Þetta er nokkuð sérstakt því yfirleitt tekur það veitingastaði góðan tíma að koma sér á flug.
Óhætt er þó að álykta að stemmningin og fantagóð fæða séu meðal þess sem dregur gestina að – fyrir utan þá staðreynd að Grandinn er á margan hátt að verða eins og nýr Laugavegur. Þar iðar allt af kúltúr og mannlífi, langt fram á kvöld, alla daga vikunnar.
Jóhanna Andrésdóttir ljósmyndari, og Margrét Gústavsdóttir, blaðamaður, litu við í Mathölllinni og forvitnuðust um hvað þar er á boðstólnum. Smelltu á myndirnar til að stækka þær upp.
Egill Sigurðsson, vaktstjóri á Micro Roast, var í góðum gír á korktappakollinum þegar ljósmyndara og blaðamann bar að garði. Micro Roast er vínbar í eigu Te og Kaffi en þar er sérstök áhersla lögð á svokölluð náttúruvín sem Egill segir yfirleitt framkalla mikið minni höfuðverk daginn eftir en þessi hefðbundnu.
Hversu gott er það?
Birgir Reynisson og Herborg Svana Hjelm eru snillingarnir á bak við Fjárhúsin þar sem aðal áherslan er lögð á ljúfmeti úr lambakjöti. Til dæmis er boðið upp á lambaborgara með lambabeikoni og nýstárlega flatköku með mögru hangiketi úr Þistilfirði þar sem rollurnar þykja bera af.
Gylfi Bergmann forðast að flækja málin.
Á Gastro Truck er aðeins boðið upp á einn rétt. Afbragðs kjúklingaborgara með tilheyrandi kryddum og hrásalati.
Þessum rétti er varla hægt að lýsa. Fólk verður bara að prófa sjálft, – og ef þú kannt ekki að meta kjúlla þá er reyndar hægt að fá grænmetisútgáfu af kjamsinu.
Sigrún Hauksdóttir og Sóley Lúðvíksdóttir standa vaktina á Rabarbarnum en sá staður er einnig með útibú á Hlemmi. Þar fæst lífrænt ræktað grænmeti, gómsætar súpur og sitthvað fleira fyrir heilsuboltana.
Feðginin Ylfa og Atli Snær voru í góðum fílíng á Kore þó allt hefði selst upp í básnum þeirra áður en hádegið kláraðist.
Atli Snær, sem útskrifaðist sem matreiðslumaður frá Michelin staðnum Dill, býður framandi kóreanskan mat með íslensku yfirbragði en allra vinsælasti rétturinn þeira heitir „Jæja Kimchi“.
Svona líka vinsæll. Hann selst stundum upp.
Sindri Freyr Mooney var á „skítafloti“ (kokkamál) þegar við mættum að básnum hjá LAX en gaf sér samt smá tíma til að pósa fyrir okkur ásamt Agnesi Freyju Björnsdóttur servitrísu.
LAX er svalur staður, aðallega af þeirri ástæðu að þar er hægt að fá prosecco glas af krana fyrir aðeins 890 krónur. Þetta er sannarlega nýlunda hér á landi sem reikna má með að slái temmilega í gegn enda hefur neysla á prosecco færst gríðarlega í aukana hjá vestrænu millistéttinni síðustu misserin. Svo mikið að sumir vilja meina að nú sé „sjampóið“ úti en prosecco inni.
Karen Lien Thinguyen rekur víetnamska staðinn Go/Cuon. Hún býður upp á ferskar vorrúllur, kjúklingasúpu og annað hnossgæti frá sínu heimalandi.
Í grunninn er rétturinn fusion, bræðingur eða blanda af mismunandi matarhefðum, en heimildir eru til um þennan rétt allt frá miðri 18.öld á Bretlandseyjum.
Hugmyndafræðin á bak við Fusion Fish & Chips er að reiða fram klassískan rétt með nýrri nálgun.
Nálgunin verður að mestu leyti undir norrænum og japönskum áhrifum og tilraunakennd á köflum enda ekkert meitlað í stein þegar kemur að því að þróa þennan vinsæla rétt.
Hjá Íseey – skyrbar er boðið upp á allskonar bræðinga og blöndur þar sem íslenskt skyr er í aðalhlutverki. Birta Sóley Árnadóttir stendur vaktina á barnum með bros á vör.
Myndir: Jóhanna Andrésdóttir