Um 25 ungmenni hafa látist í ár vegna eiturlyfjaneyslu samkvæmt upplýsingum frá Landlækni, neyslumynstur ungmenna er að breytast og auðvelt er fyrir ungmenni að ná sér í lyf og fíkniefni í gegnum samfélagsmiðla og snjallsíma. Staðalímyndin um hinn dæmigerða fíkniefnaneytanda er líka breytt, auk þess sem leitarbeiðnir og nauðungarvistun barna og unglinga í vanda er að aukast.
Blaðamaður DV ræddi við mæður barna sem fallin eru frá langt fyrir aldur fram vegna neyslu á lyfseðilsskyldum lyfjum, móður ungs manns sem fannst látinn eftir að hafa verið neitað um hjálp á geðdeild, bróður ungs manns sem framdi sjálfsvíg eftir langvarandi neyslu, og Guðmund Fylkisson lögreglumann sem finnur „Týndu börnin“ og færir þau heim.
Þetta er hluti af stærri umfjöllun í DV.
Guðrún var fædd þann 7. september 1989, ung kona sem átti allt lífið framundan, hún lést af völdum lyfjaeitrunar lyfseðilsskyldra lyfja þann 10 nóvember síðastliðinn, aðeins 28 ára gömul.
„Andlát hennar kom okkur algjörlega í opna skjöldu. Guðrún var róleg og yfirveguð ung móður í námi, hún átti sitt heimili og sína framtíðardrauma. Hún var heimakær og var lítið fyrir skemmtanalífið. Áhugamálin hennar voru að vera úti í náttúrunni eða að vera heima og horfa á góðar myndir í rólegheitum. Hún var með smitandi hlátur og mikill húmoristi, hafði hlýja og góða nærveru og var tilfinningarík og trygglynd. Hún var góður vinur vina sinna og góð systir sem hafði alltaf tíma til að hlusta. Hún var á þeim stað þegar hún lést, þetta var svo stuttur aðdragandi. Í dag eigum við kærleiksríkar minniningar um Guðrúnu sem fór allt of fljótt, fór í blóma lífsins og skyldi eftir sig 3 ára yndislegan son og það er erfitt að hugsa til þess að hann fái ekki að njóta mömmu sinnar. Það voru margir sem elskuðu Guðrúnu og missirinn er mikill og sorgin djúp, það er ólýsanlega sárt að hugsa að hún sé farin, að ég fái aldrei aftur að taka utan um hana, eigi aldrei aftur eftir að hitta hana, þetta er ennþá svo skrýtið,“ segir Fanney Halldóra Kristjánsdóttir, móðir Guðrúnar.
Í grein DV sem birtist 16. nóvember síðastliðinn segir móðir hennar einnig „Á hverju ári missum við fullt af ungu fólki sem hefur verið í sömu aðstæðum og dóttir mín, en það nær samt ekki að vekja okkur til meðvitundar um að það þurfi verulega að bæta geðheilbrigðiskerfið okkar. Mikið vildi ég óska þess að það yrði vitundarvakning í samfélaginu.“
Aðstandendur ungmennanna sem fallið hafa frá langt fyrir aldur fram hafa valið að koma fram með myndir og sögur ástvina sinna, til að sýna að þau eru ekki bara tölur á blaði, heldur ungt og fallegt fólk sem var elskað af fjölskyldu og vinum. Mörg þeirra leituðu sér hjálpar sem ekki var í boði, sum eiga neyslusögu að baki meðan önnur fiktuðu bara einu sinni. Margir eiga um sárt að binda eftir andlát þeirra, en vilja eigi að síður koma fram opinberlega til að standa saman með öðrum aðstandendum, opna umræðuna og halda henni vakandi og knýja á um breytingar í fræðslu, forvörnum og meðferðarúrræðum.
Sjá einnig: Lyfin hefðu sigrað hefði hann ekki svipt sig lífi.
Sjá einnig: Dóttir Kristínar lést langt fyrir aldur fram – Upplifði fordóma annarra hjá sjálfri sér.
Sjá einnig: Féll aftur sama kvöld og vinkona hennar fyrirfór sér á Vogi.
Sjá einnig: Kom alls staðar að lokuðum dyrum þegar hann leitaði sér hjálpar.