Að vanda var tekin fyrir verðflokkur vína frá 2.490 til 3.500 kr, en þessum sið hefur verið haldið frá árinu 2012. Vínin koma allstaðar að úr heiminum en vínbyrgjar völdu sjálfir hvaða vín þeir lögðu til keppninnar.
Þá boðuðu Vínþjónasamtökin sérstaka dómnefnd á Hótel Hilton Nordica þar sem vínin voru smökkuð blint.
Alls skiluðu sér 154 vín í þessa skemmtilegu keppni enda dómarapanellinn verulega sterkur að mati þeirra hjá Veitingageiranum.
Þekktir vínsérfræðingar, vínbyrgjar og reynt vínáhugafólk innan bransans mætti þarna til að taka þátt í þessu verkefni sem teljast má nokkuð krefjandi enda voru 154 vín smökkuð á einum sunnudegi, allt í þágu fólksins í landinu, eða að minnsta kosti þeirra sem kunna að meta þennan ævaforna drykk.
Smakkarar voru tuttugu talsins og vínin voru dæmd samkvæmt svokölluðum Parker skala.
Yfirdómarinn var, eins og fyrri ár Alba E H Hough, margfaldur Íslandsmeistari vínþjóna.
Sex hvítvín og fimmtán rauðvín hlutu Gyllta glasið 2018 samkvæmt hlutföllum sem skiluðu sér.
Vínin verða sérmerkt í Vínbúðum með merki Gyllta Glassins og gildir það fyrir árganginn sem fékk verðlaunin.