fbpx
Mánudagur 15.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Afgerandi úrslit forsetakjörs

Eyjan
Sunnudaginn 2. júní 2024 16:30

Halla Tómasdóttir, verðandi forseti lýðveldisins. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Munið, Íslendingar, að

FÓLKIÐ VELUR FORSETANN

en ekki fámennur hópur úr forystuliði neins stjórnmálaflokks.“

Þannig komust Bernharð Stefánsson, Emil Jónsson, Gunnar Thoroddsen, Jakobína Ásgeirsdóttir, Laufey Vilhjálmsdóttur og Soffía Ingvarsdóttir að orði í blaði stuðningsmanna Ásgeirs Ásgeirssonar í aðdraganda forsetakjörs 1952. Þetta er eitt kröftugasta vígorð kosningasögunnar: Fólkið velur forsetann. Kröftugt því orðin eru sönn.

Um mannkosti Ásgeirs sögðu sexmenningarnir þetta í sama ávarpi: „Hann hefur aldrei verið einstrengingslegur flokksmaður heldur jafnan reynt að laða menn til samstarfs. Hann hefur ávallt, í öllum störfum sýnt velvild, trúmennsku og hollustu.“

Óþarft að draga forsetann inn í pólitískar deilur

Sexmenningarnir sögðu þjóðina vilja slíkan mann fyrir forseta en nokkrir úr forystuliði stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, virtust

„ekki geta sætt sig við að þjóðin ráði ein forsetavalinu. Þeir vilja hjálpa henni til. Og þeir hafa gert meira. Áróðursvélar þessara tveggja flokka hafa verið settar í gang. Með blaðaskrifum og fundahöldum er leitast við að skírskota til flokkshollustu manna og reynt að beita pólitískum áhrifum. Flokksaginn á að koma í staðinn fyrir vilja fólksins.“

Gunnar Thoroddsen borgarstjóri var einhver einarðasti stuðningsmaður Ásgeirs, tengdaföður síns, í forsetakjörinu, en hann lagði áherslu á að engin flokksbönd eða flokkssjónarmið ættu við í forsetakjöri því Íslendingar hefðu

„nóg af harðvítugum stjórnmálaerjum og flokkadráttum út af þjóðmálum, þingmálum, bæjarmálum, þó að við séum ekki að draga forsetakjörið að óþörfu og ástæðulausu inn í þær deilur.“

Enginn áskilnaður um meirihluta atkvæða

Í umræðum um breytingar á forsetakafla stjórnarskrárinnar hefur helst verið rætt um að fjölga þurfi meðmælendum. Í ár voru forsetaefnin tólf en helmingur hlaut færri atkvæði í kjörinu en nemur lágmarksfjölda meðmælenda. Öll voru umrædd forsetaefni með vel innan við einn af hundraði atkvæða á landsvísu. Katrín Jakobsdóttir lagði fram frumvarp til stjórnskipunarlaga í janúar 2021 en það frumvarp dagaði uppi. Meðal tillagna þar var breyting á 5. gr. stjórnarskrár í þá veru að forsetaefni þyrfti meðmæli minnst 2,5% kosningabærra manna að lágmarki. Miðað við það hefði forsetaefni þurft að hljóta undirskriftir um 6.750 meðmælenda nú.

Í frumvarpi Katrínar var einnig tekið á öðru álitaefni sem talsvert var rætt í aðdraganda kosninganna nú en ekki er gerður áskilnaður um að forseti hljóti stuðning meirihluta kjósenda. Í lýðveldum víðast hvar er kosið á milli tveggja efstu frambjóðanda í síðari umferð hljóti enginn meirihluta í þeirri fyrri. Alexander Stubb Finnlandsforseti hlaut til að mynda 51,6% atkvæða í síðari umferð forsetakosninganna þar í landi 11. febrúar sl. Í frumvarpi Katrínar var gert ráð fyrir að tekin yrði upp svokölluð „forgangsröðunaraðferð“ yrðu fleiri en einn í kjöri, en þetta er að írskri fyrirmynd.

Þessi mál urðu alláleitin nú í aðdraganda forsetakjörs þegar við blasti mikil dreifing á fylgi þannig að svo gat farið að forseti yrði jafnvel kjörinn með aðeins um fimmtungi atkvæða. Nálega allar kannanir bentu til þess að niðurstaðan yrði alla vega sú að forseti yrði kjörinn með minnsta hlutfalli atkvæða nokkru sinni. Minnsta atkvæðamagn í forsetakjöri hlaut Vigdís Finnbogadóttir er hún var naumlega kjörinn forseti 1980 með 33,8%. Aðeins 1.911 atkvæði skildu þá að Guðlaug Þorvaldsson og Vigdísi.

Sem betur fer varð það ekki raunin að forseti yrði kjörinn naumlega með fimmtungi eða fjórðungi atkvæða eins og kannanir bentu til. Þvert á móti virðist stór hluti þjóðarinnar hafa ákveðið á lokametrunum að fylkja liði um þann frambjóðanda sem henni hugnaðist best.

Fólkið valdi

Í öðrum lýðveldum álfunnar með áþekkt stjórnarfar eru forsetaefnin jafnan tilnefnd af flokkunum og gjarnan verða fyrir valinu reyndir stjórnmálaleiðtogar sem sestir eru í helgan stein. Ef þetta væri fyrirkomulagið hér myndum við kannski í seinni umferð forsetakjörs kjósa á milli kandidata á borð við Geir H. Haarde og Jóhönnu Sigurðardóttur (sem raunar lýstu bæði yfir stuðningi við sama forsetaefni nú). Ég er nokkuð viss um breytingar í þá veru að færa forsetaembættið nær pólitíkinni eiga sér lítinn sem engan hljómgrunn. Og við blasir að þorra þjóðarinnar hugnaðist ekki að fyrrverandi forsætisráðherra yrði kjörinn — ekki frekar en fyrir átta árum.

Niðurstaðan nú sýnir okkur að einhverju marki að stjórnarskráin virkar vel þrátt fyrir þá agnúa sem bent hefur verið á. Kannanir höfðu án efa umtalsverð áhrif á kosningahegðun en svona örum mælingum á fylgi var ekki til að dreifa árið 1980. Og það að menn taki mið af könnunum við val á frambjóðanda þarf ekki að vera slæmt í eðli sínu eins og margir láta liggja að. Fólkið kaus að fylkja sér um sigurstranglegasta forsetaefnið óháð stjórnmálaflokkunum og óháð „valdakerfinu“ í einhverjum skilningi. Útkoman var að Halla Tómasdóttir hlaut 34,3% atkvæða, langt um meira en næsti kandidat. Það sem er mest um vert er að þetta eru afgerandi úrslit.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið
EyjanFastir pennar
15.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Drög að ferðamannamengun

Sigmundur Ernir skrifar: Drög að ferðamannamengun
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar