fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Una:Við þurfum að vera dugleg að hlúa að senunni og styðja íslenska tónlistarmenn

Guðni Einarsson
Laugardaginn 1. september 2018 14:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Söngkonan og lagasmiðurinn Una Stef hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi undanfarin ár. Una skaust fram á sjónarsviðið árið 2014 með plötunni Songbook og hefur síðan sent frá sér slagara líkt og “The One” sem fékk jafnframt tilnefningu sem lag ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár auk þess sem Una sjálf var tilnefnd sem söngkona ársins. Tónlist Unu er uppfull af afbragðs grúví og grípandi og það sama má segja um sviðsframkomu söngkonunnar sem einkennist af mikilli útgeislun.

Undirritaður hitti söngkonuna og fræddist um tónlistina, innblásturinn og sitthvað fleira.

Hver er Una Stef?

Una Stef er tuttugu og eitthvað ára tónlistarkona: söngkona, tónskáld, hljóðfæraleikari, útsetjari og tónlistarkennari úr Fossvogi. Hún er einnig háklassa fótboltabulla og forfallin Crossfitkona sem getur ekki setið kyrr eða haft hljótt í margar mínútur í einu.

Hvernig hófst tónlistarferillinn?

Ég held að hann hafi verið í mótun frá því ég var lítil. Foreldrar mínir reka tónlistarskóla og pabbi minn hefur verið starfandi tónlistarmaður nánast allt sitt líf. Það er því óhætt að segja að ég hafi verið mikið í kringum tónlist frá unga aldri og ég á alls kyns minningar frá því að vera í kringum vinnuna hans pabba hvort sem það var á tónleikum, tónlistarskóla, upptökuveri eða í rútu einhvers staðar á tónleikaflakki. Mér fannst alltaf leiðinlegt að fá ekki að vera með og hljóp t.d. upp á svið til pabba í Háskólabíó 4 ára gömul og var alveg brjáluð að fá ekki að taka lagið.

Frá því ég var svona ponsulítil þá var þetta alltaf stefnan, ég ætlaði bara að verða tónlistarkona. Þessari ákvörðun fylgdu ófáar söngskemmtanir og tónlistaratriði í öllum fjölskylduboðum næsta áratuginn og ég vil meina að ferillinn hafi byrjað þar. Ég vil einnig nýta tækifærið og biðja fjölskylduna mína afsökunar á að eyðileggja flæðið í öllum kökuboðssamtölum í rúman áratug þarna um árið.

Grunnskólaárin fóru rosa mikið í að hanga í bílskúrum vina minna í alls kyns hljómsveitum og svo söng ég inn á alls konar rapp-plötur en þá var rappsenan talsvert meira neðanjarðar en í dag. Ég “giggaði” aðeins með hinum og þessum böndum, ýmist í félagsmiðstöðvum og skólaböllum en svo stækkuðu giggin og ég man eftir að hafa t.d. hitað upp fyrir hinn mikla Basshunter á Broadway með rapparakrúi sem innihélt m.a. Emmsjé Gauta þegar ég var 14 ára. Ég held að enginn okkar hafi haft aldur til að vera þarna inni.

Ég var svo heppin að geta byrjað í tónlistarnámi 6 ára gömul, lærði fyrst á píanó áður en ég skipti yfir á þverflautu. Unglingsárin leiddu mig svo inn í klassískt söngnám áður en ég fór yfir í Tónlistarskóla FÍH í jazzsöng þaðan sem ég kláraði burtfarapróf. Árið sem ég kláraði FÍH gaf ég út plötu með eigin tónlist og útsetningum og þá fór boltinn að rúlla.

 Hvað finnst þér skemmtilegast að semja um?

Ég hef í raun engan prefrens og ákveð sjaldnast fyrirfram hvað ég vil semja um. Það er frekar þannig að lagið taki einhverja ákveðna stefnu og ég fatti á miðri leið hvað ég er í raun að segja með laginu. Þetta er auðvitað brilliant tæki til sjálfskoðunar, til dæmi gæti maður allt í einu farið að semja lög um eitthvað sem gerðist fyrir milljón árum og vissi ekki að sitji ennþá á sálinni.

Mér finnst reyndar líka mjög gaman að fá eitthvað konsept til að vinna með t.d. frá öðrum artista sem ég skrifa fyrir. Það auðveldar oft aðeins fyrir meira að segja. Aðal atriðið finnst mér bara að vera einlægur alveg sama þó maður sé að semja um ástina eða kaffibaunir. Gerðu það bara af einlægni.

Hvar finnst þér best að semja?

Það eru engar sérstakar aðstæður þannig lagað en ég sem langoftast við píanó. Stundum hafa þó poppað upp melódíur í hausinn á mér í bílnum eða sturtu en þá líður mér eins og ég þurfi að komast að píanói til að geta gert eitthvað við þær. Ró, næði og kaffibolli er einnig mjög vel þegið.

Ljósmynd: DV/Hanna

Hvernig finnst þér íslenska tónlistarsenan í dag?

Mér finnst íslenska tónlistarsenan bara vera stórkostleg. Hún er ótrúlega lifandi, öflug og fjölbreytt.

Það eru langflestir sem gefa út tónlist á Íslandi að gera það því þeir brenna fyrir listina sína og hafa ánægju af henni. Við erum að mestu laus við þetta “meik-it” attitjúd sem er svo algengt t.d. í Bandaríkjunum. Maður verður ekki milljónamæringur af einum hittara á Íslandi eða komin á Kim Kardashian business level af því að verða þekktur. Fyrir vikið er tónlistin betri og einlægari. Ekki að það sé neitt að því að búa til tónlist í þeim tilgangi að verða ríkur og frægur, alls ekki, það eru örugglega fullt af lögum sem ég elska sem voru samin í þeim tilgangi. Ég held samt að öllu jafna sé einlæg list sem kemur frá hjartanu sannari og lifir lengur.

Við þurfum að vera duglega að hlúa að senunni og styðja íslenska tónlistarmenn. Mætum á tónleika, kaupum íslenskar plötur o.s.frv. Íslensk tónlist er þekkt um allan heim og orðið aðdráttarafl fyrir marga og magnið af útlendingum sem koma hingað á hverju ári á íslensku tónlistarhátíðirnar eru sönnun þess.

Nærðu að lifa á tónlistinni? 

Já, í rauninni. Ég kenni einnig söng, píanó, þverflautu, saxófón og klarinett í tónlistarskólum. Kennslan gefur mér ótrúlega mikið og ég hef mjög gaman af henni en síðustu þrjú ár hef ég þurft að minnka við mig hvert einasta haust vegna anna og hún er núna í minnihluta. En ég tími bara ekki að hætta að kenna.

Svo vinn ég vinn í alls konar verkefnum ýmist sem Una Stef, í djassinum eða meira bakvið tjöldin t.d. semja og/eða útsetja fyrir aðra.

Finnst þér tónlistarmönnum vera borið nægilega hátt undir höfði launalega séð? 

Það er rosalega mismunandi. Ég held að okkar helsta vandamál sé að samræma okkur sem stétt og t.d. fá alla til að rukka eftir taxta. Þetta er mjög flókið dæmi. Ég finn til dæmis mjög mikinn mun á launum eftir því hvort ég er að spila innan poppsenunnar eða í jazzsenunni. Orðum það þannig að það er mun erfiðara fyrir djassara að kaupa sér hús en poppara.

Hins vegar er allt of algengt að tónlistarfólk sé beðið um að koma fram launalaust t.d. á veitingastöðum eða börum. Mér þykir ekki í lagi að biðja einhvern um að koma og gefa vinnuna sína á meðan veitingasala eykst á meðan eins og er oftar en ekki raunin þegar það er tónlistaratriði á staðnum. Það trekkir að. Hugtakið um að tónleikar séu “svo góð auglýsing fyrir tónlistarmanninn” blívar bara ekki. Það er ekki nóg.

Hvað finnst þér vera mikilvægast í fari tónlistarmanna þegar kemur í að því að flytja tónlist?

Ég er alltaf mjög hrifin af tónlistarmönnum sem performera og eru í miklu kontakti við áhorfendur en fólk er vissulega misjafnt. En ég held að einlægni og orka á sviði sé lykillinn að góðum tónleikum.

Hverjir mynduru telja að væru þínir helstu aðdáendur?

Ég myndi segja að það væri nokkuð breiður hópur en þau eiga það greinilega sameiginlegt að vera öllsömul toppfólk með óaðfinnanlegan tónlistarsmekk.

Með hvaða íslenska tónlistarmanni viltu vinna með?

Moses Hightower, ó elsku Moses lífs míns. Ég held að ég hafi spilað með þeim öllum í mismunandi lagi en aldrei bandinu sjálfu – ég hvet lesendur DV.is til að senda þeim póst og segja þeim að gera lag með Unu Stef. Það væri draumur.

Hefuru upplifað einhverjar hindranir í tónlistinni? Ef svo er, hverjar?

Já algjörlega, það fylgir bara þessum bransa. Og lífinu yfir höfuð. Ef maður hangir of mikið á því þá kemst maður ekkert áfram og oft eru þetta hlutir sem maður lærir mikið af.

Stundum þegar nemendum mínum vantar pepp þá segi ég þeim frá því þegar mig dreymdi um að fara í MH til að komast í Hamrahlíðakórinn. Ég hafði verið í kórastarfi áður og sungið helling þegar ég fór á busaárinu mínu í prufur og komst ekki inn. Og ekki árið eftir heldur. Ég var gjörsamlega ónýt í hjartanu yfir þessu en blessunarlega komst ég inn í Tónlistarskóla FÍH eftir seinni höfnunina og fann mig þar. En peppsagan er sumsé þannig að einu sinni var stelpa sem komst ekki í Hamrahlíðakórinn og nokkrum árum seinna var hún tilnefnd sem söngkona ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum.

Ljósmynd: DV/Hanna

Þú ert að fara koma fram bæði á Jazzhátíð Reykjavíkur og Iceland Airwaves, hverju má fólk búast við?

Það má búast við orku og gleði. Þegar við, hljómsveitin, komum saman þá endum við oftar en ekki hoppandi og skoppandi að springa úr spilagleði. Þá eru funklögin sett í forgrunn sem vill oft enda í dansiballsstemningu. Það er lífið enda ekkert betra en að gera það sem manni finnst skemmtilegast að gera með skemmtilegustu vinum sínum.

Hvað er næst á sjóndeildarhringnum hjá þér?

Ég er á fullu að taka upp og semja. Það kemur nýr síngúll frá mér núna í september og svo er alls konar spilerí framundan t.d. á Jazzhátíð Reykjavíkur og Iceland Airwaves en svo er Evróputúr á kortinu líka fyrir næsta ár. Á meðan það er gaman þá höldum við áfram og einsog er þá er þetta bara það skemmtilegasta sem við gerum.

Una Stef kemur fram á Jazzhátíð Reykjavíkur þann 8 september og fara tónleikarnir fram í Gömlu kartöflugeymslunum kl. 23:00.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vill að RÚV geri samning við Vesturport

Vill að RÚV geri samning við Vesturport
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Fókus
Fyrir 4 dögum

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set