

  1. Mike Bassett: England Manager (2001)

Költ er ekki nógu sterkt orð til að lýsa þeirri stöðu sem Mike Bassett: England Manager hefur. Myndin náði ekki mikilli útbreiðslu en þeir sem hafa séð hana, og hafa áhuga á enska boltanum, elska hana út af lífinu. Myndin er gervi heimildamynd (mockumentary) sem segir frá misheppnaðri ráðningu Mikes Bassett í stjórastól enska landsliðsins. Hún holdgerir hluti sem fótboltaáhugamenn þekkja, gulu pressuna, stjörnustælana, hrokann og getuleysið. Bassett er stjóri af gamla skólanum sem skrifar liðsvalið niður á sígarettupakka og spilar kerfið fjórir-fjórir-fokkings-tveir. Margir hafa líkt honum við „Stóra“ Sam Allardyce sem stýrði enska landsliðinu árið 2016.

  1. I, Tonya (2017)

Allir sem eru í kringum fertugt og eldri muna vel eftir skautadrottningunum Nancy Kerrigan og Tonyu Harding. Einnig fjölmiðlafárinu í kringum vetrarólympíuleikana í Lillehammer árið 1994, eftir að Harding var sökuð um að hafa látið meiða Kerrigan. Harding var ein mesta hæfileikamanneskja í sögu vetraríþrótta en hún var hvítt rusl og passaði ekki inn í prinsessuímyndina sem skautadrottningar þurftu að hafa. I, Tonya segir þessa sögu bæði á gamansaman og dramatískan hátt og hlaut Allison Janney Óskarsverðlaun fyrir stórkostlega túlkun á samviskulausri móður Tonyu. Það má segja að Tonya Harding hafi endurheimt æruna eftir að myndin kom út.

  1. The Wrestler (2008)

Mesta óréttlæti í sögu Hollywood var framið í Kodak-höllinni í febrúar árið 2009. Þá var Mickey Rourke svikinn um Óskarsstyttu fyrir túlkun sína á fjölbragðaglímukappanum Randy Robinson. Í myndinni sýnir leikstjórinn Darren Aronofsky daglegt líf þessara trölla sem Ameríkanar elska en Evrópumenn líta á sem holdgervinga lágmenningar. Þó að fjölbragðaglíma sé sett á svið þá reynir íþróttin meira á iðkendurna en nokkur önnur. Beinbrot, höfuðhögg, steranotkun og hjartasjúkdómar fylgja glímunni og fíkniefnaneyslan er mikil. Fáir fjölbragðaglímumenn ná háum aldri. Goðsögnin „Rowdy“ Roddy Piper, sem lést úr hjartaáfalli 61 árs gamall, brotnaði niður á frumsýningu myndarinnar og faðmaði Rourke. Hann var svo glaður að sagan var loksins sögð.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

HM-stemning hjá Íslensku Klíníkinni – Fríður hópur lagður af stað til Zagreb

HM-stemning hjá Íslensku Klíníkinni – Fríður hópur lagður af stað til Zagreb
Fókus
Fyrir 3 dögum

Karlmaður sem tók þátt í kynlífsmaraþoni Bonnie Blue stígur fram – Myndefni vekur óhug

Karlmaður sem tók þátt í kynlífsmaraþoni Bonnie Blue stígur fram – Myndefni vekur óhug