fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Ríkisstofnanir í fjölmiðlaleik

Eyjan
Sunnudaginn 4. júlí 2021 17:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hér á þessum vettvangi hefur áður verið fjallað um stóraukin útgjöld til hvers kyns eftirlitsstofnana en milli áranna 2010 og 2018 jukust framlög til 21 eftirlitsstofnunar ríkisins um rúm 57% svo dæmi sé tekið. Og þá var gagnrýnt á sínum tíma að framlög til einnar eftirlitsstofnunarinnar, fjölmiðlanefndar, hefðu farið úr 17,5 milljónum árið 2008 í 38,5 milljónir 2012. Á fjárlögum þessa árs eru stofnuninni aftur á móti ætlaðar 92 milljónir króna.

Forsvarsmenn stofnunarinnar hafa bersýnilega verið í vanda þegar kom að ráðstöfun þessara fjármuna því þeir ákváðu að koma sjálfir á fót fjölmiðli í formi hlaðvarps en líkt og fjallað var um í fréttum í liðinni viku lét nefndin undir höfuð leggjast að skrá þennan fjölmiðil sinn líkt og stofnunin krefst af öðrum fjölmiðlum — þar með talið hlaðvörpum. Ýmsir bentu á að stofnunin væri komin út fyrir sitt hlutverk sem eftirlitsstofnun með starfrækslu spjallþáttar en ráðinn var sérstakur starfsmaður með reynslu af fjölmiðlum til að halda úti fjölmiðli stofnunarinnar.

Margir hafa orðið til að gagnrýna þetta en Hafliði Breiðfjörð, ritstjóri fréttamiðilsins Fótbolta.net, kvartaði til umboðsmanns Alþingis vegna fjölmiðils fjölmiðlanefndar. Hann segir stofnunina komna í samkeppni um efni við fjölmiðla og þar með farna langt út fyrir hlutverk sitt sem sé að hafa eftirlit með fjölmiðlum. Hann líkir þessu við það ef heilbrigðiseftirlitið opnaði pizzastað. Hlaðvarp fjölmiðlanefndar sé ekkert annað en eigin „fjölmiðlaveita“ stofnunarinnar.

Stóraukinn kostnaður skattgreiðenda

Fjölmiðlanefnd er síður en svo eina ríkisstofnunin sem heldur úti fjölmiðli í formi hlaðvarps. Umboðsmaður skuldara framleiðir þáttinn „Leitin að peningunum“, Landsspítalinn er líka með fjölmiðil þar sem tekin eru persónuleg viðtöl við starfsfólk, Landsvirkjun heldur úti þættinum „Grænvarpinu“, Landgræðslan er með sinn hlaðvarpsþátt og er þá ekki allt talið. Fjölmiðlavæðing ríkisstofnana á sér stað á sama tíma og verulega kreppir að í rekstri almennra fjölmiðla og ríkisstofnanir soga til sín hæfa blaðamenn og gera að upplýsingafulltrúum þar sem þeim eru búin mun hærri laun og fríðindi.

Kostnaður við upplýsingastarfsemi hins opinbera (sem oft væri réttara að kalla áróðursstarfsemi) hefur vaxið mikið undanfarin ár. Á síðasta ári nam kostnaður Stjórnarráðsins vegna launa upplýsingafulltrúa 140 milljónum króna en 2017 — við upphaf kjörtímabilsins — fóru um 100 milljónir í þennan í útgjaldalið. Ef kostnaður undirstofnana ráðuneyta vegna upplýsingafulltrúa er tekinn með þá er heildarlaunakostnaðurinn kominn upp í 386 milljónir króna. Þessar tölur byggja á svörum við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Miðflokksins, en sum ráðuneytin gáfu aðeins upp hluta kostnaðar og í einhverjum tilfellum voru tölurnar fyrir árið 2019. Ætla má því að kostnaðurinn sé talsvert meiri.

Seðlabanki Íslands á metið í kostnaði vegna upplýsingafulltrúa — eða 31 milljón króna í fyrra. Í frétt Kjarnans í febrúar sl. var áætlað að kostnaður vegna upplýsingafulltrúa ráðuneyta og stofnana að viðbættum kostnaði vegna aðstoðarmanna ráðherra og ríkisstjórna næmi samtals um 636 milljónum króna í fyrra. Kjarninn hefur spurst fyrir um þessi mál hjá Reykjavíkurborg en þar eru upplýsingafulltrúar í níu stöðugildum og árlegur launakostnaður vegna þeirra nemur um 102 milljónum króna.

Áróðursstarfsemi hins opinbera

Þórlindur Kjartansson, pistlahöfundur á Fréttablaðinu, orðaði það svo í grein fyrir ekki svo löngu að hlutverk fjölmiðlafulltrúanna væri að „snikka til orðsendingar, fréttatilkynningar og hjálpa forstjórum við að fara ekki á taugum í blaðaviðtölum“ og enginn þyrfti að velkjast í vafa um að starf blaðamannsins væri mun mikilvægara en fjölmiðlafulltrúans. Sá síðarnefndi er nefnilega ekki endilega í sannleiksleit heldur í vörn fyrir tiltekna hagsmuni og í versta falli að störfum við að bjaga rétta mynd af því sem átt hefur sér stað. Og athugum að hagsmunir tiltekinnar ríkisstofnunar fara ekki endilega saman við hagsmuni alls almennings.

Í opnu bréfi til stjórnmálamanna skrifaði Jakob Bjarnar Grétarsson, blaðamaður á Vísi, nýlega: „Þið borgið upplýsingafulltrúum, sem búið er að troða á alla pósta til að fegra ímynd stjórnsýslunnar, miklu betri laun en fréttamönnum á RÚV.“ Þessi ábending Jakobs er sannarlega áleitin og sýnir að lítil innistæða er fyrir hástemmdum yfirlýsingum ráðamanna um gildi fjölmiðla. Það breytir því ekki að mikilvægi fjölmiðla verður seint ofmetið. Í reynd er ekki hægt að hugsa sér lýðræði án þeirra. Alvöru fjölmiðlar veita stjórnvöldum mikilsvert aðhald og hafa það hlutverk að verja hagsmuni alls almennings. Þær varnir mega sín þó sífellt minna þegar ríkisstofnanir eru sjálfar komnar á kaf í gervifjölmiðlun sem oft og tíðum er ekkert annað en hreinn og klár áróður, áróður sem getur beinlínis gengið gegn hagsmunum almennings. Hið opinbera hefur þær skyldur í þessu samhengi að veita upplýsingar en það er aftur á móti hlutverk alvöru fjölmiðla að túlka þær og koma til skila til almennings.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
20.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn
EyjanFastir pennar
19.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu