fbpx
Sunnudagur 05.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Ágúst Borgþór skrifar: Umsátur á Vopnafirði – Gæsluvarðhald og nálgunarbann eftir umfjöllun fjölmiðils

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 20. október 2024 21:00

Vopnafjörður Mynd/ Mats Wibe Lund

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á fimmtudagskvöld hafði vinafólk konu á Vopnafirði, sem orðið hefur fyrir skelfilegu ofbeldi af hálfu fyrrverandi sambýlismanns síns, samband við blaðamann DV með það fyrir augum að koma frásögnum af ofbeldi mannsins í fréttir.

Í viðmóti fólksins og orðfæri mátti greina í senn hikandi og örvæntingarfullan tón þess sem helst vill ekki fara með mál í fjölmiðla en hefur upplifað þrot hvað varðar aðrar úrlausnir. Eins og kom fram í fréttum DV af málinu hafði maðurinn framið húsbrot hjá konunni og reynt að nauðga henni á sunnudaginn. Það nægði ekki til gæsluvarðhaldsúrskurðar og heldur ekki til nálgunarbanns.

Sjá einnig: Ofbeldismálið á Vopnafirði:Konan tjáir sig og fyrrverandi vinur mannsins lýsir skelfilegri árás – „Ég á kúbein“

Á miðvikudag réðst maðurinn á konuna út í skemmu við bæjarhús hennar fyrir utan þorpið á Vopnafirði, reyndi fyrst að reka hana á hol með járnkarli og síðan að kyrkja hana með berum höndum.

Eftir nauðgunartilraunina á sunnudaginum var konunni meinað um nálgunarbann á manninn. Ennfremur fór lögregla ekki fram á gæsluvarðhald og konan og aðrir sem orðið hafa fyrir barðinu á ofsa mannsins voru því engan veginn óhult fyrir honum.

Lögreglan snýr við blaðinu

Fréttir DV um málið fengu mikla athygli og vöktu umræður þar sem lesendur gagnrýndu yfirvöld fyrir að vernda ekki betur þolendur í ofbeldismálum.  Á laugardag fengu fjölmiðlar óvænta tilkynningu frá Lögreglunni á Austurlandi þar sem kom fram að búið væri að krefjast gæsluvarðhalds yfir manninum og setja hann í nálgunarbann gagnvart konunni.  Tilkynningin var eftirfarandi:

„Einstaklingur var handtekinn á Vopnafirði síðastliðinn miðvikudag grunaður um alvarlega líkamsárás gagnvart fyrrum sambýliskonu. Rannsókn málsins hefur staðið nánast óslitið síðan. Skýrslur hafa verið teknar af sakborningi, vitnum og brotaþola. Gagna úr eftirlitsmyndavélum aflað og húsleit gerð á heimili sakbornings þar sem grunur lék á að skotvopn væru geymd. Engin slík fundust. 

Ákvörðun var tekin um nálgunarbann og hún birt sakborningi.

Eftir því sem rannsókn málsins vatt fram var ákvörðun tekin um að krefjast gæsluvarðhalds. Krafan verður tekin fyrir síðar í dag.“

Síðar í gær barst önnur tilkynning frá lögreglu þess efnis að maðurinn hefði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 4. nóvember.

Erfitt er að verjast þeirri tilhugsun að umfjöllun fjölmiðla hafi haft áhrif á lögreglu og sýslumann (nálgunarbann) hvað varðar þessar ákvarðanir og einnig hvað varðar skyndilega, jákvæða og óumbeðna upplýsingagjöf um málið. Fjölmiðlar hafa áhrif og veita aðhald og þeim ber að fjalla af hispursleysi um ofbeldismál. Réttindi grunaðra manna verður þó ávallt að virða og blaðamönnum líður almennt betur með að fjalla um sakamál á grundvelli gagna á borð við ákæru, dóma eða beint úr réttarsal heldur en á því stigi þegar eingöngu er til að dreifa kæru til lögreglu. Því er úr vöndu að ráða þegar mál eru á því frumstigi í réttarkerfinu sem hér um ræðir. En samhljóða frásagnir fjögurra aðila sem DV var í sambandi við, þar á meðal brotaþola, vörpuðu skýru ljósi á atburðarásina og ekki var um annað að ræða en að birta fréttir um málið.

Gæsluvarðhald

Í lögum um meðferð sakamála er að finna kafla um gæsluvarðhald. Til að sakborningur verði úrskurðaður í gæsluvarðhald þarf að vera fyrir hendi eitt af eftirfarandi fjórum skilyrðum:

 a. að ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni,
 b. að ætla megi að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar,
c. að ætla megi að hann muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið eða rökstuddur grunur leiki á að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafa verið sett í skilorðsbundnum dómi,
 d. að telja megi gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings ellegar hann sjálfan fyrir árásum eða áhrifum annarra manna.

Algengt er að sakborningar séu úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli a) liðar enda fásinna að gera sakborningi kleift að spilla rannsókn mála. Ekki síst er þetta algeng orsök gæsluvarðhalda í fíkniefnamálum. Þegar leit út fyrir að lögregla ætlaði ekki að krefjast gæsluvarðhalds yfir ofbeldismanninum á Vopnafirði fékk brotaþoli að heyra að ástæðan væri sú að málið lægi ljóst fyrir. Með öðrum orðum virðist lögregla hafa einblínt á rannsóknarhagsmuni en ekki gefið gaum að öðrum skilyrðum gæsluvarðhalds.

En það er ekki síður mikilvægt að vernda þolendur fyrir árásum sakborninga, eins og kveðið er á um í d) liðnum, en að vernda rannsóknarhagsmuni. Mannréttindi sakborninga má aldrei fótum troða og þeir þurfa réttláta málsmeðferð. En réttlætið tekur tíma og þar til dómur fellur í sakamálum þarf að vernda líf og heilsu þeirra sem stendur ógn af kærðum ofbeldismönnum. Lögreglan í landinu hefur sjálf kynnt fyrir almenningi nauðungarstjórnun og átta stiga tímalínu í nánu sambandi með fróðlegu myndbandi. Mikilvægt er að lögregluembættin stuðli sjálf að því að þolendur njóti verndar áður en stigmögnun í ofbeldissamböndum er komin á þann stað að ekki verður aftur snúið. Áðurnefnt lagaákvæði um gæsluvarðhald er mikilvægt tæki í þeirri vernd.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
27.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
24.11.2024

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
19.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg