FÓKUS tók saman nokkur ráð af netinu. Ef þið eruð ekki þegar búin að eftirfarandi þá er um að gera að drífa þetta í gang. Fyrsta mál á dagskrá er að draga fram klippur og sagir og snurfussa tré og runna í garðinum.
Saga burt það sem vex í vitlausa átt: Byrjið á því að fjarlægja greinar sem hafa brotnað undan snjónum í vetur eða losnað af í vindhviðum. Því næst er gott að saga burt greinar sem vaxa þannig að það geti valdið óþægindum, verið í veginum fyrir fólki eða skyggt á dagsbirtuna sem við viljum sjá í stofunni.
Burtu með krossgreinar: Ef greinar liggja í kross og þvert hver á aðra þá þarf að fjarlægja þær sem leita inn í trjákrónurnar.
Grisja runna: Til að runnar endurnýi sig reglulega þarf að grisja þá og halda í kjörstærð. Gamlar og lúnar greinar eru teknar í burtu alveg við jörð en aðrar greinar eru snyrtar í takt við eðlilegt vaxtarlag runnanna.
Ekki stífa eða taka burtu hálfar greinar: Ekki stífa greinar eða taka burtu þær sem eru hálfar, þá er hætt við að runnarnir „fari á stultur“ eins og það er kallað á garðyrkjumáli en við það missa þeir bæði formið og fegurðina.
Núna einnig góður tími til að endurnýja gömul víðihekk, ef tilefni er til.
Þá er best að saga greinarnar eins neðarlega og hægt er til að nýjar greinar vaxi upp frá rótarkömbum. Við það verða þær kröftugri en ef þær eru látnar vaxa út frá mismunandi háum „stúfum“.
Ef þið hafið enn ekki tekið til í garðinum þá er um að gera að skella sér í það verkefni. Fjarlægið það sem fokið hefur inn í garðinn eða færst til í vondum veðrum og komið í urðun.
Ef mosinn er uppivöðslusamur í grasflötinni fer að verða tímabært að undirbúa einhverjar aðgerðir gegn honum.
Ef garðurinn er í góðu skjóli og gras byrjað að grænka er upplagt að mosatæta núna.
Sé enn frost í jörðu borgar sig að bíða með það þangað til það er farið úr.
Fyrir þau sem vilja fegra garðinn ekki síðar en strax er hægt að fá smápáskaliljur sem hægt er að láta standa úti í blómakerum en svo styttist auðvitað óðum í að þessi augnayndi taki að blómstra.