fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fókus

Valdimar: Fyrst og fremst eru það forréttindi að fá að vinna við það sem manni finnst skemmtilegt

Guðni Einarsson
Laugardaginn 15. september 2018 11:06

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Keflvíkingurinn og marg krýndur söngvari ársins Valdimar Guðmundsson er einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar. Söngvarinn sló fyrst í gegn með plötunni Undraland með hljómsveit sinni Valdimar en hljómsveitin hefur verið ein sú vinsælasta hér á landi.

Frá stofnun (2009) hefur hljómsveitin gefið út þrjár hljóðversplötur Undraland , Um stund, Batnar útsýnið en sú fjórða í röðinni mun líta dagsins ljós þann 22 september næstkomandi undir nafninu Sitt sýnist hverjum.

Hljómsveitin hefur hlotið fjölda tilnefninga til íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir plötu ársins, lagasmíðar ársins, texthöfunda ársins og síðast en ekki síst söngvara ársins.

Valdimar er ekki bara frábær söngvari heldur ljúflingur í húð og hár með einstaklega góða og skemmtilega nærveru. Undirritaður hitti söngvarann á dögunum og spurði hann meðal annars út í tónlistina, nýju plötuna, innblásturinn og fleira.

Ljósmynd: DV/Hanna

Þú ert fæddur og uppalinn í bítlabænum Keflavík, hvernig voru uppvaxtarárin? Var mikið um tónlist á heimilinu þegar þú varst að alast upp?

Þau voru nú bara voðalega ljúf. Það var mikil tónlist á heimilinu þegar ég var krakki. Faðir minn var mikið að spila um helgar á skemmtistöðum og í brúðkaupsveislum og svoleiðis, þannig að maður fékk mikið af tónlist beint í æð bara með því að hlusta á hann æfa sig á skemmtarann inni í vinnuherberginu sínu. Svo hlustuðu foreldrar mínir t.d. mikið á Steely Dan, Prefab Sprout, Elton John, Billy Joel og Joe Cocker.

Hvenær hófst tónlistarferillinn hjá þér og hvernig var skólagangan?

Tónlistarferill minn hófst kannski bara þegar ég byrjaði að æfa á básúnu, 9 ára gamall. Ég lærði í Tónlstarskólanum í Keflavík sem varð síðar Tónlistarskólinn í Reykjanesbæ, svo fór ég í Tónlistarskóla FÍH og lærði þar jazzbásúnuleik í nokkur ár. Ég tók nú aldrei burtfararpróf á básúnuna en ég kláraði hins vegar námið sem ég fór í í Listaháskólanum og er í dag með BA gráðu í tónsmíðum. Þetta var allt mjög gefandi og lærdómsríkt, væri líklega ekki á þeim stað sem ég er í dag án tónlistarnámsins.

Er einhver ákveðin tegund  tónlistar sem hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá þér?

Ég hef nú alltaf verið með frekar breiðan tónlistarsmekk, en ég kannski hallast mest að einhverju svona indie rokk/popp dóti.

Hvaða þættir finnst þér þurfa að hafa í huga þegar kemur að því að semja söngtexta? Hvernig er ferlið hjá þér?

Textinn verður alltaf til á eftir laglínunni hjá okkur og þegar ég sem laglínur þá syng ég bara eitthvað bull sem mér dettur í hug á staðnum. Þá verða stundum til góðar setningar sem maður reynir síðan að troða inn í alvöru textann. Mér finnst yfirleitt erfiðast að finna yrkisefni, s.s. hvað textinn á að vera um. Um leið og það er komið þá gengur þetta svolítið hraðar. Stundum er yrkisefnið ekki nógu gott og þá verður maður að vera óhræddur við að byrja upp á nýtt.

Þú stofnar hljómsveitina Valdimar með félaga þínum Ásgeiri Aðalsteinssyni árið 2009. Segðu okkur aðeins frá sögu hljómsveitarinnar og hvernig samstarfið hefur verið í gegnum árin. Hvað stendur upp úr, er eitthvað sem hefur mátt fara betur?
Þetta er band sem átti fyrst að vera sólóverkefni en þróaðist síðan og varð að 7 manna hljómsveit. Samstarf okkar hefur alltaf verið mjög skemmtilegt og gefandi. Við erum allir miklir vinir og náum vel saman bæði í lífinu og í tónlistinni. Það sem stendur upp úr hjá mér allavega eru öll ferðalögin sem við höfum farið saman í. Konungleg skemtun. Mér allavega dettur ekki neitt í hug sem mætti betur fara.
Ljósmynd: DV/Hanna
Hver er þín skoðun á íslensku tónlistarsenunni í dag, er eitthvað sem mætti fara betur?
Mér finnst hún bara mjög skemmtileg. Alls konar mismunandi hlutir í gangi og mikið af nýju stöffi sem er mjög spennandi og skemmtilegt að hlusta á. Við mættum kannski bara öll vera svolítið duglegri að hampa íslenskri músík og styðja við bakið á henni. Meiri tónlistarumfjöllun, fleiri live tónlistaratriði í sjónvarpi, fleiri að kaupa sér plötur og fleiri að mæta á tónleika.

