fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Sósíalistaflokkurinn – in memoriam

Eyjan
Sunnudaginn 7. nóvember 2021 17:30

Byltingarleiðtoginn Georges Jacques Danton sem var að lokum leiddur undir fallöxina.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mannkynssagan hefur að geyma ótal hliðstæður sem hafa orðið mönnum hugstæðar. Dæmi um það má nefna ógnaröldina (fr. la Terreur) 1793–1794 í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar sem svipar mjög til hreinsana Stalíns á fjórða áratug síðustu aldar. Ógnaröldinni hafa verið gerð skil í ótal kvikmyndum, leikritum og bókum. Í einni franskri kvikmynd sem ég sá nýlega um byltinguna er Maximilien Robespierre látinn leiða Georges Jacques Danton undir fallöxina. Þeir vilja vitaskuld báðir fyrir allan mun að bylting þeirra heppnist en vita sem er að þeir eru samsekir þeirri afskræmingu réttarfarsins sem lætur þá báða (og á sautjánda þúsund aðra borgara) verða höfðinu styttri. Og einn hinna pólitísku fanga er í kvikmyndinni látinn segja við Danton: „Varst það ekki þú sem stofnaðir byltingardómstólinn?“

Ógnaröldin stóð í aðeins tíu mánuði og er dapurlegur vitnisburður um afleiðingar sambýlis háleitra hugsjóna annars vegar og óskoraðs valds yfir lífi heillar þjóðar hins vegar.

Aftökulistinn

Hinar upphaflegu hugsjónir frönsku byltingarinnar gengu út á að koma á þingbundinni konungsstjórn og stjórnarskráin nýja var að mörgu leyti sniðin eftir þeirri amerísku — enda ekki að undra þar sem La Fayette naut dyggrar aðstoðar sendiherra Bandaríkjamanna í París við ritun mannréttindayfirlýsingarinnar. Sá hét Thomas Jefferson og átti eftir að verða þriðji forseti Bandaríkja Ameríku. Ógnarstjórn Robespierre og annarra Jakobína var víðsfjarri upphaflegum hugsjónum byltingarinnar — enda skorti umfram allt valdtemprun og eins og kunnugt er af mannkynssögunni þá spillir vald og gerræðisvald gerspillir.

En Jakobínar eru víðar og ef litið er á Twitter-síðu Viðars Þorsteinssonar, fyrrv. framkvæmdastjóra Eflingar, blasir efst við grein hans um „byltingu Íslands“ á vefritinu Jacobin (sem líka er prentað tímarit) sem samkvæmt lýsingu „offers socialist perspectives on politics, economics, and culture“. Enn sækja menn sér fyrirmyndir til þeirra Jakobína, Dantons, Marats og Robespierre en loka augunum fyrir ógnaröldinni. Á sama hátt og taglhnýtingar kommúnismans á okkar tímum kjósa að setja kíkinn fyrir blinda augað þegar hreinsanir Stalíns og fleiri óhæfuverk alræðissinna blasa við sýnum.

Þau Viðar og Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrv. formaður Eflingar, hafa nú horfið af vettvangi eftir mál sem hófst með ályktun trúnaðarmanna stéttarfélagsins í sumar sem leið, en í ályktuninni sem send var stjórnendum stéttarfélagsins segir að að starfsmenn forðist að tjá skoðun sína af ótta við að „lenda í óvinahópi eða á aftökulistanum“. Síðan segja trúnaðarmennirnir:

„Þetta eru ekki nýjar áhyggjur heldur hafa þær verið að þróast og dýpka með árunum. Á síðustu þremur árum hafa 22 starfsmenn af liðlega 50 manna starfshópi hætt eða verið sagt upp. Það gerir rúmlega 40% starfsmanna. Það er ekki óeðlilegt að starfsfólk óttist hvað gerist næst. Svona mikil starfsmannavelta er auk þess heilmikið álag fyrir hinn venjubundna starfsmann.“

 

Fúkyrðaflaumurinn

Áðurnefndur Viðar Þorsteinsson sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar fyrir fáeinum dögum að trúnaðarmenn hefðu sett á blað „grófar, ærumeiðandi og mannorðsdrepandi,“ ásakanir. Fréttamaður Bylgjunnar innti Láru V. Júlíusdóttur, sérfræðing í vinnurétti, álits á þessum ummælum og hún svaraði:

„Ég verð nú að segja það að mér finnst svona ummæli um trúnaðarmenn, mér finnst þau afar sorgleg, sérstaklega þegar þau koma úr munni þeirra sem hafa verið í forystu [verkalýðs]hreyfingarinnar.“

Sólveig Anna hafði í fyrra ráðist harkalega að Láru eftir að sú síðarnefnda kom fram í fjölmiðlum og sagði stjórnendur Icelandair hafa staðið að uppsögnum flugfreyja með lögmætum hætti. Um Láru hafði Sólveig þá þetta að segja:

„Einn truflaðasti meðlimur reykvískrar borgarastéttar talar úr hliðarveruleika hinna auðugu. Ömurlegt þvaður í ruglaðri manneskju.“

Það sjá það allir sem vilja sjá að ekki verður haldið uppi vitrænu samtali og þar með friði í þjóðfélaginu með munnsöfnuði af þessu tagi. En líklega var það heila málið; þetta snerist aldrei um neitt samtal eða frið heldur byltingu. Eða „helvítis byltinguna“ eins og Sólveig Anna orðaði það gjarnan svo pent.

Hægt væri að gefa út þykka bók með fúkyrðum Sólveigar Önnu sem hún viðhafði í bland við útslitna kommúníska frasa en í aðdraganda síðustu alþingiskosninga kallaði hún Diljá Mist Einarsdóttur, frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins, meðal annars „ómerkilegan pólitískan loddara“ og að flokkurinn hennar væri „ömurlegur arðráns og spillingarklúbbur“.

 

Afsprengi amerískrar lágmenningar

Ég nefndi hér í pistli á dögunum hvernig hið frjálslynda opna lýðræðissamfélag ætti undir högg að sækja, jafnt frá öfgafólki til hægri og vinstri en vestræna þjóðfélagsskipanin byggir á opnum skoðanaskiptum þar sem borin er virðing fyrir andstæðum sjónarmiðum og fyrir mannlegri reisn samhliða trú á gildi frjáls markaðar og takmörkun ríkisvaldsins. Sólveigu Önnu Jónsdóttur og meðreiðarsveinum hennar virðist hafa skort flest það sem hér er nefnt.

Því miður höfum við hér í vestanverðri Evrópu einstakt lag á að tileinka okkur margt það lakasta í bandarískri menningu — en einhverra hluta vegna rata æðri listir og hugsjónir þessa mikla menningarríkis í vestri miklu síður hingað austur eftir. Íslenski nýsósíalisminn — sem Sólveig Anna hefur boðað — er í reynd afsprengi amerískrar lágmenningar. Ekki þarf að leita lengra en aftur til ellefta dags síðasta mánaðar þegar hún greindi frá því á fésbókarsíðu sinni að þann daginn væri vestanhafs haldið upp á dag „hins flínka siglara og sadíska þjóðar-morðingja Kristófers Kólumbus [sic]“. Síðan fylgir ámóta munnsöfnuður (á miður góðri íslensku) og því fagnað að styttur af „morðingjanum“ Kristófer Kólumbusi hafi verið felldar af stalli.

Hér og miklu víðar tekur Sólveig undir öfga í menningarefnum sem hafa verið áberandi meðal sósíalista vestanhafs síðustu misseri. Forverar Sólveigar Önnu á stóli formanns stærsta verkamannafélags landsins voru vel lesnir menn þrátt fyrir enga formlega menntun. Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Dagsbrúnar, talaði kjarnyrt mál og þekkti Íslendingasögurnar jafnvel betur en bókmenntafræðingarnir í Háskólanum. Þá stóðu menn föstum fótum í veruleika íslensks alþýðufólks sem búið hafði við kröpp kjör um aldir og skynjuðu um leið nið aldanna — en löptu ekki upp ameríska lágmenningu.

 

Ameríska nýsósíalismanum var hafnað

Sjálf segir Sólveig Anna að hún hafi verið afar hikandi við að gefa kost sér í framboð til Eflingar en látið til leiðast eftir þrábeiðni Gunnars Smára Egilssonar. Hann hefði á endanum sagt við sig: „Þú veist að þú verður að gera þetta.“ Þetta urðu að sönnu áhrínsorð. Daginn fyrir kjördag í nýliðnum alþingiskosningum skrifaði Sólveig Anna á samfélagsmiðla:

„Í fyrramálið mun ég vakna spennt. Og ég hlakka til að fara og kjósa með börnunum mínum. Við ætlum öll að kjósa Sósíalistaflokkinn. Skila rauðu. Kjósa með hjartanu. Af því að við trúum á rétt allra til að lifa frjáls undan kúgun og arðráni. Og til að lifa frjáls undan rógburði þeirra sem óttast ekkert meira en að loksins sé tækifærið runnið upp til að raunverulega breyta þjóðfélaginu okkar til hins betra. Ég vona að þið ætlið að gera slíkt hið sama. Sjáumst í baráttunni. Hún er rétt að byrja.“

Sólveig Anna reyndist hafa rangt fyrir sér. Þjóðinni hugnaðist ekki öfgafullur málflutningur Sósíalistaflokksins. Hófsamari öfl unnu á og flokkurinn náði ekki manni inn á þing. Og svo er að sjá sem ógnaröldinni í Eflingu sé líka lokið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
20.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn
EyjanFastir pennar
19.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu