fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Vofa stjórnlagaráðs gengur ljósum logum

Eyjan
Sunnudaginn 20. júní 2021 18:00

Fundur stjórnlagaráðs. Mynd/GVA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í ávarpi sínu við þingsetningu 1. október í fyrra sagði Guðni Th. Jóhannesson forseti brýnt að þingmenn sýndu í verki að þeir gætu tekið tillögur að breytingum á stjórnarskrá til efnislegrar afgreiðslu og vangeta í því efni „gæti jafnvel talist þinginu til vansa“.

Svo fór að þingið reyndist ekki vandanum vaxið. Frá því að fyrstu umræðu um frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til stjórnskipunarlaga lauk lá frumvarpið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins í rúma fjóra mánuði og átti aldrei afturkvæmt þaðan.

Í viðtali í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins á dögunum kvaðst forseti Íslands hafa orðið fyrir vonbrigðum með að efnisleg umræða hefði ekki náðst um frumvarp forsætisráðherra til stjórnskipunarlaga. Slíkt væri að hans mati áhyggjuefni.

Þorsteinn Pálsson, fyrrv. forsætisráðherra, lagði út af þessu í Fréttablaðinu á þjóðhátíðardaginn og sagði fremur súrt í broti fyrir Katrínu Jakobsdóttur að koma fram fyrir þjóðina þann daginn og skýra hvers vegna fjögurra ára vinna við áfangaskipta endurskoðun stjórnarskrárinnar hefði farið út um þúfur undir hennar forystu. Þorsteinn benti á að málið hefði hlotið góðan undirbúning og ekki hefði Alþingi skort tíma. Þá hefði almenningur að auki fengið að segja álit sitt í sérstakri rökræðukönnun. Þorsteinn skrifar:

„Það er stjórnarmeirihlutinn sem ræður því hvort mál komast úr þingnefnd til umræðu og atkvæðagreiðslu á Alþingi. Hann kaus að drepa málið í nefnd.“

Þorsteinn bendir á að ábyrgðin sé stjórnarmeirihlutans — þrátt fyrir að Katrín tali eins og óljós og óskilgreind andstaða á Alþingi hafi stöðvað málið og hann segir forseta í reynd vera að snupra forsætisráðherra:

„Forseti þekkir vel lögmál þingræðisskipulagsins og reglur þingskapa. Hann veit því að villandi er að saka Alþingi í heild um að hlaupast undan merkjum þegar stjórnarmeirihluti kemur í veg fyrir að mál sé afgreitt úr nefnd og komi til atkvæða.

Ekki verður því annað ráðið en forseti sé undir rós að setja ofan í við forsætisráðherra sinn og samstarfsflokka hans.“

„Sorglegur blettur á stjórnskipunarsögu Íslands“

Engum dylst að þingmenn Sjálfstæðisflokks höfðu gert alvarlegar athugasemdir við frumvarp forsætisráðherra og ljóst að illmögulegt yrði að ná samstöðu meðal stjórnarmeirihlutans um málið. Markmiðið hafði þó verið að ná almennri samstöðu meðal þingheims líkt og venjan býður þegar um stjórnarskrárbreytingar er að ræða. Við blasir þó að slíkt gat aldrei orðið, meðal annars í ljósi þess að tveir stjórnarandstöðuflokkar, Samfylkingin og Píratar, hafa ítrekað krafist þess að sett verði „ný stjórnarskrá“ á grundvelli „frumvarps stjórnlagaráðs og vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis“. En þetta hugtak „ný stjórnarskrá“ hefur verið fyrirferðarmikið í umræðunni á kjörtímabilinu með alls kyns gjörningum og kúnstum, veggjakroti þar á meðal.

Eins og flestir muna úrskurðaði Hæstiréttur fyrir réttum áratug kosningar til stjórnlagaþings ógildar vegna annmarka á framkvæmd. Sumir þeirra voru álitnir verulegir eins og að kjörseðlar hefðu verið númeraðir í hlaupandi röð svo auðveldlega mátti rekja þá til einstakra kjósenda og kosningin því ekki leynileg, pappírsskilrúm hefðu ekki uppfyllt ákvæði um lokaðan kjörklefa, engir hlutlausir eftirlits- og umboðsmenn frambjóðenda verið skipaðir og talning ekki farið fram fyrir opnum dyrum.

Meirihluti Alþingis hafði þennan úrskurð Hæstaréttar að engu með því að skipa þá hina sömu og kjörnir höfðu verið ólögmætri kosningu í svonefnt stjórnlagaráð.

Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur segir í grein um breytingarákvæði stjórnarskrár í nýútkomnu hefti Tímarits lögfræðinga að verkefni stjórnlagaráðs hafi aldrei verið skilgreint sem „ný stjórnarskrá“, „heildarendurskoðun“ eða „endurskoðunarferli“ og hún segir einkennilegt

„hvernig þessi orð eru óspart og óskipulega notuð hingað og þangað á fjórum löggjafarþingum til að ljá því trúverðugleika að þrátt fyrir að brjóta gegn breytingarákvæði 79. gr. yrði sett ný stjórnarskrá fyrir Ísland á kjörtímabilinu.“

Umboð stjórnlagaráðs hefði í reynd aðeins falist í átta afmörkuðum atriðum sem ráðið skyldi taka sérstaklega til athugunar. Þrátt fyrir það skilaði stjórnlagaráð tillögum að frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár — alveg frá grunni — en samt sem áður var ekki um fullbúið frumvarp til stjórnskipunarlaga að ræða. Kristrún segir ljóst að ráðið hafi farið út fyrir umboð sitt eins og kveðið hafði verið á um það í þingsályktunartillögu. En þar sem frumvarp stjórnlagaráðs var ekki fullbúið var ekki hægt að leggja það sem slíkt í þjóðaratkvæði. Grípum niður í grein Kristrúnar:

„Það er í raun sorglegur blettur á stjórnskipunarsögu Íslands að borin hafi verið upp spurningin „vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“ í ljósi þess að tillögum stjórnlagaráðs hafði þá þegar verið margbreytt í smáu og stóru án þess að kjósendum væri gert viðvart um það.“

Tillögur stjórnlagaráðs voru nefnilega aldrei bornar undir þjóðaratkvæði þvert á það sem oft er haldið fram í opinberri umræðu og með margvíslegum mislistrænum gjörningum.

Frumvarp stjórnlagaráðs heyrir fortíðinni til“

Rúmu ári áður en Guðni Th. Jóhannesson var kjörinn forseti ræddi hann stjórnarskrármálin á fundi Stjórnarskrárfélagsins og sagði meðal annars:

„Að mínu mati er ljóst að frumvarp stjórnlagaráðs heyrir fortíðinni til, þrátt fyrir góðan vilja og stuðning í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012. Vel má vera að ákveðnum hlutum þess eða hugmyndum verði skeytt inn í tillögur að breytingu á stjórnarskránni en meira verður það varla. Ró hefur færst yfir sviðið.“

Í sama erindi minnti Guðni á að lýðveldisstjórnarskráin hefði verið málamiðlun ráðandi afla þess tíma:

„Þetta var líka bráðabirgðastjórnarskrá, auðvitað ekki í formlegum skilningi, en öllum öðrum. Frá upphafi var ætlunin að endurskoða hana í heild sinni. Mér finnst að þeir sem efast um þetta neiti að horfast í augu við skýrustu staðreyndir.“

Hann vísaði í því sambandi til orða Sveins Björnssonar forseta sem í ræðu á nýársdag 1949 sagði svo:

„Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá, sem vér þurftum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogunum, að sett yrði sem fyrst. Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld. Er lýðveldið var stofnað var þess gætt að breyta engu öðru í stjórnarskránni en því sem óumflýjanlegt þótti vegna breytingarinnar úr konungsríki í lýðveldi. Mikil þróun hefir orðið á síðustu öldinni með mjög breyttum viðhorfum um margt. Vonandi dregst eigi lengi úr þessu að setja nýja stjórnarskrá.“

Síðan eru liðin 72 ár og þarft að gera úrbætur á stjórnarskrá þrátt fyrir að hún hafi í öllum meginatriðum gagnast vel. Tillögur stjórnlagaráðs geta samt sem áður aldrei í heild sinni orðið grundvöllur „nýrrar stjórnarskrár“. Og trauðla næst samstaða á Alþingi um stjórnarskrárbreytingar fyrr en stjórnlaugaráðsdraugurinn hefur verið kveðinn niður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Hvort gekk Sigríður Andersen í Miðflokkinn eða öfugt?

Svarthöfði skrifar: Hvort gekk Sigríður Andersen í Miðflokkinn eða öfugt?
EyjanFastir pennar
17.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin
EyjanFastir pennar
13.10.2024

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði
EyjanFastir pennar
10.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin
EyjanFastir pennar
06.10.2024

Björn Jón skrifar – Fjölmiðlamálið og eyðilegging stjórnmálanna

Björn Jón skrifar – Fjölmiðlamálið og eyðilegging stjórnmálanna