Elva Björk Ágústsdóttir, sálfræðkennari og umsjónarkona Poppsálarinnar skrifar:
Árið 2009 hófust sýningar á nýjum sjónvarpsþáttum sem nefndust Glee. Glee var bandarísk þáttaröð sem byggði á reynslu höfundar af sönghópi í gagnfræðiskóla. Þættirnir voru blanda af gamanleik, tónlist og leiklist og urðu gríðarlega vinsælir. Þættirnir urðu þó líka þekktir fyrir fyrir þá hræðilegu ólukku sem virtist elta meðlimi Glee á röndunum.
Þeir hræðilegu atburðir sem virðast loða við leikara og framleiðendur Glee eru það margir að sumir vilja meina að á þáttunum hvíli bölvun.
Andlát Cory bara byrjunin
Álögin á meðlimum Glee eru talin hafa byrjað með dauðsfalli eins aðal leikarans, Cory Monteith. Monteith lék Finn Hudson, vinsælan fótboltamann og söngvara í þættinum. Í júlí árið 2013 lést Monteith úr of stórum skammti eiturlyfja þá einungis 31 árs. Kærasta hans Lea Michele lék einnig stórt hlutverk í þáttunum.
Stuttu síðar féll Jim Fuller leikstjóri þáttanna frá. Hann virðist hafa fengið hjartaáfall einungis 41 árs gamall. Áfallið hefur verið tengt við álag og streitu við gerð þáttanna.
Drukknaði í baðkari
Sléttu ári eftir andlát Monteith missti Becca Tobin, sem lék Kitty Wild í þáttunum, unnusta sinn á voflegan máta.
Sama ár, eða árið 2014 drukknaði Nancy Motes, starfsmaður þáttanna og systir leikkonunnar Julia Roberts, í baðkari heima hjá sér. Hún hafði verið að glíma við mikið þunglyndi og er talið að hún hafi tekið sitt eigið líf.
Dæmdur fyrir nauðgun og vörslu barnakláms
Einn vinsælasti leikari þáttanna, Mark Salling, fannst hangandi í tré í skógi rétt hjá heimili sínu í janúar 2018. Fyrrum kærasta hans hafði áður upplýst lögreglu um barnaklám sem hún fann í tölvu hans. Hann var dæmdur fyrir nauðgun og vörslu barnakláms stuttu síðar og virðist hafa tekið sitt eigið líf í kjölfar dómsins.
Fyrrum kærasta Mark Salling og vinsæl leikkona úr Glee, Naya Rivera, lést í fyrra. Hún hafði farið út á vatn í bát með fjögurra ára gömlum syni sínum og horfið. Hún fannst þann 13. júlí 2020 sléttum sjö árum eftir dánardag fyrrum meðleikara síns, Cory Monteith.
Í nýjasta þætti Poppsálarinnar er farið í þessa sorglegu og óhugnanlegu atburði sem tengjast Glee leikurunum. Skoðað er hvort mögulega hvíli einhver bölvun á meðlimum Glee eða hvort um óheppilegar og afar dapurlegar tilviljanir séu um að ræða.
Elva Björk sálfræðikennari segir frá sálfræðilegum kenningum um trú okkar á álög, bölvun og galdra og veltir upp þeirri hugmynd hvort sérstakur hugsanastíll einkenni þá sem telja bölvun hvíla á sér eða öðrum.
Hægt er að nálgast nýjasta Poppsálarþáttinn hér: