fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Dómari tekur til máls

Eyjan
Sunnudaginn 9. maí 2021 18:00

Arnar Þór Jónsson. Mynd/aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftirminnilegast allra námskeiða sem ég sat í laganámi nefndist „úrlausn ágreiningsmála“. Þetta var um margt óvenjulegt námskeið (eða málstofa öllu heldur) en kennarinn lagði sig sérstaklega fram um að hvetja nemendur til íhygli um grundvöll laga og réttar og gaumgæfa um leið takmörk lögfræðinnar: Það er nefnilega ekki svo að dómstólar geti leyst úr öllum þeim ágreiningsmálum sem upp kunna að koma, fjarri því. Menn hefðu alltof gjarnan oftrú á lögum. Ég er sannfærður um að mér var hollt að öðlast snemma svo gagnrýna sýn á réttinn og úrlausn ágreiningsefna.

Kennaranum var líka mjög umhugað um sjálfsákvörðunarrétt og hugsanafrelsi og vildi halda á lofti kyndli frjálslyndis og lýðræðis. Með þeim hætti mætti aftra því að stjórnmálin yrðu hluti af ógagnsæu og vélrænu kerfi sem þjónaði sjálfu sér fremur en mannlegu samfélagi. Þarna voru stóru málin til umfjöllunar í kennslustundum, grundvallaratriðin — almenn mannréttindi — þar á meðal hugsanafrelsi, persónufrelsi og skoðanafrelsi sem kennarinn sagði „ekki aðeins haldreipi í ólgusjó lífsins heldur beinlínis kjölfesta og brimbrjótur“. Þess vegna yrði að gjalda varhug við hvers kyns kröfum um skerðingu á borgaralegum réttindum.

Umræða um grundvallarhugmyndir

Kennarinn, Arnar Þór Jónsson héraðsdómari, er líklega einhver besti lærifaðir sem ég hef haft. Hann lagði sig mjög fram um að virkja stúdenta til frjórrar hugsunar um siðferði og grundvallarrök laga og réttar og fékk ýmsa málsmetandi menn og konur í spjall um þessi stóru álitaefni.

Mér var því að vonum fagnaðarefni fyrir fáeinum árum þegar Arnar Þór hóf að láta til sín taka með greinaskrifum í Morgunblaðið. Og eðlilega sætti það tíðindum enda sjaldan sem hérlendir dómarar taka til máls á opinberum vettvangi. Fæst efni dægurmiðla ristir djúpt en þarna kvað við nýjan tón. Arnar Þór dró meðal annars fram í skrifum sínum alvarlega bresti í stjórnmálaumræðu samtímans; ótal margslungin viðfangsefni samfélagsins fengju ekki efnislega umræðu heldur létu stjórnmálmenn sér oft nægja að slengja fram órökstuddum staðhæfingum sem svar við hinum flóknustu álitaefnum. Um þetta efni fórust Arnari Þór svo orð:

„Gömul og ný dæmi sýna hve hættulegt er að horfa aðeins á eina hlið mála og réttlæta afstöðu sína með skírskotun til útópískra hugmynda um heiminn. Hættan felst í að fylgismenn ráðandi hugmynda telji sig handhafa sannleikans og geti þ.a.l. haft vit fyrir öðrum og hlegið gagnstæð sjónarmið út af borðinu.“

Arnar Þór hefur líka í skrifum sínum dregið fram mikilvægi þess að almenningur léti ekki blekkjast af orðum sem hljóma vel en hefðu ekkert sjálfstætt inntak. Í reynd yrði hver og ein manneskja að leita svara við álitaefnum út frá eigin samvisku og skynsemi og þegar allt kæmi til alls þá snerist umræðan ekki um hvað teldist „vísindalega sannað, heldur um samviskuspurningar um rétt og rangt, um siðferði og réttlæti“. Arnar Þór hefur í þessu sambandi varað við sérfræðingaveldi og þeim háska sem almenningi stafi af gagnrýnisleysi. Hann minnir á það í einni grein sinni að við höfum „frjálsan vilja og megum ekki láta svipta okkur honum með því að hlýða í blindni þeim sem hafa hæst“.

Hin frjálslynda lýðræðishefð

Því var slegið upp á forsíðu Fréttablaðsins á þriðjudaginn var að Arnar Þór hefði sagt sig úr Dómarafélagi Íslands „vegna ágreinings um tjáningarfrelsi dómara og efni siðrareglna félagsins“. Í viðtali við blaðið sagði Arnar Þór meðal annars að haustið 2019 hefði verið haldinn lokaður fundur á vettvangi Dómarafélagsins þar sem rætt skyldi um tjáningarfrelsi dómara. Grípum niður í samtal blaðamanns við Arnar Þór:

„Ég óskaði eftir því að þessi fundur yrði opinn og auglýstur enda var mér ljóst að fyrirhugað efni hans var tjáningarfrelsi mitt. Á fundinum var spjótum beint að mér og minni tjáningu og átti hann stóran þátt í því að ég kaus að segja mig úr félaginu.“

Ýmsir málsmetandi menn hafa blandað sér í umræðu um þetta mál og sitt sýnist hverjum. Ólafur Egilsson, lögmaður og fyrrv. sendiherra, var einn þeirra sem lagði orð í belg og sagði að málefnaleg umræða

„um sjálfan grundvöll stjórnskipunar landsins færi vissulega nokkurs á mis ef múlbinda ætti dómara þegar að henni kemur. En orða sinna þurfa þeir að gæta jafnvel ennþá betur en aðrir svo trausti til þeirra sé ekki raskað.“

Þetta er kjarni máls að mínu viti. Dómarar verða vitaskuld að gæta orða sinna umfram aðra en þeir hljóta að eiga rétt á að taka þátt í umræðum um grundvöll stjórnskipunar og laga. Arnar Þór segir ekki vanþörf á að vekja máls á þeirri „alvarlegu stöðu sem íslenskt lýðræði og íslenskt löggjafarvald standa frammi fyrir“. Hann sé með greinum sínum að hvetja til málefnalegrar og almennrar umræðu um „þann grundvöll frjálslyndrar lýðræðishefðar sem stjórnskipun okkar og lög byggjast á“.

Ég hafði ekki fyrr lokið við þennan pistil í gærmorgun þegar fréttir bárust af því að Arnar Þór hygði á framboð til Alþingis. Þar gefast vitaskuld enn frekari tækifæri til virkrar þátttöku í almennum umræðum heldur en dómurum eru búin. Að því sögðu má rifja upp að til skamms tíma sátu jafnan héraðsdómarar á Alþingi — á þeim tíma er sýslumenn og bæjarfógetar fóru samhliða umboðsstörfum með dómsvald. Það samræmist þó ekki nútíðarskilningi á skiptingu valdþátta að dómarar séu jafnframt í stjórnmálum.

Hvað sem því líður væri fengur að því að fleiri hugsandi menn notfærðu sér tjáningarfrelsið — líka dómarar að því marki sem þeim er það kleift. Þjóðfélagið þarfnast sárlega dýpri og yfirvegaðri umræðu um hin stóru álitaefni út frá grundvallarrökum og undirstöðuhugmyndum frjálslynds vestræns lýðræðissamfélags.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim
EyjanFastir pennar
04.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!
EyjanFastir pennar
03.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið