fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Alræðisöflin söm við sig

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 18. apríl 2021 18:00

Kínversk lögregla handtekur mótmælendur sem höfðu í frammi stuðning við málstað Úígúra. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fimmtudaginn 9. nóvember 1939 gerðust þau fáheyrðu tíðindi í Reykjavík að lögregluþjónar fóru um bókabúðir bæjarins og söfnuðu saman öllu upplagi bókarinnar Í fangabúðum eftir Wolfgang Langhoff en áður hafði sala hennar verið stöðvuð að kröfu þýska ræðismannsins dr. Werners Gerlach. Bókin var gerð upptæk á grundvelli þágildandi ákvæðis hegningarlaga um móðgun gegn erlendu ríki og ríkisstjórn sem voru í vináttusambandi við konung Íslands. Í Þjóðviljanum var bent á að upptaka á bókinni færi í bága við þágildandi 68. gr. stjórnarskrár konungsríkisins Íslands þar sem sagði: „Ritskoðun og aðrar tálmanir fyrir prentfrelsi má aldrei í lög leiða.“

Alræðisöflin söm við sig

Þessi tæplega 82 ára frétt Þjóðviljans rifjaðist upp fyrir mér þegar sendiráð Kínverska alþýðulýðveldisins lét frá sér tilkynningu á dögunum þar sem sagði að ákveðið hefði verið að beita „refsiaðgerðum gagnvart einum íslenskum einstaklingi sem skaðar fullveldi og hagsmuni Kína alvarlega með því að dreifa lygum og upplýsingaóreiðu með illgirnislegum hætti,“ eins og það er orðað í tilkynningunni.

Alræðisöflin eru söm við sig hvort sem um er að ræða þýska nasistaflokkinn eða kínverska kommúnistaflokkinn.

Vindhögg

Líkt og greint hefur verið frá í fréttum er umræddur einstaklingur Jónas Haraldsson lögmaður. Honum eru óheimilt að ferðast til Kínverska alþýðulýðveldisins og þá hafa mögulegar eignir hans þar í landi verið kyrrsettar. Jónas sagði í samtalið í Fréttablaðið að þetta bitnaði ekkert á honum og bætti við: „Það hefði þurft eitt­hvað annað og bita­stæðara til að sparka í mig. Þetta er bara mátt­laust.“ Hann ætti engar eignir í Kína, væri ekki í neinum viðskiptum þar og hygði ekki á ferðalög þangað.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kom eðlilega á framfæri harðorðum mótmælum íslenskra stjórnvalda gegn þessari aðför kínverskra stjórnvalda að tjáningarfrelsi íslensks ríkisborgara.

Að faðma böðulinn

Í yfirlýsingu kínverska sendiráðsins segir að það fordæmi þvingunaraðgerðir Íslands og Evrópusambandsins gegn Kína vegna mannréttindabrota gegn Úígúrum í Xinjiang-héraði í Kína. Því hafi verið ákveðið að leggja refsiaðgerðir á einn ís­lenskan ríkis­borgara.

Athygli vekur að um leið og kínversk stjórnvöld tilkynna að þau hafi sett Íslending á „svartan lista“ þá birtist grein í Morgunblaðinu eftir Jónínu Bjartmarz, fyrrv. þingmann og ráðherra Framsóknarflokksins, þar sem hún ber í bætifláka fyrir kínversk stjórnvöld. Hún gengur raunar svo langt að segja Úígúra njóta „ýmissa forréttinda og hlunninda“. Skrif ráðherrans fyrrverandi eru með hreinum ólíkindum. Nei, það verður seint sagt að Úígúrar njóti velvilja hinna háu herra í kínverska kommúnistaflokknum.

Lygin

Eitt höfuðeinkenni alræðisins er lygin og áhangendur kommúnískra og fasískra ríkisstjórna fyrr og nú hafa ekki annan kost en að sökkva sér í fenið og faðma böðulinn. Allir sannir lýðræðissinnar og unnendur mannréttinda skyldu á hinn bóginn standa með sannleikanum og halda uppi vörnum fyrir hinn kúgaða og ofsótta.

Þær grimmilegu ofsóknir sem Úígúrar sæta af hálfu ráðamanna í Peking falla að öllum skilgreiningum á þjóðarmorði (fr. génocide). Hundruð þúsunda úígúrskra kvenna hafa verið þvingaðar til fóstureyðinga á sama tíma og konur af öðrum uppruna í héraðinu eru hvattar til barneigna. Á aðra milljón Úígúra er haldið í fangabúðum ótímabundið þar sem þeir sætta hrottalegri meðferð. Flestir þeirra sem hnepptir eru í fangabúðir eru karlmenn en allt frá árinu 2017 hafa eiginkonur þeirra verið píndar til að taka á móti karlkyns útsendurum Kommúnistaflokksins. Sú áætlun er kölluð „Pörumst og verðum fjölskylda“.

Þjóðarmorð

Í Fréttablaðinu í fyrrasumar sagði frá Gulnar Omirzakh, úígúrskri konu sem flúði til Kasakstan. Hún sagði markmið kínverskra stjórnvalda vera að útrýma þjóð sinni. Eftir að hún átti sitt þriðja barn var hún neydd til að setja upp lykkjuna og sektuð um sem samsvarar 360 þúsund íslenskum krónum. Sjálf er hún bláfátæk og eiginmaður hennar í fangabúðum kínverskra stjórnvalda. Hún sá engan annan kost en flýja ella hefðu hennar beðið sömu örlög og eiginmannsins.

Í umræddri frétt var greint frá annari konu, Tursunay Ziyawudun. Hún var send í fangabúðir og sprautuð þar til hún hætti að fara að blæðingar. Í ofanálag var hún beitt hrottafengnum pyndingum sem miðuðu að því að gera hana ófrjóa.

Útrýmingarherferð kínverskra stjórnvalda hefur leitt til þess að fólksfjölgun í Xinjiang-héraði hefur fallið um meira en 60% samkvæmt frétt AP.

Gefum ekki þumlung eftir

Aðgerðir kommúnistastjórnarinnar í Peking gegn íslenskum borgara ættu að vera okkur öllum áminning um mikilvægi þeirra grundvallarhugmynda og -hugsjóna sem samfélagsgerð okkar byggir á: frelsis, mannhelgis og mannúðar.

Rétt væri að íslenskir fjölmiðlar ykju verulega umfjöllun sína um ofsóknir á hendur Úígúrum. Höldum uppi merki þeirra Gulnar Omirzakh, Tursunay Ziyawudun og annarra sem sæta kúgun og ofsóknum. Og látum það aldrei aftur henda að íslensk stjórnvöld láti undan ofríki alræðisstjórna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
20.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn
EyjanFastir pennar
19.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu