Scintilla Hospitality er íslenskt textílhönnunarfyrirtæki sem sérhannar og framleiðir vörur fyrir hótel, gistiheimili, líkamsræktarstöðvar og heilsulindir. Má þar nefna rúmfatnað, handklæði, sloppa, teppi og púða. Falleg hönnun, gæði, ending og framúrskarandi þjónusta eru helstu áherslur fyrirtækisins á þessu sviði ásamt því að bjóða upp á lífrænan textíl. Scintilla selur einnig hefðbundin rúmföt með satínröndum og kostar settið 2.390 kr. án vsk.
Sængurfatnaður á hótelum þarf að vera endingargóður og þarf að þola mikið álag. Scintilla Hospitality býður upp á úrval af sængurfatnaði með áherslu á fallega íslenska hönnun, gæði og endingu.
Scintilla Hospitality getur tekið að sér að framleiða sérstaklega fyrir viðskiptavini t.d. handklæði með vörumerki viðskiptavinar ofnu eða saumuðu í vöruna án þess að það verði kostnaðarsamt. Hönnuðir Scintilla Hospitality geta hannað og framleitt vörur sem samræmast stíl viðskiptavinarins og undirstrika sérstöðu hans.
„Okkar sérstaða á þessum markaði er sú að við erum hönnunarfyrirtæki og við hönnum allar vörurnar okkar sjálf. Við erum ekki heildsalar að flytja inn fjöldaframleidda staðlaða vöru. Við leggjum áherslu á hönnun og fagurfræði auk þess sem við hugsum um gæði, endingu og siðferði við framleiðslu. Við bjóðum okkar viðskiptavinum upp á að sérhanna fyrir þá þeim að kostnaðarlausu gegn því að þeir kaupi vörurnar af okkur. Íslenskur hóteliðnaður er kominn á þann stað núna að hver og einn aðili þarf að skerpa á sinni sérstöðu og hugsa um gæði. Það má hafa í huga að það er hægt að uppfæra herbergi fyrir lítinn pening með því einu að hafa falleg og vönduð rúmföt,“ segir Linda Björg Árnadóttir hjá Scintilla Hospitality.
Í fyrirtækinu er 30 ára reynsla af hönnun og framleiðslu á textíl. Meðal viðskiptavina eru ION Hotel á Þingvöllum, Bláa lónið, Laugar og Hótel Kefalvík.
„Við getum sérframleitt vörur fyrir minni aðila í litlu magni sem auðvelt er síðan að endurpanta. Við getum veitt ráðgjöf varðandi hönnun og stíl og framleitt vörur með sérhönnuðum munstrum, lit eða merki viðskiptavinarins.“
Scintilla Hospitalilty er til húsa að Skipholti 25 í Reykjavík en mun flytja innan skamms á Laugaveg 40. Þar eru skrifstofa, sýningarrými og lítil verslun sem er opin virka daga frá kl. 10 til 18. Nánari upplýsingar eru veittar í síma 562-2659 auk þess sem senda má fyrirspurnir á netfangið s@scintillalimited.com.