Þú hefur verið að syngja mikið sjálfur í hinum og þessum verkefnum. Segðu okkur aðeins frá því. Hverskonar verkefni eru þetta?

Þetta eru hin ýmsu verkefni sem geta verið stutt, eins og að taka að sér jarðarfararsöng eða brúðkaupssöng, eða löng, eins og að syngja inn á plötu með Jóeli Páls eða leika Eddie í Rocky Horror í Borgarleikhúsinu.

Hvað finnst þér vera skemmtilegast við að starfa sem söngvari, hverjir eru ókostirnir?

Fyrst og fremst eru það forréttindi að fá að vinna við það sem manni finnst skemmtilegt, svo er líka voðalega fínt að vinna bara fyrir sjálfan sig og vera sinn eigin herra. Ókostirnir eru kannski aðallega bara hræðslan við það að síminn muni einn daginn bara hætta að hringja og maður endi á götunni. Þetta hefur allavega gengið ágætlega hingað til.

Þið eruð að fara gefa út ykkar fjórðu hljóðversplötu undir heitinu Sitt sýnist hverjum. Segðu okkar aðeins hvernig hún kom til og hvernig ferlið hefur gengið. Er platan að einhverju leyti frábrugðnari hinum þremum?
Hún kom bara til þegar við byrjuðum að semja nýja músík. En hún er svolítið öðruvísi en hinar því núna erum við að vinna með „pródúser” í fyrsta skipti, hann Pétur Ben. Það var ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt að vinna með honum og gott að fá utanaðkomandi rödd inn í bandið. Það lyfti lögunum upp á næsta plan. Þessi nýja plata er kannski aðeins meira rokk heldur en við höfum áður verið að vinna með, meira stuð.

[videopress mYmg94tI]

Hafi þið verið að túra mikið í gegnum árin? Hvar helst?
Við höfum tekið stutta túra í kringum landið og líka skotist til útlanda að spila í Þýskalandi, Sviss, Hollandi, Austurríki og Litháen. Það er alltaf mjög spennandi að spila í útlöndum því það er svolítið eins og byrja upp á nýtt, því flestir sem mæta þar hafa aldrei séð eða heyrt í okkur áður.
Hverjir myndiru segja að væru þínir/ykkar helstu aðdáendur?

Ég myndi halda að það séu þeir sem kaupa plöturnar og mæta á tónleikana, sérstaklega útgáfutónleikana.

Þið efnið til útgáfutónleika í Háskólabíói þann 22 september næstkomandi. Hvað má fólk eiga von á?

Fólk má eiga von á mikilli stemningu. Þetta er mikið gleðiefni fyrir okkur sem erum búnir að vera að vinna að þessari plötu síðustu 3 ár. Það hefur rosa mikil vinna og ástríða farið í þetta og ég er sannfærður um að það muni skína í gegn á þessum tónleikum.
Hvað er næst á sjóndeildarhringnum hjá þér?
Það er bara að halda áfram í Rocky, fylgja eftir nýju plötunni og huga að jólavertíðinni. Svo kannski stefnir maður á að gefa út aðra plötu á næsta ári, aldrei að vita.

Þann 22 september mun Valdimar efna til útgáfutónleika í Háskólabíó á sinni fjórðu hljóðversplötu, Sitt sýnist hverjum. Hægt er að tryggja sér miða á Miði.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Kolbrún syrgir bróður sinn

Kolbrún syrgir bróður sinn
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 2 dögum

Kristín og Árni nýtt stjörnupar

Kristín og Árni nýtt stjörnupar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Unnur birti tvær myndir – Önnur tekin fyrir ári síðan og sýnir ótrúlegan mun

Unnur birti tvær myndir – Önnur tekin fyrir ári síðan og sýnir ótrúlegan mun
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ómar leitar að leigjanda yfir jólahátíðina fyrir 600 þúsund krónur

Ómar leitar að leigjanda yfir jólahátíðina fyrir 600 þúsund krónur
Fókus
Fyrir 4 dögum

Læknir svarar því hvort maður geti raunverulega fengið klamýdíu af líkamsræktartæki

Læknir svarar því hvort maður geti raunverulega fengið klamýdíu af líkamsræktartæki