fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fókus

Rikki var lokaður í fangaklefa eftir að leita sér aðstoðar á geðdeild vegna fíkniefnavanda- „Þessi sjúkdómur leiðir ekki til neins nema geðveiki eða dauða“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 14. september 2018 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkharður Þór Guðfinnsson er í forsíðuviðtali Mannlíf í dag, en tvær vikur eru síðan hann útskrifaðist af geðdeild í kjölfar fíknimeðferðar á Vogi. Meðferðin var ekki sú fyrsta, heldur eru meðferðirnar orðnar það margar að hann hefur ekki tölu á þeim og gagnrýnir Rikki skort á úrræðum og baráttuna sem fólk í vanda þarf að heyja. Þegar hann komst á botninn í sumar og leitaði sér hjálpar á geðdeild, endaði hann í fangageymslum lögreglunnar.
Rikki er 24 ára gamall og ólst upp í Grindavík, þar sem honum gekk vel í skóla og var einn efnilegasti fótboltamaður bæjarins, þar til fjölskyldan varð fyrir áfalli þegar Rikki var 12 ára. Móðir hans fékk heilablóðfall og var vart hugað líf. Í kjölfarið tók við erfitt tímabil og breyttar heimilisaðstæður sem reyndu mikið á alla fjölskyldumeðlimi.
Við systkinin höfum öll upplifað okkar skerf af erfiðleikum og þegar ég hugsa til baka eru veikindi mömmu upphafið að mörgum þeirra. Þarna hefði klárlega þurft að vera eitthvað utanumhald, eitthvert teymi eða ráðgjöf sem okkur hefði átt að standa til boða. En það var ekkert svoleiðis. Fljótlega eftir þetta skildu mamma og pabbi, ég hætti í fótboltanum og fór að sækja í verri félagsskap.
Í 8. bekk byrjaði Rikki að drekka, og fljótlega eftir það að fikta við eiturlyf. Um leið og hann prófaði í fyrsta sinn var ekki aftur snúið og sumarið eftir útskrift úr grunnskólanum fór hann í sína fyrstu meðferð.
Ég fór ekki þangað inn af fullum hug, var í raun að bíða eftir því að komast út til að geta fengið mér aftur. Mér fannst ég ekki eiga við neitt vandamál að stríða og hafa fulla stjórn á þessu.
Næstu árin var Rikki inn og út úr meðferðum, bæði í styttri og lengri tíma, en tókst inn á milli að halda sér edrú. Á síðustu árum hefur hann eignast tvö börn, stundað sína vinnu af krafti og fjölskyldan stóð í þeirri trú að allt væri í góðu lagi. En reyndin var ekki sú, og að eigin sögn var feluleikurinn það sem átti eftir að reynast honum verst
Neyslan er leið til að flýja veruleikann. Ef maður er að takast á við einhverja erfiðleika getur maður frestað þeim með því að taka nokkrar töflur. Ég var einn af þeim sem fannst ég aldrei eiga við neitt vandamál að stríða, ég stundaði mína vinnu og var bara í góðum gír, að mínu mati, þrátt fyrir að fá mér öðru hvoru. En smátt og smátt fór fíknin að taka yfir allt. Hún yfirgnæfði allar tilfinningar þar til allt fór að snúast um að redda sér næsta skammti. Nú síðast var ég farinn að taka hvað sem ég komst í, en mest af lyfseðilskyldum lyfjum. Það er lygilegt hversu auðvelt er að verða sér úti um efni í dag, það þarf bara eitt símtal og því er reddað.
Síðastliðið sumar missti Rikki tökin á neyslunni, var útúrkókaður í jarðarför ömmu sinnar og ræddi fjölskyldan um að svipta hann sjálfræði þar sem hann vildi ekki gangast við vandamálinu, fyrr en eftir djammhelgi þar sem hann lagði íbúð móður sinnar í rúst.
Ég var kominn á botninn, og vissi að ef ég fengi ekki hjálp væri þetta hreinlega bara búið. Ég gat ekki meira.
Reynt var að koma Rikka inn á Vog, en honum var sagt að hann gæti komið þangað í viðtal eftir tvær vikur. „Pabbi og konan hans ákváðu því að keyra mig niður á geðdeild og reyna sitt besta til að útskýra fyrir þeim ástandið.“
Rikki var undir áhrifum og var vísað út. „Ég reiddist við þessa lækna sem ætluðu að henda mér út, með engin önnur úrræði fyrir mig. Ég sagði við þá að ef ég kæmist ekki þarna inn myndi ég fara beinustu leið upp í Heiðmörk, setja pústið inn í bílinn og enda þetta allt.“
Skipti þá engum togum að tveir lögreglubílar komu á svæðið, Rikki var handjárnaður og vistaður í fangaklefa á Hverfisgötu. Eftir 24 klukkustundir í einangrun var hann handjárnaður á ný og fluttur í lögreglufylgd aftur niður á geðdeild. Hann segist ekki hafa fengið neinar skýringar á þessum atburðum eða hvort þetta teljist eðlilegir verkferlar, en telur þetta lýsandi fyrir ástandið í geðheilbrigðismálum á Íslandi.
Það vantar klárlega einhver úrræði, það á ekki að líðast að fólki á svona viðkvæmum stað sé vísað frá þegar það leitar sér aðstoðar. Hvað þá að vera skellt í handjárn og hent í fangelsi. Ég skil ekki að þrátt fyrir alla þá umræðu sem hefur átt sér stað síðustu mánuði virðist ástandið aðeins fara versnandi. Það er ljóst að miklar breytingar verða að eiga sér stað í þessu ónýta kerfi.
Af tveimur slæmum kostum segist Rikki að vissu leyti hafa verið heppinn að málin þróuðust á þennan veg. „Ég komst að minnsta kosti inn á geðdeild að lokum og fékk hjálp, ólíkt mörgum sem vísað er frá. Það átti að loka á mig og segja „sorrí, vinur“.
Ég er harðákveðinn að standa mig. Ég veit að nú þarf ég að leggja öll spil á borðið því þetta er mitt síðasta tækifæri. Neyslan og ruglið var orðið svo mikið, að ef ég hætti ekki núna er þetta búið. Það er satt sem sagt er, að þessi sjúkdómur leiði ekki til neins nema geðveiki eða dauða. Ég hef fengið annað tækifæri og ætla mér að nýta það vel.
Í viðtalinu er einnig rætt við Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn, sem segir málefni fólks með geðrænan eða tvíþættan vanda vera lögreglunni vel kunnug og að embættið hafi áður bent á skort á úrræðum.
Viðtalið má lesa í heild sinni hér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni