fbpx
Mánudagur 30.desember 2024
Fastir pennar

Ég dýrka nýja kærastann svo mikið að ég er með þráhyggju fyrir honum – Hvernig kem ég í veg fyrir að ég kæfi hann?

Fókus
Sunnudaginn 13. júní 2021 22:30

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem telur sig hafa þráhyggju gagnvart nýjum kærasta.

Kristín Tómasdóttir

 

Kæra Kristín

Nýverið (fyrir 5 mánuðuðum) eignaðist ég kærasta sem er frekar næs enda hefur mig langað það lengi og vandamálið er frekar skrítið því ég dýrka hann svo mikið að ég er með þráhyggju fyrir honum. Ég tala endalaust um hann og sakna hans alveg svakalega þegar hann er ekki með mér. Hann hefur sagt mér að ég sé smá að kæfa hann og þá verð ég hrædd um að hann sé að fara að hætta með mér og fæ þráhyggju fyrir því. Er ekki allt í lagi með mig? Þetta verður að lagast.

Kveðja,

Ein með þráhyggju

 

Sælar Þráhyggja

Takk fyrir spurninguna. Ég verð að viðurkenna, án þess að gera lítið úr spurningunni þinni, þá hló ég af því hvernig þú orðar þetta. Aftur á móti get ég sagt þér að þetta ekki óalgengt vandamál enda verða ástarmál oft að þráhyggju.

Þráhyggja eru þrálátar, endurteknar og stjórnlausar hugsanir. Stundum getur þráhyggja verið af hinu góða, t.a.m ef hún beinist að ákveðnu efni sem við verðum fróðari af. Sumir fá þráhyggju fyrir vinnunni eða námi og þá getur hún jafnvel reynst vel til framdráttar og frama. Við tölum þó yfirleitt ekki um þráhyggju nema hún sé með einhverju móti hamlandi og óyfirstíganleg.

Ástarmál eru mörgum ofarlega á baugi enda stór þáttur í lífi fólks. Hamingjurannsóknir sýna að ástin hefur gríðarlega mikil áhrif á hamingjuna, hvort heldur sem er til góðs eða ills. Með þessu á ég við að einstaklingar geta orðið mun hamingjusamari ef þeir eru í góðu parsambandi og sömuleiðis að slæmt parsamband getur dregið verulega úr hamingju þeirra sem í sambandinu eru.

Mig skal því ekki undra að þú sért ánægð með nýja kærastann, hann veitir þér hamingju og þú hefur þráð það lengi.

Hugsanir okkar geta verið ósjálfráðar og sjálfráðar þ.e.a.s, stundum hugsum við ósjálfrátt og það virðist sem við höfum enga stjórn. Aftur á móti er fólk ekki viljalaus verkfæri hugsanna sinna heldur getum við (stundum með átaki og tækni) breytt því sem við erum að hugsa og/eða endurhugsað. Þú segist vera með þráhyggju, tala stanslaust og sakna mikið, en hvað hefurðu reynt til þess að breyta þessu? Gætir þú ákveðið að takmarka umtal þitt um hann við aðra þannig að í annað hvert skipti talar þú um eitthvað annað en hann? Væri hægt að fækka aðstæðum þar sem hann upplifir að þú sért að kæfa hann? Getur þú gefið þér ákveðinn tíma dagsins (t.d milli klukkan 12.00-13.00) til þess að hugsa stöðugt um hann? Allt eru þetta hugmyndir sem miða að því að þú takir í stjórnartauma hugsana þinna og þróir tækni til þess að minnka þær hugsanir sem þér finnst slítandi og stjórnlausar.

Ef þú spyrð fólk hvenær það elskar maka sinn mest þá er algengasta svarið „þegar hann/hún er í burtu, í vinnunni, erlendis eða bara ekki til taks”. Með því að sakna finnur fólk sterkar fyrir ástinni. Þegar hann er ekki nálægt þér er því eðlilegt að þú elskir hann sérlega mikið. Í stað þess að reyna allt sem þú getur til þess að hitta hann fljótt og slökkva á söknunartilfinningum gæti verið ráð að njóta þess heldur að sakna hans og elska.

Ástin sem þú finnur í dag gagnvart kærastanum þínum er byggð á ástríðu. Með tíð og tíma þróast sambönd þannig að vinátta, þekking og lífsskoðanir skapa stærri sess. Þannig minnkar oft spennustigið en virðing og djúp tengsl verða meiri. Njóttu ferlisins sem sambandið hefur upp á að bjóða og leyfðu þér í æðruleysi að sjá hvert það leiðir þig.

Góða skemmtun og gangi þér vel.

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com.

Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina
EyjanFastir pennar
30.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið
EyjanFastir pennar
11.11.2024

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón