Bill Gates og Angelina Jolie eru efst á lista yfir þá einstaklinga sem fólk dáist mest að samkvæmt árlegri könnun YouGov.
Þetta er þriðja árið í röð sem þau eru efst á listanum, eftir að honum var skipt í tvennt eftir kven- og karlkyni árið 2015. Á listanum eru 20 konur og 20 karlar, sem valin eru eftir netviðtölum við 37 þúsund einstaklinga í 35 löndum.
Á eftir Gates koma Barack Obama, Jackie Chan og Xi Jinping, en Michelle Obama og Oprah Winfrey koma á eftir Jolie.
Meirihluti kvennanna á listanum kemur úr skemmtanaiðnaðinum: Taylor Swift, Madonna, Priyanka Chopra, Liu Yifei og Gal Gadot. Þekktar stjórnmálakonur, eins og Hillary Clinton og Angela Merkel, ná þó inn á topp tíu.
Á karlalistanum eru viðskiptajöfrar og íþróttamenn áberandi; Elon Musk, Christiano Ronaldo, Lionel Messi, Warren Buffet og David Beckham. Auk Obama má þó sjá fleiri stjórnmálamenn; Xi Jinping, Vladimír Pútín og Donald Trump.
Á meðal hástökkvara frá síðasta ári eru Emma Watson, sem var í því þrettánda í fyrra og er nú í sjötta sæti, og Taylor Swift, sem var í því fjórtánda og er nú í níunda.
Í könnun YouGov má einnig sjá hvernig vinsældir einstaklinganna skiptast eftir löndum og sem dæmi þá er David Attenborough dáðastur karla í Bretlandi, á meðan Elísabet drottning er dáðust kvenna.