Eins og gefur auga leið eru margir sem skipuleggja hjónavígslur með árs fyrirvara og fyrir ári vissi enginn að Ísland væri á leiðinni á HM akkúrat þetta sumarið.
Í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun var spjallað við brúður sem byrjaði einmitt að leggja á ráðin fyrir ári en hún segir þau verðandi hjónin hafa fengið smá áfall þegar það kom í ljós að fyrsti leikur Íslands yrði sama dag og þau ætla að ganga upp að altarinu.
Hún segir að þau hafi íhugað að færa athöfnina:
„Við hugsuðum það og athuguðum það en þá var kirkjan bókuð aftur seinni partinn, þannig að við hefðum ekki getað verið í sömu kirkju og við hefðum líka misst tónlistina í kirkjunni,“ segir brúðurin sem heitir Edda Ósk Smáradóttir:
„Við auðvitað ákváðum þetta ári áður og þá var Ísland ekki komið á HM.“
Edda Ósk segist vel skilja ef einhverjir gestir fylgjast með athöfninni með útvarpslýsingu á leiknum í eyrunum.
„En ég fæ nú að sjá mest af leiknum, af því ég þarf að mæta síðust,“ segir Edda sem mun ganga í hnapphelduna í miðjum síðari hálfleik.