fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Kjósendur hafa varla skýra valkosti

Eyjan
Sunnudaginn 27. júní 2021 17:00

Vinstristjórn Steingríms Hermannssonar eftir að Borgaraflokkurinn gekk til liðs við hana. Hún naut þá stuðnings fimm flokka á Alþingi. Mynd/Stjórnarráðið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú eru innan við þrír mánuðir til alþingiskosninga og líklega óhætt að fullyrða að ríkisstjórnin þrauki þangað til. Hún verður þar með fyrsta þriggja flokka stjórnin til að sitja heilt kjörtímabil. Það eru nokkur söguleg tíðindi og í ljósi stórfjölgunar þingflokka má telja miklar líkur á að þriggja og jafnvel fjögurra flokka stjórnir verði á næstu árum fremur reglan en fram til þessa hefur reynst afar örðugt að halda slíkum stjórnum saman.

Þjóðstjórnin 1939–1942, undir forystu Hermanns Jónassonar, var fyrsta þriggja flokka ríkisstjórnin hérlendis en aðild að henni áttu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur. Næsta þriggja flokka stjórn var Nýsköpunarstjórnin, stjórn Sjálfstæðisflokks, Alþýðuflokks og Sósíalistaflokks. Stjórnin var mynduð í október 1944 en sprakk í loft upp haustið 1946 vegna deilna um Keflavíkursamninginn. Í febrúar árið eftir tókst að mynda aðra þriggja flokka stjórn undir forsæti Stefáns Jóhanns Stefánsson, formanns Alþýðuflokksins, en að auki áttu sjálfstæðismenn og framsóknarmenn aðild að henni. Stefanía, eins og stjórnin var nefnd, sat aðeins fram í desember 1949.

Fjórða, þriggja flokka stjórnin, var vinstristjórn Hermanns Jónassonar sem sat að völdum 1956–1958. Næsta þriggja flokka ríkisstjórn, fyrri vinstristjórn Ólafs Jóhannessonar, sat aðeins í þrjú ár. Auk Framsóknarflokks áttu Alþýðubandalag og Samtök frjálslyndra og vinstrimanna aðild að stjórninni. Ólafur myndaði síðari vinstristjórn sína að loknum kosningum 1978 en sú stjórn sprakk að ári liðnu eftir afar stormasamt samband framsóknar-, alþýðuflokks- og alþýðubandalagsmanna.

Næsta þriggja flokka stjórn var ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen 1980–1983, samstjórn Framsóknarflokks, Alþýðubandalags og hluta þingmanna Sjálfstæðisflokks. Ráðuneyti Þorsteins Pálssonar starfaði 1987–1988 en sjálfstæðismenn, framsóknarmenn og alþýðuflokksmenn áttu aðild að stjórninni. Eftir að stjórnin sprakk fékk Steingrímur Hermannson, formaður Framsóknarflokksins, Alþýðuflokk, Alþýðubandalag og Stefán Valgeirsson til liðs við sig og myndaði nýja stjórn. Ári síðar bættist Borgaraflokkurinn við.

Frá kosningunum 1991 liðu næstum 26 ár þar til þriggja flokka ríkisstjórn settist næst að völdum — ráðuneyti Bjarna Benediktssonar sem skipað var fulltrúum Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Stjórnin var skipuð í ársbyrjun 2017 en sprakk með látum þá um haustið og Bjarni er því eini forsætisráðherrann sem ekki hefur fengið að halda ræðu á gamlárskvöld.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er síðan ellefta þriggja flokka ríkisstjórnin.

Bitlingur Stefáns Valgeirssonar

Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1988–1991 sker sig úr í þessarri upptalningu hér að ofan úr því hún var fyrst fjögurra flokka og síðan fimm flokka stjórn. Stjórnina mynduðu eins og áður sagði Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur en hún naut stuðnings Stefáns Valgeirssonar, eina þingmanns Samtaka um jafnrétti og félagshyggju. Þetta var löngu áður en skattborgarar voru látnir greiða laun tuga aðstoðarmanna þingflokka og sætti ámæli þegar Stefán fékk ráðinn aðstoðarmann sem raunar var á launaskrá í forsætisráðuneytinu, en þetta var eitt skilyrða sem Stefán setti fyrir stuðningi við stjórnina. Samkomulagið varð hins vegar ekki opinbert fyrr en Alþýðublaðið komst á snoðir um það — ári eftir myndun stjórnarinnar.

Stefáni Valgeirssyni stóð til boða að gerast samgönguráðherra en hafnaði því þegar honum var tjáð að sú regla gilti að ráðherrar gætu ekki setið í stjórnum ríkisstofnana. Hann tók því setu sína í stjórn Byggðastofnunar, stjórnarformennsku í Stofnlánadeild og formennsku í bankaráði Búnaðarbankans fram yfir ráðherrastólinn.

Fjölflokkastjórn

Í umræðum eftir kosningarnar 2016 var hugtakið „fjölflokkastjórn“ notað um ríkisstjórn fjögurra og fleiri flokka. Svavar Gestsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Alþýðubandalagsins, mætti á Víglínuna á Stöð 2 í nóvember 2016 og ræddi um vinstristjórn Steingríms Hermannssonar þar sem hann sjálfur átti sæti. Stjórn sem naut stuðnings fimm flokka eftir að Borgarflokkurinn gekk til liðs við hana 1989. Um Steingrím sagði Svavar:

„Ég myndi fyrst og fremst segja laginn leiðtoga. Hann var laginn að tala við fólk þegar upp komu vandamál og erfiðleikar. Sem alltaf gerist. Hann hafði til dæmis lag á því að tala við okkur Ólaf Ragnar [Grímsson] sinn í hvoru lagi þótt við værum úr sama flokknum. Af því flokkurinn var dálítið klofinn á þeim tíma.“

Og Svavar bætti við:

„Þetta tal um að fjölflokka stjórnir séu séu vondar held ég að eigi rætur að rekja til Sjálfstæðisflokksins. Ég held að þeir vilji gjarnan telja þjóðinni trú um það.“

„Sögulegar sættir“

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er ekki bara söguleg fyrir þær sakir að vera fyrsta þriggja flokka stjórnin sem situr heilt kjörtímabil — sérstaða hennar er líka fólgin í samsetningunni — en frá því að Nýsköpunarstjórnin féll höfðu sósíalistar og sjálfstæðismenn aldrei starfað saman í ríkisstjórn og formaður flokksins yst á vinstri væng stjórnmálanna aldrei áður orðið forsætisráðherra.

Raunar hafði möguleika á samstarfi Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags verið velt upp í stjórnarkreppunni sem fylgdi í kjölfar alþingiskosninganna 1979. Nokkuð sem Styrmir Gunnarsson, þáverandi ristjóri Morgunblaðsins, kenndi við „sögulegar sættir“. Björn Bjarnason, blaðamaður á sama blaði og síðar ráðherra, hafði þá áður bent á þetta stjórnarmynstur í grein sem nefndist „List hins mögulega“. — Og það sýndi sig að stjórnmálin eru „list hins mögulega“ þegar Gunnar Thoroddsen myndaði hina óvenjulegu stjórn 1980.

Breiddin í ríkisstjórn Katrína er líka slík að hún hefur haft ýmis einkenni þjóðstjórnar. Eina „þjóðstjórnin“ hér á landi var ríkisstjórn Hermanns Jónassonar, föður áðurnefnds Steingríms, sem starfaði árin 1939–1942 — þó án þátttöku Sósíalistaflokks sem þóttu það sem nú myndi vera kallað „óstjórntækir“. Stjórnarstefnan verður eðli máls samkvæmt ekki ýkja skýr þegar flokkar til hægri og vinstri mynda með sér samsteypustjórn. Í Þýskalandi og Austurríki hafa ríkisstjórnir kristilegu flokkanna og sósíaldemókrata verið kallaðar Große Koalition og sýna ekki af sér mikil pólitísk tilþrif, enda lítil færi til afgerandi stefnumörkunar þegar flokkar mótaðir af gerólíkum hugsmyndastefnum mynda með sér stjórn. Það verður þá helst varðstaða um óbreytt ástand.

Í þessu sambandi er þó forvitnilegt að líta til Sviss. Þar er stöðugleiki stjórnmálanna slíkur að frá 1848 (sama ár og einveldi var afnumið í Danaveldi) hefur það aldrei hent að allir ráðherrar hverfi úr ríkisstjórn á sama tíma og frá árinu 1959 hafa sömu flokkar verið í stjórn, Frjálsir demókratar, Sósíaldemókratar, Kristilegir demókratar og Svissneski þjóðarflokkurinn.

Ég var eitt sinn á ferð í Genf og hitti föður svissnesk vinar míns sem starfar sem skemmtikraftur. Ég spurði hann hverju hann gerði einkum grín að: „Auðvitað stjórnmálamönnum,“ svaraði hann. „Svissneskum þá,“ spurði ég. — „Nei, frönskum, fólk þekkir ekki stjórnmálamennina hér og ekkert að gerast í svissneskum stjórnmálum sem hægt að henda gaman að.“

Á ýmsan hátt er pólitískur stöðugleiki Svisslendinga aðdáunarverður en á móti kemur að nýjum flokkum sem sprottið hafa upp er haldið utan við „þjóðstjórnina“. Og þegar öllu er á botnin hvolft er kannski æskilegra að stjórnarstefnan sé skýr og að kjósendur hafi einhverja valkosti um stefnu til hægri eða vinstri (eins gölluð og þau hugtök samt eru). Fjölflokkastjórnir eru hinn nýi veruleiki stjórnmálanna og meðan engin eiginleg blokkamyndun hefur átt sér stað í íslenskum stjórnmálum hafa kjósendur varla neina skýra valkostir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim
EyjanFastir pennar
04.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!
EyjanFastir pennar
03.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið