fbpx
Sunnudagur 12.janúar 2025
EyjanFastir pennar

„Kerfið ver sig með kjafti og klóm“

Eyjan
Sunnudaginn 13. júní 2021 18:30

Skóflustunga tekin að nýju skrifstofuhúsnæði Alþingis. Fáir voga sér að spyrja hvort nokkur þörf sé á öllu þessu húsnæði eða hvort þörf sé á öllum þessum starfsmönnum hjá hinu opinbera.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við þurf­um að skapa hvetj­andi um­hverfi fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki og auka ráðstöfunartekj­ur fólks. Það ger­ist með auknu frelsi, lægri skött­um, aukn­um einkarekstri og minni um­svif­um í rekstri hins op­in­bera.“

Þessi texti er tekin úr stefnuyfirlýsingu eins þeirra frambjóðenda sem gáfu kost á sér í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi sem lauk í gær, laugardag. Yfirlýsingar þingmannsefna eiga það til að vera staglkenndar og uppfullar af innihaldslitlum frösum en ég hygg að flestallir miðju- og hægrimenn gætu kvittað upp á þann texta sem birtist hér að ofan; þetta sé eitthvað sem þeir telji rétt að stefnt sé að.

Frambjóðendunum verður síðan gjarnan tíðrætt um mikilvægi þess að „minnka báknið“ og fjölyrða um skilning sinn á atvinnulífinu (þrátt fyrir að fæstir þeirra hafi mikla reynslu af rekstri fyrirtækja). Þeir segja síðan gjarnan að atvinnulífið eigi ekki að þurfa ekki að glíma við óeðlilegar hindranir eða ónauðsynlegar.

En verulega skortir á konkret hugmyndir um hvernig menn hyggist ráðast til atlögu við „báknið“ og reynslan sýnir að langflesta stjórnmálamenn skortir kjark til að taka til í opinberum rekstri. Það gildir jafnt um ríki sem borg. Þegar núverandi meirihluti borgarstjórnar var myndaður voru strengd heit þess efnis að ráðist yrði til atlögu við skuldahalann. Þá námu skuldir borgarinnar 299 milljörðum en hafa nú hækkað í 386 milljarða en aðeins tveir milljarðar fóru í aðgerðir vegna kórónaveirukreppunnar svo hún skýrir ekki þessa gríðarlegu hækkuð.

Komið að skuldadögum

Í júlí 2013 skipaði þáverandi ríkisstjórn hagræðingarhóp sem hafði þann tilgang að leggja til aðgerðir svo fara mætti betur með skattfé, forgangsraða í rekstri ríkissjóðs og auka skilvirkni. Hópurinn skilaði alls tillögum í 111 liðum, þar af 37 hugmyndum um sameiningu ríkisstofnana, en sárafáum var hrint í framkvæmd. Viðskiptablaðið innti Guðlaug Þór Þórðarson, sem sat í hópnum, álits á því tveimur árum síðar hvers vegna svo illa hefði gengið að framkvæma hugmyndir hópsins og svar hans var einfalt: „Kerfið ver sig.“

Kerfið ver sig af slíkum krafti að í miðri heimskreppu á síðasta ári hækkuðu laun ríkisstarfsmanna um 13,7% — en samsvarandi hækkun á almenna vinnumarkaðnum nam 8,5%. Tekjur ríkis og sveitarfélaga námu 1.246 milljörðum króna á síðasta ári eða sem samsvarar 42% af vergri landsframleiðslu. Útgjöldin voru aftur á móti mun meiri 1.461 milljarður og jukust um 10,5% milli ára.

Í skýrslu Viðskiptaráðs „Hugsum stærra — Ísland í alþjóðsamkeppni“ sem gefin var út fyrir nýliðið Viðskiptaþing kemur fram að að skattbyrði hér á landi sé sú næstmesta meðal ríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Alþjóðleg fyrirtæki (þar með talið innlend fyrirtæki með fjölþjóðlega starfsemi) horfa að vonum mjög til skattheimtu við mat á staðsetningu ólíkra hluta starfsemi sinnar og að þessu leytinu til er Ísland lítt samkeppnishæft. Skattar hér eru ekki einasta háir í alþjóðlegum samanburði heldur er kerfið óskilvirkt. Það kemur meðal annars til vegna seinagangs hins opinbera, ósamræmis í framkvæmd laga og reglna og ófyrirsjáanleika.

Hið opinbera er komið í slíkar ógöngur að stjórnmálamenn eru nauðbeygðir til að horfa til hugmynda sem fram hafa komið um bætta meðferð skattfjár. Svigrúm til aukinna útgjalda verður lítið sem ekkert á næstu árum. Verkefni dagsins er að vinda ofan af rekstri ríkis og borgar, leita leiða til hagræðingar, sameina stofnanir og í því efni má gjarnan dusta rykið af tillögum hagræðingarhópsins frá 2013. Á sama tíma þarf að huga að samkeppnishæfni Íslands en Viðskiptaráð hefur til að mynda bent á leiðir til að auka framleiðni í opinberum rekstri og segir óraunhæft að hið opinbera takist á við þau viðfangsefni sem framundan eru með því að hækka skatta enda séu skattar hér með því hæsta sem gerist í þróuðum ríkjum.

Milljarður hér og milljarður þar

Sá sem hér heldur á penna sat eitt sinn á framboðslista og tók þátt í kosningabaráttu fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2014. Ég minnist þess sérstaklega að reyndir stjórnmálamenn réðu frambjóðendum eindregið frá því að tala um lækkun skatta — það hefði enginn áhuga á að hlusta á slíkt! Þetta eru því miður sorglegar staðreyndir sem endurspeglast í því að flestir ráðherranna láta nú ljósmyndara dagblaðanna mynda sig í gríð og erg að klippa á borða og taka skóflustungur þar sem lofað er milljarði hér og milljarði þar. Fyrsta frétt í fréttatímum er líka oftar en ekki að milljarð vanti hér og milljarð vanti þar. Sárafáir velta því aftur á móti fyrir sér hvort ekki megi leita leiða til sparnaðar í opinberum rekstri og auka virðingu fyrir peningum skattborgara. Við erum nauðbeygð til að vinda ofan af skuldum ríkissjóðs í fyrirsjáanlegri framtíð og þurfum á stjórnmálamönnum að halda sem hafa kjark til að takast á við það verkefni.

Stórum hluta kjósenda ofbýður bruðlið og skuldasöfnun hins opinbera og það má vel afla atkvæða hjá þessum hópi. Stjórnmálamenn sem róa á þau mið þurfa að hafa kjark og þor til að glíma við gíruga embættismenn minnugir þess að „kerfið ver sig“ með kjafti og klóm.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
30.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta
EyjanFastir pennar
29.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Ég trúi því að alheimurinn vilji okkur vel

Steinunn Ólína skrifar: Ég trúi því að alheimurinn vilji okkur vel
EyjanFastir pennar
22.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!