fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Íslenski nóbelsverðlaunahafinn í læknisfræði

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 21. janúar 2024 15:30

Færeyingar hafa haldið nafni Níelsar R. Finsen á lofti en hann var fæddur í Þórshöfn árið 1860.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjaldan bautarsteinar

standa brautu nær,

nema reisi niður að nið.

Við þekkjum þessi vísuorð úr Gestaþætti Hávamála en sá siður er ævaforn meðal germanskra þjóða að reisa látnum bautastein á fjölförnum slóðum. Að koma fyrir minningarmörkum er vitaskuld miklu útbreiddari siður um heiminn en hugmyndin er sú að þannig geti niðjar minnst genginna áa og halda megi nafni hinna framliðnu á lofti. „Orstír deyr aldreigi / hveim er sér góðan getur“ segir nokkrum vísum aftar í Hávamálum. Mönnum ríður á að fá eins mikinn árangur af þessu lífi og unnt er svo nokkur von sé til að öðlast ódauðleika — lifa í minningu komandi kynslóða.

 

Minning Níelsar R. Finsen

Hér á landi eru starfandi nokkur öflug, gamalgróin menningarfélög. Eitt þessara félaga er Dansk-íslenska félagið sem í rúm hundrað ár hefur stuðlað að menningarlegum, jafnt sem félagslegum tengslum þessara bræðraþjóða, en félagið á sér systurfélag ytra sem nefnist Dansk-Islandsk Samfund. Svo vill raunar til að sá sem hér heldur á penna á sæti í varastjórn þessa ágæta félags en stjórnin lagði fram tillögu á dögunum þess efnis að við byggingarframkvæmdir Nýs Landspítala yrði hugað sérstaklega að minningu Níelsar Ryberg Finsen, eina Íslendingsins sem hlotið hefur nóbelsverðlaun í læknisfræði.

Því miður er það svo að Níels R. Finsen er flestum gleymdur hér á landi, þó svo að honum hafi hlotnast mesti heiður sem vísindamönnum er veittur. Hann var fæddur í Þórshöfn í Færeyjum árið 1860, sonur Hannesar Finsen amtmanns, en Hannes var borinn og barnfæddur Reykvíkingur, sonur Ólafs H. Finsen, háyfirdómara og síðar stiftamtmanns, og konu hans, Maríu Nikólínu Möller. Afi Hannesar var Hannes Finnsson biskup. Móðir Níelsar hét Johanne Sofie Coroline Christine, fædd Formann, og var frá eynni Falstri í Danmörku.

 

Undi sér vel í Lærða skólanum

Fjórtán ára að aldri var Níels sendur til náms í latínuskólann á Herlúfshólmi á Suður-Sjálandi. Honum sóttist námið illa og svo fór að rektor gaf honum þennan vitnisburð: „Níels Finsen er hjartagóður drengur, en hæfileikar litlir og hann vantar alveg dugnað.“ Eftir bréfaskipti milli rektors og föður Níelsar í Færeyjum var afráðið að senda drenginn til náms í Lærða skólanum í Reykjavík — líklega hefði hann betri skilyrði þar til að stunda nám. Þetta reyndust orð að sönnu og í Reykjavík undi Níels sér vel. Þar bjó hann í fyrstu hjá Maríu Finsen, föðurömmu sinni, sem þá hafði verið ekkja í 40 ár, en Ólafur maður hennar hafði látist aðeins 39 ára að aldri. Frú María hafði dálæti á þessum sonarsyni sínum og Níels var mun betur tekið meðal skólabræðra í Reykjavík en á Herlúfshólmi. Af bréfum hans að dæma kunni hann vel að meta kennara Lærða skólans í Reykjavík, þar ríkti góður agi en þó legðu kennarar ekki hendur á nemendur líkt og hann hafði kynnst í Danmörku. Í bréfi til Ólafs bróður síns segir hann nemendurna virkilega góða við sig „og er sá neðsti jafn rétthár og sá efsti, svo að þú sérð, að þeir eru mjög frjálslyndir“.

Níels var góð skytta og skaut ýmsa fugla sem hann síðan krufði. Árið 1944 kom út hér á landi ævisaga Finsen eftir Anker Aggerbo í þýðingu Margrétar Hallgrímsdóttur læknis. Þar birtast ýmsar skemmtilegar frásagnir af dvölinni í Reykjavík, meðal annars af eltingaleik við yrðling yfir Austurvöll, sem hann náði lifandi. Náttúrugripasafn Níelsar var brátt orðið allnokkurt að vöxtum og þarna birtist einlægur áhugi hans á líffærafræði.

Í fríum reið hann gjarnan út og eitt sumarið fór hann landleiðina alla leið austur á Vopnafjörð til að hitta föðursystur sína, Valgerði Finsen, konu séra Halldórs Jónssonar. Þrátt fyrir að Níels yndi sér vel í Reykjavík veittist námið honum erfitt. Hugur hans stóð til náttúruvísinda og hvers kyns uppgötvana, en á þeim tíma var skólinn enn latínuskóli, fornmálin og klassísk fræði í öndvegi, en engin stærðfræðideild komin til sögunnar.

Níels brautskráðist sumarið 1882 frá Lærða skólanum 21 árs að aldri og þegar veginn var námsárangur stúdentanna fimmtán var hann ellefti í röðinni. Sé litið á prófspjaldið sést að bestur er árangur hans í stærðfræði og náttúruvísindum — en þær greinar voru þó ekki í neinum hávegum í skólanum á næstliðinni öld.

 

Öðrum hvatning til afreka

Níels R. Finsen hóf haustið 1882 nám í læknisfræði við Hafnarháskóla og brautskráðist þaðan 1890. Hann varð snemma mikilvirkur vísindamaður og helgaði sig rannsóknum á ljóslækningum, sér í lagi áhrifum ljóss á húðina. Í grein sinni „Om Anvendelse i Medicinen af koncentrerede kemiske Lysstraaler“ sem út kom 1896 lýsti hann ljósmeðferð við húðberklum (lupus vulgaris). Hann setti á fót Finsenstofnunina í Kaupmannahöfn (Finsens medicinske Lysinstitut, betur þekkt sem Finseninstitut) sama ár. Árið 1898 varð hann prófessor í læknisfræði við Hafnarháskóla.

Árið 1903 hlaut Níels nóbelsverðlaunin í læknisfræði fyrir rannsóknir á ljósmeðferð og framlag til lækninga. Hann var þá orðinn alvarlega veikur fyrir hjarta og þjáðist sömuleiðis af vatnssýki í kviðarholi og gat því ekki verið viðstaddur verðlaunaveitingarathöfnina. Hann lést ári síðar, 43 ára að aldri. Ýmsum komu þá til hugar hin fornu vísdómsorð; quem di diligunt adulscens moritur – sá deyr ungur sem guðirnir elska.

Níelsar R. Finsen er minnst með margvíslegum hætti í Danmörku. Krabbameins-rannsóknarstofnun Ríkissjúkrahússins í Kaupmannahöfn ber hans nafn og þá er gata nefnd honum til heiðurs í Frederiksberg Kommune, Finsenvej. Sömuleiðis hafa Færeyingar sýnt honum ýmsan sóma. Aftur á móti er hann flestum gleymdur hér á landi þrátt fyrir að hafa verið íslenskur í föðurætt og þrátt fyrir að hér á landi hafi hann hlotið þá skólamenntun sem gerði honum kleift að hefja nám í læknisfræði sem varð grunnur að vísindaafrekum hans. Þó er í anddyri Menntaskólans í Reykjavík minningarskjöldur þar sem stendur: „Niels R. Finsen in hac schola didicit anno 1876–1882“ sem þýðir: „Níels R. Finsen stundaði nám í þessum skóla árin 1876–1882“.

Í erindi Dansk-íslenska félagsins til byggingarnefndar Nýs Landspítala er hvatt til þess að minningu Níelsar R. Finsen verði sýndur viðeigandi sómi. Þetta megi til að mynda gera með því að tilteknar byggingar sjúkrahússins, torg eða götur þar í nágrenni, verði nefnd í höfuð honum, ellegar honum verði reistur minnisvarði á lóð hins Nýja Landspítala. Að halda minningu hans á lofti yrði í senn  virðingarvottur við afrek hans á sviði læknisfræðinnar og íslenskum vísindamönnum hvatning til nýrra uppgötvana og dáða. Þá má ekki gleyma hinu að saga Níelsar R. Finsen er til vitnis um hið trausta samband sem ríkt hefur milli bræðraþjóðanna, Íslendinga, Færeyinga og Dana.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
17.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim
EyjanFastir pennar
10.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin