Matt Friedrichs, hjá YouTube-rásinni ESCunited, birti á dögunum myndband þar sem hann skoðar hvert einasta framlag Íslendinga í Eurovision-keppninni frá upphafi. Matt rúllar yfir hvert lag eftir tímaröð frá árinu 1986 og gefur sér aðeins 10 sekúndur á hvert með líflegum yfirlestri.
YouTube-rásin hjá Matt hefur sópað til sín tæplega tíu þúsund áskrifendum og sérhæfir sig eingöngu í Eurovision-keppninni og öllu tilheyrandi, með fréttum, viðtölum, myndbandsbloggum og ýmsu.
„Ísland er lítið land með lítinn tónlistariðnað. Þetta gæti útskýrt það hvers vegna það tók þá svona langan tíma að finna rétta taktinn,“ segir Matt meðal annars um íslensku Eurovision-lög níunda áratugarins. Þó var Matt töluvert jákvæðari á þann tíunda, að undanskildu laginu „Núna“ frá Björgvini Halldórssyni og „Sjúbídú“ með Önnu Mjöll. En hvað segir hann um áratuginn eftir það?
Sjón er sögu ríkari.