fbpx
Föstudagur 10.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Norrænt varnarsamstarf

Eyjan
Sunnudaginn 10. apríl 2022 20:29

Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svía. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt sænskum sögnum hélt Eiríkur IX Svíakonungur í krossferð austur til Finnlands árið 1154 sem talin er marka upphaf sænskra yfirráða þar eystra. Hvort sem þetta er rétt eða ekki réðu Svíar stærstum hluta Finnlands næstu aldirnar og í flestum héruðum meðfram finnsku strandlengjunni varð sænska ríkjandi tungumál. Svíar misstu endanlega yfirráð yfir Finnlandi til Rússa 1809 á einhverjum mestu ófriðartímum í sögu álfunnar en allt frá dögum Napóleonsstyrjaldanna hefur Svíum auðnast að halda sig fjarri hernaðarátökum og varnarbandalögum.

Öðru máli gegnir um Finna sem máttu þola blóðsúthellingar vegna innrása Sovétmanna á árum síðari heimsstyrjaldar. Heimurinn fylgdist af aðdáun með varnarþrótti Finna í vetrarstríðinu þar sem þeir grönduðu 684 sovéskum flugvélum og eyðilögðu 1.600 skriðdreka. Sjálfir misstu Finnar innan við 40 flugvélar. Gegn skriðdrekum áttu þeir fá vopn en beittu óspart bensínsprengjum sem fengu nafnið Molotov-kokteilar. Það er ekki undra að Finnar hafi fram á þennan dag lagt mikið upp úr öflugum varnarviðbúnaði. Fá ríki Evrópu eiga í vörugeymslum jafnmiklar birgðir af eldsneyti, matvælum og lyfjum og samkvæmt upplýsingum finnskra yfirvalda er rúm fyrir 4,4 milljónir manna í loftvarnarbirgjum en íbúar Finnlands eru 5,5 milljónir.

Fundahöld í liðinni viku

Innrás Rússa í Úkraínu vekur óblíðar minningar finnsku þjóðarinnar og nú styður yfir sextíu af hundraði Finna inngöngu í Atlantshafsbandalagið. Þá hefur stuðningur Svía við aðild að bandalaginu farið úr 35 prósentum í 46 prósent síðastliðinn mánuð. Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svía, sagði í samtali við blaðamann Aftonbladet á dögunum að möguleg innganga Svíþjóðar í Atlantshafsbandalagið krefðist stuðnings þriggja fjórðu hluta Ríkisþingsins. „Det här är inte en fråga som jag tycker lämpar sig för politisk strid,“ bætti hún við. Hún var einnig spurð hversu hratt aðild gæti gengið fyrir sig og vísaði í svari sínu til yfirlýsingar Jens Stoltenberg, aðalritara Atlantshafsbandalagsins: „Stoltenberg har sagt att det kan gå raskt om Sverige väl bestämmer sig för att gå med.“ Ekki sé sjálfgefið að Svíar æski aðildar geri Finnar það en Andersson bætti þó við: „Om Finland behöver hjälp ställer vi förstås upp.“

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, fór til fundar við sænska starfssystur sína í vikunni sem leið þar sem rætt var um Úkraínustríðið og leiðir til að efla samstarf norrænu ríkjanna í varnarmálum. Á blaðamannafundi eftir samtal forsætisráðherranna sagði Støre: „Norge og Sverige har et nært og tillitsfullt forhold. Jeg ønsker å styrke samarbeidet ytterligere, særlig innen sikkerhet og forsvar og grønn omstilling.“ Í bígerð væri aukið öryggis- og varnarsamstarf ríkjanna.

Blaðamenn spurðu Andersson eðlilega um mögulega aðild Svía að NATO. Hún sagði þau mál hafa borið á góma í samtali þeirra. Að sama skapi var Støre inntur álits á inngöngu Norðmanna í Evrópusambandið. Hann kvaðst fagna umræðu um þau mál en bætti við að „spørsmålet om medlemskapet er ikke aktuelt nå“. Andersson sagði síðan að engir myndu fagna aðild Norðmanna að Evrópusambandinu meira en Svíar.

Breytt heimsmynd

Í kjölfar síðari heimsstyrjaldar var hreyft við hugmyndinni um norrænt varnarbandalag Dana, Norðmanna og Svía. Þeim síðastnefndu hafði þá auðnast að varðveita hlutleysi sitt öll styrjaldarárin og lítill vilji til að tengjast öðrum ríkjum hernaðarböndum. Norðmenn vildu aftur á móti efla tengslin við Bandaríkin. Sjónarmið ríkjanna voru einfaldlega of ólík og svo fór að Danmörk, Noregur og Ísland urðu stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu í apríl 1949.

Norrænt samstarf óx hratt á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar en öryggis- og varnarmál voru vandlega undanskilin. Það var ekki fyrr en árið 1997 sem þau mál bar fyrst á góma á vettvangi Norðurlandaráðs og til tíðinda dró sumarið 2008 þegar utanríkisráðherrar landanna fólu Thorvald Stoltenberg, fyrrv. utanríkis- og varnarmálaráðherra Noregs, að móta tillögur um mögulega sameiginlega stefnu ríkjanna á sviði utanríkis- og öryggismála. (Thorvald var sem kunnugt er faðir Jens, aðalritara NATO.)

Það var svo loks í febrúar 2009 sem Stoltenberg eldri lagði fram þrettán tillögur í þessu efni. Meðal þeirra var að koma á fót sameiginlegri viðbragðssveit Norðurlanda en innan hennar yrði borgaralegt samstarf (og Íslendingar gætu því komið að málum). Þá var einnig lagt til sameiginlegt eftirlit Norðurlandanna með hafsvæðum sem ríkin ráða yfir. Sú tillagna Stoltenbergs sem gekk lengst fjallaði um samstöðuyfirlýsingu Norðurlandanna og ríkin tækju ákvörðun um að standa saman kæmi til árásar á eitthvert þeirra. Heimsmyndin er gerbreytt frá því að Stoltenberg skilaði skýrslu sinni og náið samstarf allra Norðurlandanna í öryggis- og varnarmálum miklu nálægari kostur nú en þá.

Sé litið til áðurnefndra ummæla forsætisráðherra Norðmanna og Svía í liðinni viku má telja afar líklegt að norrænu ríkin munu á næstu árum stórauka samstarf sitt í öryggis- og varnarmálum enda hagsmunir samtvinnaðir. Þessi þróun er þegar hafin með nánu samstarfi Finnlands og Svíþjóðar við Atlantshafsbandalagið og mun halda áfram hvort heldur sem Finnar og Svíar ganga í bandalagið eða ekki. Stóraukið norrænt varnarsamstarf kann að auka verulega mikilvægi norrænnar samvinnu sem Íslendingar hafa alla tíð notið mjög góðs af. Og nú sem fyrr skiptir miklu að Íslendingar verði fullir þátttakendur í komandi samstarfi þeirra þjóða sem við eigum mestan skyldleika við.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur
EyjanFastir pennar
08.12.2024

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum
EyjanFastir pennar
07.12.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi
EyjanFastir pennar
28.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
27.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka
EyjanFastir pennar
19.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?