Ef lesendur hafa ekki þegar gert sér ferð í Gljúfrastein þá er tilvalið að skella sér á tónleika og skoða um leið þessa hönnunarperlu í Mosfellsdalnum því nóbelsskáldið skorti sannarlega ekki góðan smekk.
Gljúfrasteinn var á sínum tíma mikið tónlistarheimili og ýmsir heimsþekktir tónlistarmenn héldu þar tónleika auk þess sem Halldór sjálfur var prýðilegur píanóleikari og mikill tónlistarunnandi.
Stofutónleikar hafa verið haldnir á Gljúfrasteini frá því sumarið 2006 og eru þeir orðnir 158 talsins þar sem samtals 331 tónlistarmaður hefur komið fram.
Valdís Þorkelsdóttir, tónlistarkona og starfskona á Gljúfrasteini sá um að setja saman fjölbreytta dagskrá sem samanstendur af 13 tónleikum með helstu kanónum í íslensku tónlistarlífi en meðal þeirra sem koma fram í sumar, auk þeirra Megasar og Kristins, eru t.d. Ragnhildur Gísladóttir, Kristinn Sigmundsson, Ylja, Diddú og margir fleiri.
3. júní Megas og Kristinn H. Árnason gítarleikari leiða saman hesta sína á Sjómannadaginn.
10. júní Teitur Magnússon & Æðisgengið bjóða upp á laufléttan og hressandi bræðing sumarslagara og þjóðlegra notalegheita.
17. júní Ari Bragi Kárason trompet og Eyþór Gunnarsson píanó láta laglínu og spuna leiðast í harmóníu út í óvissuna á sjálfan þjóðhátíðardag Íslendinga.
24. júní Umbra Ensemble flytur nýja og forna tónlist í eigin útsetningum.
1. júlí Stórsöngvarinn Kristinn Sigmundsson og Anna Guðný Guðmundsdóttir píanó flytja íslensk og erlend sönglög.
8. júlí Ragnhildur Gísladóttir og Björgvin Gíslason koma fram með söng og leik á snittubassa og sítar.
15. júlí Þær Bjartey og Gígja í hljómsveitinni Ylju leika sín uppáhalds íslensku þjóðlög í nýjum útsetningum.
22. júlí Hamrahlíðarkórinn undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur flytur lög við ljóð Halldórs Laxness.
29. júlí Diddú heiðrar minningu Auðar Laxness, húsfreyjunnar á Gljúfrasteini í tilefni af 100 ára afmæli hennar. Undirleikur verður í höndum Helgu Bryndísar Magnúsdóttur.
5. ágúst Vísur og skvísur flytja íslensk og skandinavísk vísnalög þar sem texti og tilfinning mætir hljómþýðum laglínum.
12. ágúst Strákarnir í Pollapönki verða með fjöruga barnaskemmtun.
19. ágúst Bryndís Halla leikur sellósvítur J.S.Bach.
26. ágúst Bjarni Frímann Bjarnason blaðar í nótnasafni Halldórs Laxness og flytur úrval verka á flygil skáldsins
Tónleikarnir fara fram hvern sunnudag frá byrjun júní til loka ágúst og hefjast kl. 16. Miðaverð er 2500 krónur og er það greitt í móttöku safnsins.