fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar

Eyjan
Sunnudaginn 27. október 2024 16:30

Þrjár verur í garði, bleikt og grátt. Olíumálverk bandaríska listamannsins James McNeill Whistler (1834–1903).

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er svo einkennilegt hversu ginnkeyptar þjóðirnar hér í vesturhluta álfunnar eru fyrir sérhverri þeirri ómenningu sem berst vestan um haf — á sama tíma og amerísk hámenning virðist miklu síður rata hingað austur. Eitt þessara leiðindafyrirbæra að vestan er svokallað „woke“ sem stjórnlynd öfl vinstra megin í pólitíkinni vestanhafs hafa boðað tæpan áratug eða svo. Því má lýsa sem bölsýnishyggju sem minnir um margt á marxismann; öll vandamál þjóðfélagsins eru álitin kerfislæg og verði ekki leyst á grundvelli klassískrar frjálslyndrar hugmyndafræði heldur þurfi að beita ritskoðun og „jákvæðri“ mismunun í miklum mæli. Með þeirri hugmyndafræði sem kennd er við „woke“ er alið á sundrungu milli þjóðfélagshópa og þeirri ranghugmynd að þjóðfélagið sé fast í viðjum kerfis undirsáta og yfirbjóðara sem varla nokkur leið sé að brjótast út úr, þegar sagan kennir allt annað; einmitt það að klassísk frjálslynd gildi séu vísasti vegurinn til aukins félagslegs hreyfanleika og félagslegs réttlætis.

Ég hef áður hér á þessum vettvangi gert að umtalsefni hina frábæru bók breska sagnfræðingsins Tom Holland, Dominion, þar sem hann fjallar um það hvernig kristin kenning gegnsýrir vestræna hugsun. Ég held að það megi einmitt leiða að því rök að hugmyndir á borð við þær sem hér voru nefndar sverji sig í ætt við erfðasyndina; þetta séu í grunninn hugmyndir sprottnar úr kristinni kenningu þó svo að boðberar svokallaðs „woke“ séu gjarnan stækir trúleysingjar. Ofstækisfólkið álítur sig líka gjarnan hafa siðferðilega yfirburði yfir annað fólk — máske ekki ósvipað og heittrúarfólk sem telur sig jafnvel útvalið af almættinu.

Ofstopinn sem fylgt hefur rétttrúnaðinum undanfarin ár hefur gert það að verkum að fjölmargir hafa veigrað sér við að tjá sig um eldfim deilumál — stundum beinlínis af ótta við að verða fyrir útskúfun, slaufun eins og það er nú kallað, og líklega fátt sem hjarðdýr líkt og mannskepnan óttast meira en vera rekin burt úr hjörðinni. Þetta hefur lamað mjög vitræna umræðu og menn forðast að ræða ýmis erfið deiluefni þjóðfélagsins sem þar af leiðandi hafa verið látin reka á reiðanum með ógurlegu tjóni. Það er eins og margir skynsamir menn hafi gleymt gildi hugsanafrelsis og málfrelsis sem eru ófrávíkjanleg skilyrði andlegrar velferðar mannkynsins og önnur velferð byggist vitaskuld á þeirri andlegu.

Samhliða ofstækinu hafa fylgt ferlegar dyggðaskreytingar og meira að segja fyrirtæki keppst við að merkja sig með hvers kyns vottunum í þeim efnum. Þannig hafa ráðningar í stöður vestanhafs farið í stórauknum mæli að taka mið af „fjölbreytileika, jöfnuði, inngildingu“ eins og það er kallað og menn jafnvel misst sjónar á því mikilvægasta sem er hæfnin, kunnáttan, og rétt að hafa í huga að fjölbreytni getur ekki verið keppikefli í sjálfu sér — fjölbreytileikinn hefur ekkert sjálfstætt gildi.

Í rækilegri úttekt um hugmyndafræði kennda við „woke“ sem birtist í Economist 21. september sl. eru útlistaðar niðurstöður viðhorfsmælinga sem sýna að umrædd öfgasjónarmið eru blessunarlega á hröðu undanhaldi. Í greininni er vel dregið fram hvernig tilkoma Donalds Trump á hið pólitíska svið fyrir átta árum hafi haft afgerandi áhrif á skautun umræðunnar vestanhafs, viðhorfskannanir sýni að eftir að Trump gaf kost á sér hafi þeim skoðunum vaxið ásmegin að bandarískt samfélag væri fast í viðjum kynþáttahaturs og kvenfyrirlitningar á sama tíma og farið hafi fækkandi í þeim hópi sem trúðu á framfarir í félagslegum efnum.

En pendúllinn sveiflast nú í aðra átt og til þess var tekið á dögunum er Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaefni demókrata, hafði orð á „hinni stórkostlegu ábyrgð sem fylgir mestu forrréttindum á þessari jörð — þeim forréttindum og því stolti að vera Bandaríkjamaður“. Í áðurnefndri umfjöllun Economist sagði að ólíklega hefði forystumaður Demókrataflokksins tekið til orða með þessum hætti þegar ofstækið reis sem hæst árin 2016–2021 þegar hvers kyns þjóðarstolt var bannfært vinstra megin í hinu pólitíska litrófi. En nú er tíðarandinn annar og hófstilltari og Samfylkingin meira að segja komin með vígorðið „sterk velferð, stolt þjóð“ nú í aðdraganda alþingiskosninga. Einhverjir róttæklingar sem ef til vill myndu skilgreina sig „woke“ ruku upp til handa og fóta þegar vígorðið var kynnt en ég sá að Einar Kárason, rithöfundur og frambjóðandi Samfylkingarinnar, gerði að umtalsefni á fésbókarsíðu sinni að rétttrúnaðurinn væri orðinn undarlegur ef ekki mætti lengur tala um þjóð. Jón Viðar Jónsson leiklistardómari lagði orð í belg og benti á að Íslendingar mættu gjarnan vera stoltir af þjóðerni sínu og „stórmerkum menningararfi (sem við ræktum því miður alls ekki nógu vel) og tungumáli sem hefur verið rifið upp úr stöðnun og veiklun gagnvart erlendum málum og gert að tæki sem er fullfært um að tjá veruleika okkar við aðstæður nútímans. Ég veit ekki um jafn fámenna ÞJÓÐ sem getur státað af öðru eins — en sé hún til þá getur hún sannarlega borið höfuðið hátt“.

Þetta eru orð að sönnu og óskandi að landsmálaumræðan hér hætti sífellt að festast í viðjum amerískrar lágmenningar. Rækta þarf íslenska tungu og menningu eins og Jón Viðar benti á en um leið rækta íslenska hugsun — og það vitaskuld á íslenskum forsendum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?