fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Fókus

Viðtal við Ingvar um kynferðisbrot séra Helga vekur mikla athygli – Annar þolandi stígur fram í kjölfar viðtalsins – „Játning Helga var ekki endilega tilkomin vegna iðrunar“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 3. september 2018 16:30

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í nýjasta tölublaði DV er viðtal við Ingvar Valgeirsson tónlistarmann, en hann er einn þeirra þriggja manna sem kærðu séra Helga Hróbjartsson, prest og trúboða, árið 2010. Helgi játaði að hafa framið kynferðisbrot gegn þeim 25 árum áður. Brot Helga fólust annars vegar í kynferðislegu ofbeldi og hins vegar í kynferðislegri áreitni.

Viðtalið verður birt í heild sinni á DV.is þriðjudagskvöld kl. 20, en hér má lesa hluta af því.

Viðtalið vakti mikla athygli og í kjölfar þess hefur Ingvar fengið fjölda fyrirspurna, símtala og pósta, auk spurninga á borð við: „Hvað gerði hann?,“ „af hverju talaðirðu ekki við lögguna?,“ „hverjir voru hinir strákarnir?,“ „af hverju gerði kirkjan ekkert?,“ „af hverju komstu ekki fram fyrr?“ og „af hverju núna?“

Flestum þessum spurningum er svarað í viðtalinu, og í færslu á Facebook fyrr í dag svarar Ingvar þeim einnig.

Það sem gerðist árið 1986 – Helgi Hróbjartsson (á þessum tíma afleysingaprestur í Hrísey og trúboði í Eþíópíu) bað hann mig um að koma inn í tjald til sín á Akureyri, greip í mig og kyssti mig beint á munninn. Reyndi að troða tungunni upp í mig, en ég herpti varirnar svo fast saman að þær sprungu. Svo reif ég mig lausan og hljóp heim með blóðbragð í munninum. Þetta er alveg skýlaust kynferðisbrot. Hann var um fimmtugt, ég var fjórtán ára. Hann var hávaxinn og sterkur, ég lítill og hræddur.

Ég talaði ekki við lögguna af því að ég var 14 ára og vissi ekkert hvað ég ætti að gera. Hann var líka frægur (þannig séð), fljúgandi mælskur og vafði öllum um fingur sér. Til dæmis var gerður sjónvarpsþáttur um Helga um þetta leyti, hvar honum var lýst sem algerum engli – og fjárframlögum frá einstaklingum rigndi inn.

Ég komst seinna (2003) að því að hann hafði leitað á mann sem ég þekki vel – boðið honum, 14-15 ára á þeim tíma, áfengi og reyndi að fá hann til að gista í rúminu sínu í prestsbústaðnum í Hrísey. Það er kynferðisleg áreitni, auk þess sem það er mjög alvarlegt að prestur helli víni í krakka svona í einrúmi heima hjá sér.

Árið 2010 komst ég svo að því að það var annar þolandi sem hafði því miður ekki sloppið eins vel og við hinir. Við töluðum við kirkjuna en ekki lögguna af því að málið var fyrnt. Kirkjan talaði samt við lögguna og/eða fulltrúa saksóknara, sem gat ekkert gert.

Fagráð kirkjunnar gerði það sem það gat eftir að Helgi játaði, hann starfaði ekki aftur fyrir kirkjuna (hafði reyndar bara verið í afleysingum og þótti óáreiðanlegur), ekki fyrir Kristniboðssambandið (hann hafði reyndar mest verið kristniboði á eigin vegum og starfaði ekki fyrir Kristniboðssambandið fyrr en upp úr aldamótum) og kirkjur og kristniboðssamtök erlendis voru látin vita. Hann fór aftur til Konsó í Eþíópíu og ég hugsa til þess með hryllingi hvað hann gæti hafa komist upp með þar. Kirkjan gerði svo sem helling, eins mikið og hún gat. Fagráðið þar tók okkur þremur vel og er ekkert upp á það að klaga í þessu tilfelli.

Það virðist vera útbreiddur misskilningur að fagráð kirkjunnar sé til að hylma yfir eða eitthvað slikt. Svo er ekki. Fagráðið er að sjálfsögðu fyrir þau mál sem ekki eiga heima hjá lögreglu af einhverjum ástæðum (fyrnd eða annað) og þau virðast ekki hika við að kalla á lögreglu ef þess þykir þurfa. Það er mín reynsla að fagráðið kirkjunnar er með þolendum í liði, algerlega.

Eftir að hann játaði komst ég í samband við fleiri stráka sem höfðu lent í honum. Fæstir sluppu jafn vel og ég. Minnst einu sinni brotnaði ég algerlega niður eftir að hafa heyrt sögu viðkomandi og hágrét.

Af hverju kom ég ekki fram fyrr? Ég kom fram fyrr. Ég hef oft talað um þetta mál á bloggsíðum, hér á fésbókinni og víðar. Ég slapp betur en sumir og á því kannski auðveldara með að tala um þetta. En ég fékk eilítið sjokk um daginn þegar barnaníðingurinn Helgi lést og ég las þrjár minningargreinar í Mogganum, hvar hann var mærður í bak og fyrir. Fjöldi fólks hafði ekki heyrt af málinu og aðrir höfðu staðið í þeirri meiningu að þetta hefði ekki verið alvarlegt, það er „bara“ óviðeigandi hegðun eða eitthvað slíkt. Helgi laug að fólki um brotin og hann laug því að þau hefði aðeins verið þrjú.

Eins komst ég að því fyrir viku að játning Helga var ekki endilega tilkomin vegna iðrunar, heldur átti einn okkar þremenninganna sem kærðu hann (sá okkar þriggja sem verst lenti í honum) bréf frá níðingnum sem sannaði sekt hans, í það minnsta að hluta. Á sama tíma hafði ég samband við ágætan mann erlendis, sem hefði lent í Helga á unglingsárum og sagt frá því á bloggsíðu sinni.

Viðtalið í DV varð svo til þess að í gærmorgun hafði gamall vinur minn samband við mig. Sá hafði lent í ítrekuðu kynferðislegu áreiti að hálfu Helga á svipuðum tíma og ég. Níðingurinn lét sér nefnilega ekki nægja að herja á KFUM og kirkjuna, heldur sá hann grösugar veiðilendur líka í íþróttastarfi, enda góður íþróttamaður. Sá vinur minn sagði frá á fésbókarsíðu sinni í gær eftir að hann talaði við mig og mun tala við fagráð kirkjunnar sem fyrst.

Þolendur níðingsins Helga Hróbjartssonar voru semsagt ekki bara þrír, heldur ÁTTA – sem ég hef talað við. Utan þess var einn sem sagðist hafa lent í honum á unglingsárum, en sá er nú látinn. Ég vona innilega að þeir séu ekki fleiri, en ef þeir eru það bið ég viðkomandi að hafa samband við fagráð kirkjunnar eða lögreglu, ef málið er ekki fyrnt.

Eins og sjá má hér að ofan, og í viðtalinu, sem er eins og áður segir birt annað kvöld kl. 20, eru aðrir þolendur Helga ekki nafngreindir í viðtalinu, enda er það þeirra að stíga fram og segja sína sögu, hvort sem er aðeins vinum og ættingjum eða opinberlega, en ekki Ingvars og ekki blaðamanns DV. Ljóst er þó að fórnarlömb Helga eru mörg og fleiri en þau þrjú, sem hann játaði brot gegn árið 2010.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Balotelli strax á förum
Fókus
Í gær

Tímavélin: Ferðir Íslendinga til Tenerife eru engin nýmæli – „Reyndist sá grunur minn réttur að þar væru landar mínir og ferðafélagar“

Tímavélin: Ferðir Íslendinga til Tenerife eru engin nýmæli – „Reyndist sá grunur minn réttur að þar væru landar mínir og ferðafélagar“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Kristín Tómas: Það er hægt að vinna úr framhjáhaldi

Kristín Tómas: Það er hægt að vinna úr framhjáhaldi
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er ólög að fólk sem finnur einu leiðina til að bjarga lífi sínu sé að gera ólöglega hluti“

„Það er ólög að fólk sem finnur einu leiðina til að bjarga lífi sínu sé að gera ólöglega hluti“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég á lítinn skrítinn skugga – Lífið er núna“

„Ég á lítinn skrítinn skugga – Lífið er núna“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þetta eru Óskarstilnefningarnar í ár – Söngvamynd um mafíósa með flestar tilnefningar og brýtur blað í sögu Óskarsins

Þetta eru Óskarstilnefningarnar í ár – Söngvamynd um mafíósa með flestar tilnefningar og brýtur blað í sögu Óskarsins
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kristín Tómas: Algengustu vandamálin í parasamböndum

Kristín Tómas: Algengustu vandamálin í parasamböndum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslenskar konur lýsa ólíkum upplifunum á Ozempic – „Myndi ekki óska mínum versta óvin það sem ég gekk í gegnum“

Íslenskar konur lýsa ólíkum upplifunum á Ozempic – „Myndi ekki óska mínum versta óvin það sem ég gekk í gegnum“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segir Gísla Martein hafa gert ósmekklegt grín að konunni sem steig fram í síðustu viku

Segir Gísla Martein hafa gert ósmekklegt grín að konunni sem steig fram í síðustu viku