fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Everything Sucks!

Tinna Eik Rakelardóttir fjallar um nýja nostalgíuþætti á Netflix

Margrét Gústavsdóttir
Föstudaginn 2. mars 2018 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir okkur sem ólumst upp á tíunda áratug síðustu aldar er gaman að segja frá þáttunum Everything Sucks! á Netflix en fyrir þennan aldurshóp er þetta nostalgíuveisla af bestu gerð.

Þættirnir fylgja að mörgu leyti sömu reglum og sögulínu og fjölskylduþættirnir sem flest okkar fylgdumst með á tíunda áratugnum. Sumir elskuðu þessa línulegu framhaldsþátta dagskrá meðan öðrum leið eins og föngum.
Sjónvarpsþáttaraðir sem helst má nefna til samanburðar eru hinir snilldarlegu Freaks & Geeks, My So called Life og fleiri í þeim dúr. Skemmtilegast fannst mér þó hvað þættirnir minntu mig mikið á Fucking Åmål eftir Lukas Moodyson, sem vill svo skemmtilega til að var uppáhaldskvikmyndin mín þegar ég var unglingur. Mörg atriði í þáttunum eru keimlík myndinni og eru tvær aðalkvenpersónurnar mjög líkar aðalstelpunum í Fucking Åmál, bæði hvað varðar útlit og persónuleika. Það kom mér því skemmtilega á óvart að lesa viðtal við þá sem skrifuðu þáttaröðina og sjá að sú mynd var í raun og veru aðaláhrifavaldurinn á þættina.

Flækjur og árekstrar framhaldsskólaáranna

Aðalpersónur Everything Sucks! eru Luke (Jahi Di‘Allo Winston) og vinir hans sem eru að byrja á fyrsta ári í framhaldsskóla í smábænum Boring í Oregon. Luke verður skotinn í Kate (Peyton Kennedy) sem er dóttir skólastjórans og annars árs nemi. Félagarnir ganga í gegnum allar flækjur og árekstra framhaldsskólaáranna með viðkomu allra klassísku persónanna sem koma að lífi okkar, foreldra, kennara, vina og skólasystkina og við fáum að skyggnast inn í líf þeirra allra.

Nostalgíuáhrifin af þáttunum eru mjög góð þrátt fyrir að margt sé frábrugðið því sem tíðkaðist hér á landi. Til dæmis dæmdu börn fjárhagslega stöðu vina sinna ekki bara út frá því hvort það var Stöð 2 á heimilinu eða ekki, – eins og var almennt gert í mínum vinahópi. En í þáttunum er samt sem áður hrúga af köflóttum skyrtum, derhúfur snúa öfugt, stelpur ganga með smelluarmbönd, hlustað er á geisladiska og horft er á tónlistarmyndbönd. Vídeóspólur eru leigðar, lukkutröllum er safnað og plaggöt eru hengd upp á veggi.

Ekkert talað um rasismann

Þáttaröðin er nokkuð lengi að komast af stað og lifir svolítið á nostalgíunni. Endirinn er hins vegar hjartnæmur og fullnægjandi og skilur mann eftir með löngun til að vita meira. Hægt væri að segja að hjartnæmnin gangi samt stundum aðeins of langt þar sem aðalpersónan, Luke, og mamma hans eru bæði svört en það kemur aldrei upp nein umræða um rasismann sem hefur alltaf verið til staðar í Bandaríkjunum, hvað þá á tíunda áratugnum og hvað þá í Oregon sem á mjög langa og ofbeldisfulla sögu af kynþáttahatri.

Og þrátt fyrir að ein aðalpersóna þáttanna sé að koma út úr skápnum er heldur ekkert fjallað um þá fordóma sem hinsegin fólk verður fyrir og erfiðleikana við það að koma út úr skápnum bæði í dag og á þessum tíma. Ég bind hins vegar miklar vonir við að tekið verði á þessum málum í næstu seríu þar sem margir hafa gagnrýnt þessa afneitun í handritshöfundunum.

Vinsamlegast spólið til baka

Þrátt fyrir þessa hnökra þá mæli ég samt sem áður með þáttunum sem góðu afþreyingarefni og kannski alveg sérstaklega fyrir fólk sem ólst upp á tíunda áratugnum. Það er tilvalið að horfa á þættina með börnunum, sýna þeim hvernig hlutirnir virkuðu þegar við þurftum að hringja inn internetið með hávaðasömum „router“ og spóla myndbandsspólum til baka. Aðalleikari þáttanna, sem er fimmtán ára, þurfti að fá kennslu við að setja spólu í tækið, af því hann hafði aldrei séð þessar græjur áður.

Vá, hvað við erum orðin gömul!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“