Níu mótorhjólamenn, sem eru félagar í ToyRun góðgerðarsamtökunum, nota helgina og hjóla hringinn í kringum landið í þeim tilgangi að kynna Pieta samtökin sem berjast gegn sjálfsvígum og sjálfskaða.
Stoppa þeir á nokkrum stöðum og selja merki sem þeir hönnuðu sjálfir.
„Þetta er þriðja árið í röð sem við forum hringinn í þessum tilgangi,“ segir Gylfi Hauksson forsvarsmaður Toy Run góðgerðarsamtakanna.
Þeir félagar voru í gærkvöldi á Eistnaflugi í Neskaupstað og í dag verða þeir á hjóladögum á Akureyri.
Félagsskapurinn er hópur af vinum sem hafa gaman af því að ferðast og hjóla saman. Ákváðu þeir á sínum tíma að nýta hjólaferðirnar og láta gott af sér leiða í leiðinni.
Facebooksíða Pieta samtakanna.
Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið, númerið er ókeypis og opið allan sólarhringinn.
Nánari upplýsingar hér: https://www.raudikrossinn.is/hvad-gerum-vid/hjalparsiminn-1717
Píeta samtökin bjóða einnig upp á þjónustu í síma 552-2218 fyrir fólk í sjálfsvígshættu og með sjálfsskaðahegðun.