Fram eftir öldum voru refsingar eingöngu hugsaðar sem réttmæt aðferð til að endurgjalda misgjörðir og sú hugsun er enn ríkjandi þó fleiri sjónarmið hafi komið til, svo sem um betrun fanga. Þýski heimspekingurinn Immanuel Kant sagði afbrot fela í sér árás á réttlætið, með þeim væri vegið að undirstöðum samfélagsins. Samfélaginu stæði ógn af niðurrifsöflum sem yrði að uppræta með refsingum. Að mati Kants væri réttlætið siðferðileg hugsjón og refsingin óaðskiljanlegur hluti réttlætisins. Ekki er óvarlegt að segja að sammæli sé um þennan skilning. Því fer aftur á móti víðsfjarri að menn hafi komist að niðurstöðu um hversu harðar refsingar eigi að vera og nú um stundir heyrast mér viðhorf almennings hér á landi vera almennt að of vægt sé tekið á afbrotamönnum.
Sú fangelsisvist sem menn eru dæmdir til hér á landi er í reynd bara hámarkslengd því stjórnvöldum fangelsismála er játað rúmt svigrúm til að stytta refsivist og jafnvel fella hana niður. Þau geta til að mynda tekið ákvörðun um að sá sem hlotið hefur fangelsisdóm afpláni refsinguna með samfélagsþjónustu en dómstólar hér á landi geta ekki dæmt menn til samfélagsþjónustu — ólíkt því sem tíðkast í nágrannalöndunum.
Helgi I. Jónsson, fyrrv. hæstaréttardómari, gagnrýnir þetta harðlega í nýlegri grein en hann útlistaði efni hennar í Spursmálum Morgunblaðsins á dögunum. Hann segir það skýrt brot á 2. gr. stjórnarskrár, sem fjallar um þrískiptingu ríkisvalds, að fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort menn afpláni refsidóma í formi samfélagsþjónustu. Þar með geti framkvæmdarvaldið haft dómsniðurstöðu að engu.
Þetta eigi þó ekki aðeins við um fangelsisdóma heldur líka fésektir, þegar mönnum sé gert að greiða fésekt ellegar sæti þeir fangelsi, en mönnum getur boðist að taka slíka refsingu út í samfélagsþjónustu „á gríðarlega góðu kaupi“ eins og Helgi orðaði það. Hann nefndi í þessu sambandi nýlegan dóm þar sem tveir menn voru dæmdir til greiðslu sektar að fjárhæð 1,1 milljarður króna — og yrði sektin ekki greidd skyldu þeir sæta fangelsi allt að einu ári. Hér væri Fangelsismálastofnun heimilt að leyfa umræddum tvímenningum að afplána refsinguna í formi samfélagsþjónustu en hún getur varað í allt að 960 klukkustundir. Sé þeim deilt í 1,1 milljarð króna nemi „kaupið“ 1.145 þúsund krónum á tímann.
Hámarksrefsing hérlendis er lífstíðarfangelsi en ekki er hægt að dæma mann til þyngri tímabundinnar fangelsisrefsingar en sextán ár, eða allt að tuttugu ár ef refsihækkunarástæður koma til. Sá misskilningur er útbreiddur að ævilangt fangelsi sé tímabundið en það ber þvert á móti að skilja eftir orðanna hljóðan og merkir að afplánun refsingar lýkur ekki fyrr en við andlát hins dæmda.
Frá því að núgildandi hegningarlög voru sett árið 1940 hafa aðeins þrír einstaklingar verið dæmdir til ævilangrar fangelsisvistar á lægra dómstigi en Hæstiréttur mildaði refsingarnar í öllum tilfellum ellegar felldi brotin undir önnur ákvæði hegningarlaga. Eitt þessara mála var Guðmundar- og Geirfinnsmálið þar sem tveir hinna ákærðu voru dæmdir til ævilangrar fangelsisvistar í sakadómi árið 1977. Hitt málið varðaði mann sem sakfelldur var fyrir manndráp í héraðsdómi árið 1993. Með því rauf hann skilorð reynslulausnar, en nokkrum árum fyrr hafði hann hlotið dóm fyrir annað manndráp. Hæstiréttur taldi hinn ákærða hafa unnið verkið í geðshræringu og óyfirvegað og mildaði dóminn í tuttugu ár. Raunar vildi einn dómaranna staðfesta héraðsdóminn sem kvað á um ævilangt fangelsi.
Nýverið las ég afar áhugaverða kandidatsritgerð Jóns Hallmars Stefánssonar sem brautskráðist frá lagadeild Háskóla Íslands í fyrra. Rannsóknarefni hans er ævilangt fangelsi og fyrirbyggjandi öryggisráðstafanir hér á landi, í Danmörku og í Noregi. Danskir dómstólar hafa á seinustu árum reglulega dæmt menn til ævilangrar fangelsisvistar fyrir alvarlegustu afbrot. Jón Hallmar bendir á að í sambærilegum málum og þeim sem Hæstiréttur Danmerkur hefur dæmt menn í ævilangt fangelsi hafi Hæstiréttur Íslands dæmt menn til tímabundinnar fangelsisrefsingar. Hann telur að vegna þessarar hófsemdar íslenskra dómstóla við beitingu lífstíðarfangelsis hafi ákvæði laga um fullnustu dóma um ævilangt fangelsi líklega ekki breyst í takt við dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. Ráðast þurfi í lagabreytingar svo ævilangt fangelsi teljist raunhæft og virkt úrræði að íslenskum rétti. Taka megi mið af þeim reglum sem Danir hafa sett um fullnustu slíkra refsinga.
Hér hefur skilið leiðir með Íslendinga og öðrum norrænum þjóðum, hvort tveggja hvað varðar beitingu samfélagsþjónustu og að menn séu dæmdir til fangelsisvistar ævilangt. Eðlilegra væri að dómstólar hefðu færi á að dæma menn til samfélagsþjónustu í stað þess að stjórnvöldum sé heimilt að breyta dómsniðurstöðu. Þá er áleitið hvers vegna ævilöngu fangelsi er ekki beitt hérlendis. Sé horft til fjölda alvarlegra afbrota á hinum Norðurlöndunum undanfarin ár má telja sennilegt að til kasta íslenskra dómstóla komi mál svo alvarleg að dómstólar teldu rétt að dæma menn til ævilangrar fangelsisvistar. Raunar var maður í liðinni viku sýknaður í Héraðsdómi Austurlands af ákæru um tvöfalt manndráp af ásetningi þar eð hann var talinn ósakhæfur, en ákæruvaldið hafði gert kröfu um að honum yrði gert að sæta fangelsi í tuttugu ár ellegar ævilangt.
Þeirri skoðun vex fylgi að refsingar hér á landi séu of vægar og varla leikur á tvennu að það tengist ýmsum alvarlegum afbrotum sem hér hafa verið framin á undanförnum árum og mjög hafa verið til umræðu í fjölmiðlum. Refsingar eiga vitaskuld ekki að stjórnast af stundarviðhorfi almennings en það er engu að síður áhyggjuefni ef refsingar eru mjög úr takti við réttlætiskennd þorra manna. Líkt og Kant benti á stendur samfélaginu ógn af niðurrifsöflum sem ekki verða upprætt nema með refsingum og þær verða að vera í einhverju sanngjörnu hlutfalli við það afbrot sem framið hefur verið.